Skip to main content

Lea Ypi

Lea Ypi er prófessor í stjórnmálafræði við London School of Economics. Hún er fædd og uppalin í Albaníu sem var á þeim tíma eitt einangraðasta land heims. Hugmyndafræði kommúnisma var ríkjandi og erlend áhrif á landið mjög takmörkuð. Landið var lokað ferðamönnum og íbúum Albaníu gert erfitt fyrir að yfirgefa heimalandið. Það ríkti mikill skortur á nauðsynjavöru, biðraðamenning var við lýði og aftökur og njósnir daglegt brauð. Ypi lýsir þessu ástandi mjög vel í uppvaxtarsögur sinni Frjáls: Æska í skugga járntjaldsins sem kom út í þýðingu Eyrúnar Eddu Hjörleifsdóttur. Þar lýsir hún einnig stöðunni eftir hrun kommúnismans í desember 1990, en þá gjörbreyttist staðan. Landið opnaði, kosningar urðu frjálsar en verksmiðjur lokuðu og svindlarar keyrðu landið í þrot. Þúsundir flýðu og Ypi veltir því fyrir sér í bókinni hvað það felst í rauninni í því að vera frjáls. Þetta er eina bók Ypi sem skrifuð er fyrir almenna lesendur en tónninn er gamansamur og aðstæður eru séðar með augum barns. Lea Ypi hefur hlotið fjölda verðlauna fyrir skrif sín, þar á meðal Philip Leverhulme-verðlaunin og Brian Barry-verðlaun bresku akademíunnar fyrir stjórnmálafræði. Hún er reglulegur penni hjá The Guardian, New Statesman og The Independent.

Viðburðir með Leu Ypi: