Bókmenntahátíð í Reykjavík er hátíð lesenda og höfunda. Hún er helsti bókmenntaviðburðurinn sem fram fer í Reykjavíkurborg. Hátíðin hefur verið haldin síðan árið 1985 og á vegum hennar hafa hundruðir erlendra rithöfunda, bókaútgefenda, umboðsmanna höfunda og blaðamanna sótt borgina heim. Á hátíðinni eru skipulagðir fjölbreyttir viðburðir fyrir lesendur og höfunda; upplestrar, samtöl, fyrirlestrar, barnadagskrá, kvikmyndasýningar, umræður, ljóðalestur, ritsmiðjur og fleira.
Allir viðburðir hátíðarinnar eru ókeypis og öllum opnir og hátíðin er afar vel sótt af áhugasömum lesendum. Mikið er lagt upp úr aðgengismálum og eru viðburðir einnig aðgengilegir í streymi. Hátíðin leggur áherslu á tjáningarfrelsi og mannréttindamál og á hátíðinni fara fram viðburður sem eru sérstaklega helgaðir þeim málefnum.
Bókmenntahátíðin á í samstarfi við fjölmargar stofnanir og samtök sem sinna bókmenntum, til dæmis bókasöfnin í borginni, Gerðuberg, Bókmenntaborgina, PEN International, ICORN, Miðstöð íslenskra bókmennta, Félag íslenskra bókaútgefenda, Norræna húsið og Gljúfrastein. Þá á hátíðin í samstarfi við fjölmargar hátíðir út í heimi, til dæmis hvað varðar ýmsar dagskrár og höfundar, og þá heldur hátíðin úti viðamikilli og mjög eftirsóknarverðri dagskrá fyrir erlenda bókaútgefendur sem hingað vilja koma til þess að kynna sér íslenskar bókmenntir og höfunda.
Hátíðin heldur úti tvennum verðlaunum í samstarfi við aðra. Önnur kallast Orðstír og eru heiðursverðlaun sem veitt eru þýðendum af íslensku á önnur mál. Tveir þýðendur fá verðlaunin í hvert sinn. Að verðlaununum, auk hátíðarinnar, standa embætti forseta Íslands, Íslandsstofa, Bandalag þýðenda og túlka og Miðstöð íslenskra bókmennta.
Hin verðlaunin nefnast Alþjóðleg bókmenntaverðlaun Halldórs Laxness og eru veitt annað hvert ár alþjóðlega þekktum rithöfundi fyrir að stuðla að endurnýjun sagnalistar með verkum sínum, en fyrir það hlaut Halldór sjálfur Nóbelsverðlaunin á sínum tíma. Verðlaunin hafa verið veitt síðan árið 2019 eru verðlaunahafar þau Ian McEwan, Elif Shafak og Andrei Kúrkov. Að alþjóðlegum bókmenntaverðlaunum Halldórs Laxness standa, auk hátíðarinnar, Gljúfrasteinn, Forlagið, Íslandsstofa, forsætisráðuneytið og menningar- og viðskiptaráðuneytið.