Skip to main content

Dina Nayeri

Dina Nayeri er íranskur rithöfundur. Hún hefur sent frá sér tvær skáldsögur en er líklega þekktust fyrir fræðibók með skáldlegu ívafi, Vanþakkláti flóttamaðurinn (2019), sem kom út í íslenskri þýðingu Bjarna Jónssonar hjá Angústúru árið 2022. Bókina byggir hún á eigin reynslu af því að vera flóttamaður, en átta ára gömul flúði hún frá Íran ásamt móður sinni og bróður eftir að móðir hennar tók upp kristna trú og var hótað aftöku af stjórnvöldum þar í landi. 

Dina er handhafi Geschwister Scholl Preis og komst í úrslit Los Angeles Times bókaverðlaunanna, Kirkus-verðlaunanna og Elle Grand Prix des Lectrices. Hún hlaut árið 2018 Paul Engle-verðlaun UNESCO og var árin 2019-2020 félagi við Columbia Institute for Ideas and Imagination í París. The Guardian sagði bókina Vanþakkláti flóttamaðurinn „áleitna og ótrúlega mikilvæga“,  en samnefnd grein Dinu var ein mest lesna grein blaðsins árið 2017. Hún er enn kennd í skólum og um allan heim og hefur endað í safnritum á ótal tungumálum. 

 Verk Dinu hafa verið birt í yfir tuttugu löndum og í útgáfum á borð við The New York Times, The Guardian, The Washington Post, The New Yorker og Granta. Örleikrit hennar hafa verið sett upp af English Touring Theatre og The Old Vic í London. Dina vinnur nú að handritum fyrir leiksvið og sjónvarp. Einnig eru væntanlegar frá henni þrjár bækur, The Waiting Place, barnabók um flóttamannabúðir, Who Gets Believed, fræðibók með skáldlegu ívafi og skáldsagan Sitting Bird. Hún hefur nýlega hlotið fastráðningu við háskólann í St. Andrews. 

Viðburðir með Dinu Nayeri: