Skip to main content

Vigdis Hjorth

Höfundurinn Vigdis Hjorth er ein sterkasta rödd norskra samtímabókmennta. Hún ólst upp í Osló og lærði heimspeki, bókmenntafræði og stjórnmálafræði. Hún gaf út sína fyrstu bók, barnabókina Pelle-Ragnar i den gule garden, árið 1983. Síðan þá hefur hún gefið út fjölda skáldsagna, barnabóka og greina og unnið til fjölmargra verðlauna. Skáldsagan Arfur og umhverfi (Arv og miljö) er líklega þekktasta verk Hjorth og hefur verið þýdd yfir á fjölda tungumála. Hún kemur út á hjá Forlaginu á næstu misserum í þýðingu Ísaks Harðarsonar. Í henni fjallar Hjorth um konu sem stendur í erfðadeilu við fjölskyldu sína og um ofbeldi æskuára aðalpersónunnar. Sterklega er gefið í skyn að bókin sé að hluta til byggð á lífi höfundarins, en látið er liggja á milli hluta hversu langt það nær. Arv og miljö vakti mikið umtal og úr varð heilmikið samtal um siðferði og áhrif listar þar sem mörkin á milli skáldskapar og raunveruleika eru afmáð. Systir Hjorth skrifaði í kjölfar útgáfu Arv og miljö sína eigin skáldsögu, sem fjallar um rithöfund sem slítur fjölskyldu sína í sundur með upploginni skáldsögu um ofbeldi af hendi föður síns. Hjorth hefur unnið til fjölda verðlauna og verið tilnefnd til bókmenntaverðlauna Norðurlandaráðs. Árið 2002 kom út á íslensku bókin Mamma: Skáldsaga eftir Hjorth hjá Almenna bókafélaginu í þýðingu Sólveigar Brynju Grétarsdóttur. 

Viðburðir með Vigdisi Hjorth