Nýverið kom út eftir Ingólf Eiríksson bókverkið Klón: eftirmyndasaga. Klón er ljóðsaga, myndskreytt af Elínu Eddu Þorsteinsdóttur. Umfjöllunarefni bókarinnar er ævi klónahundsins Samsonar Ólafssonar Moussaieff, en líkt og frægt er orðið létu fyrrum forsetahjónin klóna hund sinn, Sám, til þess að eignast eftirmyndina Samson. Ævi Samsonar er í bókinni rakin á fallegan og frumlegan hátt. Hugmyndir um frumsköpun og eftirmyndir spila stórt hlutverk í bókinni, sem og listamaðurinn Salvador Dali. Ingólfur hefur áður birt ljóð í Tímariti Máls og menningar og Fríyrkjunni I ásamt því að hafa flutt pistla og skrif sín í útvarpi. Fyrsta ljóðabók hans, Línuleg dagskrá, var gefin út 2018 af Partus. Ingólfur hlaut Nýræktarstyrk Miðstöðvar íslenskra bókmennta í ár fyrir Stóru bókina um sjálfsvorkunn, sem kom út nú á dögunum.
Ingólfur tekur þátt í tveimur dagskrám á hátíðinni; annars vegar í ljóðadagskrá og hins vegar í pallborði sem kallast Fáránleiki og veruleiki.