Skip to main content

Alexander Dan

Fyrsta skáldsaga Alexanders Dan, Hrímland, kom út árið 2014 og skipaði hann sér þá strax sess sem einn helsti furðusagnahöfundur landsins. Leiðin að útgáfunni var þó ekki einföld. Lítil hefð er fyrir furðusögum sem ætlaðar eru fullorðnum á íslenskum bókamarkaði og var enginn útgefandi tilbúinn að veðja á Hrímland. Alexander endaði á því að gefa bókina út sjálfur á íslensku, sem reyndist gæfuspor. Breska forlagið Gollancz heillaðist af bókinni og keypti útgáfuréttinn að henni, ásamt framhaldssögu. Hrímland hefur nú komið út bæði í Bandaríkjunum og Bretlandi.  Framhald Hrímlands, The Storm Beneath a Midnight Sun, er væntanleg á næsta ári. Alexander er auk þess ritstjóri og útgefandi tímaritsins Furðusögur, sem fjallar um fantasíubókmenntir og vísindaskáldskap. Samhliða skrifum og textavinnu er Alexander söngvari hljómsveitarinnar Carpe Noctem.

Alexander Dan tekur þátt í tveimur pallborðum: Sagnfræði, sálfræði og sci-fi annars vegar og hins vegar í Ótrúlegt en satt.