Alþjóðlega bókmenntahátíðin í Reykjavík verður sett miðvikudaginn 8. september með pompi og prakt og stendur til laugardagsins 11. september. Blásið verður til mikillar veislu í ár og verður sannkölluð og verðskulduð hátíð lesenda, höfunda, útgefenda og annars bókmenntafólks.
Hátíðin hefur verið haldin að jafnaði annað hvert ár allt frá árinu 1985 og er því haldin í fimmtánda sinn þetta árið. Von er á fjölda höfunda, en líka útgefendum og blaðafólki sem koma víðs vegar að til þess að taka þátt, hitta lesendur, fylgjast með nýjum vendingum í bókaheiminum og taka púlsinn á spennandi íslenskum höfundum.
Galdur Bókmenntahátíðar í Reykjavík felst ekki hvað síst í nálægð lesenda og höfunda. Hátíðin er þeirra og hér gefst höfundum einstakt tækifæri að hitta fyrir lesendur sína og fyrir lesendur að hitta höfunda. Höfundar sem tekið hafa þátt í Bókmenntahátíð í Reykjavík í gegnum tíðina hafa talað um þessa nánd við áhugasama lesendur sem einn af hápunktum Íslandsheimsóknar sinnar.
Sem fyrr er ókeypis inn á alla viðburði hátíðarinnar og þeir öllum opnir. Dagskráin, sem fer fram í Iðnó, Norræna húsinu og víðar, verður kynnt nánar á samfélagsmiðlum og heimasíðu þegar nær dregur, en óhætt er að halda því fram að allir lesendur geti fundið eitthvað við sitt hæfi. Verið hjartanlega velkomin!