Skip to main content

Reykjavík Fellowship Program 2021 – bransadagar hátíðarinnar

Síðan árið 2000, þegar Reykjavík var ein af Menningarborgum Evrópu, hafa erlendir útgefendur verið virkir þátttakendur á Bókmenntahátíð í Reykjavík í bransadagskrá sem kölluð er Reykjavík Fellowship Program. Upphaflega var völdum útgefendum boðið en á síðustu árum hafa bæði útgefendur og umboðsmenn höfunda getað sótt um að komast að í þessa dagskrá og komast mun færri að en vilja. Umsóknir hafa verið hátt í hundrað talsins en á bilinu 12-15 eru teknir inn í hvert skipti. Reykjavík Fellowship Program hefur gríðarlega þýðingu fyrir íslenska útgefendur, íslenska rithöfunda og síðast en ekki síst þátttakendurna sjálfa sem mynda tengsl sín á milli og kynnast íslenskum höfundum og spennandi bókum þeirra af eigin raun.

Þátttakendur á hátíðinni í ár eru:

Trude Kolaas – Immaterial Agents (Noregur)

Trude Kolaas stýrir umboðsskrifstofunni Immaterial Agents, sem leggur áherslu á norræna höfunda. Meðal þeirra höfunda sem hún vinnur með eru Bergsveinn Birgisson, Kristín Helga Gunnarsdóttir og Auður Jónsdóttir. 

 

Lisanne Mathijssen-van Hoorn – HarperCollins (Holland)

Lisanne Mathijssen-van Hoorn er ritstjóri hjá HarperCollins í Hollandi. HarperCollins hefur starfað í tvö hundruð ár og er með skrifstofur um allan heim. HarperCollins í Hollandi gefur út um 90 titla á ári með áherslu á fjölbreytt úrval af almennum skáldskap fyrir alla lesendahópa.

 

Job Lisman – Prometheus (Holland)

Job Lisman er útgáfustjóri hjá Prometheus, einu af stærstu bókaforlögum Hollands, og jafnframt því stærsta sjálfstæða. Prometheus gefur út um 180 nýja titla á ári, hollenska jafnt sem þýdda, skáldskap jafnt sem bækur almenns efnis.

 

Annette Orre – OLA & Aschehoug (Noregur)

Annette Orre er umboðsmaður fjölmargra norskra höfunda hjá Oslo Literary Agency, stærstu umboðsskrifstofu rithöfunda í Noregi, auk þess að vera ritstjóri fagurbókmennta og glæpasagna hjá Aschehoug. Á meðal helstu höfunda Annette má nefna t.d. Helenu Flood, höfund Þerapistans, og Maju Lunde, sem sló í gegn með Sögu býflugnanna og var einmitt gestur á Bókmenntahátíð árið 2o19.

Becca Parkinson – Comma Press (Bretland)

Becca Parkinson er kynningarstjóri hjá Comma Press, bókaútgáfu sem er ekki rekin í hagnaðarskyni. Comma Press sérhæfir sig í þýddum smásögum og skáldskap. Árið 2017 hlaut Comma Press verðlaunin „Northern Publisher of the Year“ og var á lista bresku bókaverðlaunanna fyrir „Small Press of the Year“ árið 2019 og 2020. Comma Press gefur út í haust safn smásagna frá Reykjavík.

Liliia Omelianenko og Eliash Strongowski – Vydavnytstvo (Úkraína)

Liliia Omelianenko og Eliash Strongowski eru útgefendur hjá úkraínska forlaginu Vydavnytstvo. Þar er lögð áhersla á að færa úkraínskum lesendum alþjóðlegar metsölubækur og þýðingar af evrópskum tungumálum. Vydavnytstvo er álitið framsæknasta útgáfufyrirtæki í Úkraínu og gefur út bækur sem snerta á jafnrétti, mannréttindum, femínisma, heimspeki, hinsegin málefnum og fleira sem þykir framúrstefnulegt á úkraínskum markaði. Vydavnytstvo vinna nú með nokkrum íslenskum höfundum: Sjón, Fríðu Ísberg og Guðrúnu Evu Mínervudóttur.

Regine Schmitt – Piper Verlag (Þýskaland)

Regine Schmitt er ritstjóri skáldverka hjá Piper Verlag, öflugu forlagi með ríka sögu. Piper er yfir 100 ára gamalt og hefur fært fjölda spennandi og áhrifamikilla bóka af öllu tagi til breiðs hóps lesenda. Piper gefur út bækur af öllum gerðum og er á höttunum eftir íslenskum höfundi á útgáfulistann.

 

Joachim Schnerf – Grasset (Frakkland)

Joachim Schnerf er ritstjóri hjá franska forlaginu Grasset, sem er einn helsti útgefandi bókmennta og skáldskapar í Frakklandi. Grasset var stofnað 1907 og gefur í dag út um 150 nýja titla á ári, þar á meðal íslensku höfundana Jón Kalman Stefánsson og Einar Kárason.

 

Saara Tiuraniemi – Tammi (Finnland)

Saara Tiuraniemi er útgefandi hjá Tammi C&J. Tammi er eitt af leiðandi forlögum Finnlands, bæði í finnskum og þýddum bókmenntum. Frá stofnun 1943 hafa útgefendur Tammi lagt áherslu á gæðabókmenntir, einkum barna- og unglingabókmenntir.

 

Jacob Søndergaard – Gutkind Forlag (Danmörk)

Jacob Søndergaard er útgefandi hjá Gutkind Forlag, nýstofnuðu dönsku forlagi sem hefur notið mikillar velgengni á þeim stutta tíma sem það hefur verið starfrækt og vakið mikla athygli fyrir líflega markaðsetningu útgefinna bóka sinna. Gutkind leggur áherslu á skáldskap og fræðibókmenntir, bæði á dönsku og í þýðingum.

 

Claudia Winkler – Ullstein (Þýskland)

Claudia Winkler er ritstjóri hjá þýska forlaginu Ullstein og sér um kaup á útgáfuréttindum frá Skandinavíu, Bretlandi og Þýskalandi. Hún leitar eftir alls kyns tegundum bókmennta; glæpasögum, spennusögum og léttmeti, auk bókmennta. Ullstein er með aðsetur í Berlín og er eitt helsta forlag Þýskalands. Þau gefa meðal út Gerði Kristnýju.