Skip to main content

Hannah Kent: Opnunarávarp 2023

Gott kvöld. 

Ég get seint lagt nógu mikla áherslu á það hvað mér þykir mikið til þess koma að vera hér með ykkur í kvöld, og hvað mér er mikill heiður að því að sækja þessa mögnuðu bókmenntahátið.  

Fyrir tuttugu árum kom ég hingað til landsins sem skiptinemi. Það ár var vægast sagt örlagaríkt. Ísland vann hug minn og hjarta með þeim hætti að ég á enn erfitt með að koma orðum að því, nú tveimur áratugum síðar. Ég heillaðist af landinu og það vakti hjá mér hugarflugið. Þetta hefur ekki breyst í tímans rás. Eftir því sem ég verð eldri staðfestist stöðugt sá skilningur minn að Ísland hafi markað tímamót í lífi mínu. Það kallaði fram rithöfundinn innra með mér. 

*

Ein af ástæðum þess að ég sótti um að taka þátt í nemendaskiptum eftir framhaldsskóla var sú að ég var ekkert spennt fyrir að fara í háskólanám.  Það var komið að ákveðnum tímamótum í náminu hjá mér og ég vildi ekki ráðast í frekara nám án þess að hafa markað mér skýra stefnu. Ég vonaðist eftir því að með því að taka mér eins árs hlé gæti ég áttað mig á því hverju ég vildi helga mig til framtíðar. Þegar ég var yngri hafði ég átt mér draum um að verða rithöfundur, en margir voru þeir (einkum kennarar) sem töluðu mig ofan af slíkum metnaði en héldu að mér „öruggari“ starfsleiðum. Þegar ég kom til Íslands, unglingur við upphaf fullorðinsáranna, var ég í mikilli óvissu um það hvað gæti talist starfsframi við hæfi. 

Ég hafði að vísu lokið framhaldsskólanámi í Ástralíu, en það var gerð krafa til mín sem skiptinema að ég stundaði nám við Fjölbrautaskóla Norðurlands vestra á Sauðárkróki, þar sem ég hafði verið skráð. Mér reyndist erfitt að sækja kennslustundir á tungumáli sem ég hafði aldrei komist í kynni við áður, og fyrstu mánuðina var ég býsna oft utanveltu, annars hugar eða upptekin við að skrifa fjölskyldu minni bréf. 

Dag einn heillaðist ég að undarlegri skammdegisbirtunni við gluggann og fór að skrifa ljóð á spássíuna í stílabókini minni. Ég varð svo niðursokkin við iðju mína að ég tók ekki eftir því að íslenskukennarinn stóð fyrir framan mig fyrr en hann ræskti sig. Þetta var hávaxinn og mikilúðlegur maður og hann horfði brúnaþungur á mig um leið og hann sló fingri á síðuna þar sem óunnin verkefnin breiddu úr sér. 

„Hvað er svo merkilegt að það tefji þig frá því að vinna verkefnin þín?“·Hann tók upp stílabókina og rýndi í það sem ég hafði krotað.

Ég stundi upp afsökun.

„Er þetta ljóð?“

Ég kinkaði kolli.

„Hmm.“ Hann lagði stílabókina aftur á borðið og leit á mig alvarlegur á svip. Svo fór hann aftur að kennaraborðinu. Ég var miður mín og hélt áfram með verkefnið.  

Nokkrum dögum síðar var ég aftur í tíma hjá þessum kennara. Hann setti íslenskum nemendum sínum fyrir og kinkaði snöggvast kolli til mín til merkis um að ég skyldi koma að kennaraborðinu. Ég sá mína sæng uppreidda en mér til mikillar undrunar rétti hann mér ljóðabók.

„Þetta er handa þér,“ sagði hann. 

Ég opnaði bókina og sá að hann hafði skrifað á titilblaðið. „Til þín, Hannah, frá skáldi til skálds.“ Frá þeirri stundu leyfði þessi íslenskukennari minn að skrifa eins mikið af ljóðum og mig lysti í þessum tímum.  

Þetta var kannski lítið viðvik fyrir honum, en fyrir mér var þetta stórkostleg staðfesting, sú fyrsta af mörgum sem mér hlotnuðust á þessu ári sem ég dvaldi þarna. Á Íslandi kynntist ég samfélagi sem hyllti menningararf sinn af alvöru og festu. Ég upplifði mikla undrun og gleði þegar ég kynntist Íslendingasögunum, en líka þekkingu almennings á þeim og lotningu fyrir þeim. Ég sá troðfullar bókahillur í afskekktum bændabýlum, bókabúðir voru líka ansi margar miðað við höfðatölu. Ég fræddist um hefðbundinn upplestur sagna á kvöldvökum á nítjándu öld og um fögnuðinn sem fylgdi jafnan jólabókaflóðinu. Þarna fékk bældur metnaður minn til bókmenntaiðkunar ótrúlega magnaða uppörvun. Mér varð smám saman ljóst að ég var stödd í eins konar heimalandi rithöfunda og lesenda. Þarna var Nóbelsverðlaunahafi sem var höfundur skáldsögunnar Sjálfstætt fólk, sem er líklega ein fárra fullkominna skáldsagna sem samdar hafa verið. Hvergi í veröldinni eru gefnar út jafnmargar bækur miðað við höfðatölu. Flestar bækur eru lesnar. Skáld eru úti um allar trissur og bókabúðir eru veglegri en tíðkast i heimkynnum mínum, þrátt fyrir fámennið. Sagnahefðin skipar veglegri sess í menningu Íslands og þjóðararfi en ég hef kynnst annars staðar. Ég varð vitni að þessari þungamiðju, virðingu fyrir tungumálinu, dálæti og þrá, og einnig komst ég að mætti tungumálsins. Með tíð og tíma veittist mér það sem ég hafði vonast til við þessi nemendaskipti: sannfæringu og stefnu.

Eins árs Íslandsdvöl gerði að engu áhrif úrtalna og efasemda um tíu ára skeið. Ég skrifaði svo mikið meðan ég var hér. Ég fyllti möppu og gat sótt um háskólanám í skapandi skrifum. Þegar ég fór frá Íslandi fannnst mér ég eiga yfir 300 þúsund hauka í horni sem hvöttu mig til að semja bókmenntir. 

Þakklæti mitt til Íslands takmarkast þó ekki við það hvernig landið hlúir að höfundum og hefur trú á þeim. Landið sjálft er líka uppspretta sagnahefðar. 

Nú hef ég velt því fyrir mér um árabiI hvernig svona afskekkt eyland getur haldið á lofti svo ríkri staðbundinni sagnahefð og höfðað jafnframt til hins sammannlega. Hvernig stendur á þvi að í bókabúðinni sem ég versla við í Adelaide Hills, hinum megin á hnettinum, sjást verk íslenskra höfunda aftur og aftur í bókahillunum? Hvernig stendur á því að bóksalar eru alltaf að gauka að mér þessum verkum og skora á mig að lesa þau? Ég veit um marga ástralska lesendur sem líta á verk Sjóns nánast sem guðspjallið sjálft. Fyrir viku hlustaði ég á bóksala sem var að lofsyngja Dýralíf eftir Auði Övu Ólafsdóttur með ríflega tíu mínútna langri ræðu. Fjölmargir íslenskir höfundar eru þekktir um allan heim og njóta verðskuldaðra vinsælda, enda eru raddir þeirra einstakar. Fyrir tveimur vikum samdi ég ritdóm um skáldsögu sem gerist í Reykjavík. Höfundur hennar er ástralskur. Sögumaður er gestkomandi á Íslandi og lætur þessa athugasemd falla: „Miðað við smæð Íslands og einangrun þess bíður það yfir miklum töfrum.“ Það er öldungis rétt, en hverjir eru þessir töfrar, og hvers vegna höfða þeir svona sterkt til rithöfunda? Hvers vegna er svona auðvelt að beita þeim?

Ég hef ekkert svar á takteinum, en ég velti þvi fyrir mér hvort náttúra landsins eigi ekki hut að máli. Sérkennileg fegurð þess, grimmd þess og velvild. Land þar sem oft sjást kennileiti í órafjarlægð, þar sem himinninn kemur sífellt á óvart vegna birtunnar eða skorts á birtu, þar sem náttúran er ekki hólfuð af, sér á parti og undir eftirliti. Er þetta vegna þess að veturinn er dimmur og langur, eða vegna þess að mönnum finnst þeir berskjaldaðir hér og gera sér grein fyrir því að lífið er dýrmætt og forgengilegt, mannleg tilvist í senn lítilsigld og merkingarrík? Eða er það þetta hvort tveggja? Ég get ekki mælt fyrir munn allra rithöfunda en þegar maður er umkringdur nánast óbærilegri fegurð landsins verð ég dálítið aum og þá finnst mér ég verða að koma einhverju úr lífi mínu á blað. Jafnvel mnningin um Ísland er mér stöðugur innblástur. Náðarstund  segir frá lífshlaupi Agnesar Magnsdóttur. Bókin var í senn samin til þess að sinna íslensku landslagi í bundnu máli og lausu máli og til þess að tjá það hvað ég var heilluð af sögu landsins og þrálátum draugum þess.

Er þetta ef til vill vegna þess að Íslandssagan er öðrum þræði saga innflytjenda, norskra bænda og írskra þræla, eða vegna þess að þrátt fyrir nokkra einangrun hefur landið alltaf haldið tengslum við umheiminn? Menn hafa alltaf farið héðan yfir hafið, ýmist af fúsum vilja eða nauðugir, og snúið heim, eða ekki átt afturkvæmt, en alltaf hafa þá orðið til leiðir til samskipta. Ekki er ég íslensk en mér virðist að ég hafi um langt skeið borist með íslenskum straumum sögunnar. 

Þetta er í níunda skiptið sem ég kem til Íslands, og ekkert hefur dregið úr kynngimagni landslagsins og menningarinnar sem vill næra sín bókmenntalegu bein. Í heimi þar sem sífellt verður erfiðara að hafa uppi á fágæti og því ósnortna býður Ísland í senn fágæti og ósnortna náttúru. Í heimi þar sem margir eru taldir frá því að láta raddir sínar heyrast er það lán að koma saman á stað sem þessum til að gleðjast yfir sögum og hylla þá sem segja þær, hylla orðin og þá sem beita þeim. 

Þakka ykkur fyrir að bjóða mér, og fyrir að kalla okkur öll saman á þennan stað.

(Íslensk þýðing: Ólöf Pétursdóttir)