Skip to main content

ORÐSTÍR 2023: Heiðursviðurkenning þýðenda íslenskra bókmennta á erlendar tungur

Forseti Íslands afhendir heiðursviðurkenninguna Orðstír í fimmta sinn á Bessastöðum föstudaginn 21. apríl kl. 16.00. Þeir tveir þýðendur sem hljóta viðurkenninguna í ár eru Luciano Dutra og Jacek Godek. Orðstír, heiðursviðurkenning þýðenda íslenskra bókmennta á erlendar tungur, eru afhent annað hvort ár á Bókmenntahátíð í Reykjavík. Heiðursviðurkenningin er veitt einstaklingum sem hafa þýtt verk úr íslensku á annað mál með vönduðum hætti og með þeim árangri að aukið hafi hróður íslenskrar menningar á erlendum vettvangi.

Brasilíski þýðandinn Luciano Dutra kom fyrst til Íslands árið 2002 að nema íslensku því hann vildi geta miðlað íslenskum miðaldabókmenntum í til samlanda sinna á portúgölsku. Hann lauk námi í íslensku og þýðingafræði og hefur síðan þýtt fjölmargar bækur á portúgölsku, meðal annars Rökkurbýsnir og Skugga-Baldur eftir Sjón og Engla alheimsins eftir Einar Má Guðmundsson. Hann hefur líka verið ötull við ljóðaþýðingar og birtir reglulega þýðingar á norrænum ljóðum. Dutra stofnaði árið 2014 forlagið Sagarana sem hefur gefið út norræna höfunda, m.a. Josefine Klougart og Karl Ove Knausgaard.

Pólski þýðandinn Jacek Godek hefur þýtt úr íslensku á pólsku í meira en 50 ár. Hann bjó á Íslandi sem barn og gekk bæði í Melaskóla og Hagaskóla en lauk stúdentsprófi í Póllandi. Af öllum þeim fjölda verka sem Jacek hefur þýtt mætti nefna ljóð eftir Jónas Hallgrímsson og ljóðabókina Frelsi eftir Lindu Vilhjálmsdóttur en sú bók í pólskri þýðingu Jaceks hlaut verðlaunin European Poet of Freedom árið 2018. Jacek hefur verið öflugur talsmaður íslenskra bókmennta í Póllandi og skáldsögurnar sem hann hefur þýtt telja nokkra tugi. Nýlega komu út bækurnar Kláði eftir Fríðu Ísberg og Kvika eftir Þóru Hjörleifsdóttur í hans þýðingu og þessa stundina vinnur Jacek að nýrri þýðingu á 101 Reykjavík eftir Hallgrím Helgason og að þýðingu á Aprílsólarkulda eftir Elísabetu Jökulsdóttur, en hún var einmitt bekkjarsystir Jaceks í barnaskóla á Íslandi.

Þýðingar þessara tveggja mikilvirku þýðenda hafa ratað til ótal lesenda á portúgölsku og pólsku, kynnt þarlenda lesendur fyrir íslenskum bókmenntum og byggt  mikilvægar brýr á milli landa. Bæði Jacek og Luciano eru sannkallaðir sendiherrar íslenskra bókmennta úti í heimi og einkar vel að Orðstír komnir. Hægt verður að hlýða á dagskrá með þeim í Veröld, húsi Vigdísar, sunnudaginn 23. apríl næstkomandi kl. 15 þar sem þeir munu spjalla við Sölku Guðmundsdóttur, Gauta Kristmannsson og Elísabetu Kristínu Jökulsdóttur.

Um ORÐSTÍR

Að ORÐSTÍR standa Miðstöð íslenskra bókmennta, Bandalag þýðenda og túlka, Íslandsstofa, embætti forseta Íslands og Bókmenntahátíð í Reykjavík. Í stjórn að þessu sinni sátu fyrir hönd þessara aðila þau Gauti Kristmannsson, Guðrún C. Emilsdóttir, Kristjana Rós Guðjohnsen, Sif Gunnarsdóttir og Örnólfur Thorsson.