Bókmenntahátíð í Reykjavík, Ráð um málefni fatlaðs fólks, Rannsóknasetur í fötlunarfræðum og Háskólaútgáfan standa fyrir viðburði þar sem rætt verður við fatlaða fræðimanninn, verðlaunarithöfundinn og fötlunaraktivistann Jan Grue.
Umræðurnar munu meðal annars snúast um fötlunarstrit, baráttuna við „kerfið“, fatlaða háskólanema og starfsfólk.
Jan Grue er doktor í málvísindum og prófessor og rithöfundur í Osló. Hann hefur skrifað smásögur og skáldsögur auk fræðilegra greina. Bók hans Ég lifi lífi sem líkist ykkar kom fyrst út 2018 og fékk afar lofsamlega dóma, hlaut norsku gagnrýnendaverðlaunin og var síðan tilnefnd til bókmenntaverðlauna Norðurlandaráðs 2019. Hún hefur síðan verið þýdd á önnur tungumál þar á meðal íslensku í þýðingu Steinars Matthíassonar og gefin út af Háskólaútgáfunni.
Viðburðurinn fer fram í fyrirlestrarsalnum LÓN á annarri hæð Þjóðarbókhlöðunnar og er haldinn á ensku.