Skip to main content

Hátíðin 2023 er handan við hornið

Það er loksins komið að því! Alþjóðlega bókmenntahátíðin í Reykjavík verður haldin í sextánda skipti dagana 19.-23. apríl 2023. Óhætt er að segja að hátíðin sé einn líflegasti bókmenntaviðburður ársins og bókaunnendur geta nú þegar farið að láta sig hlakka til. 

Á hátíðinni gefst einstakt tækifæri til að heyra sögur og frásagnir heimsþekktra rithöfunda sem hingað eru komnir til þess að taka þátt í þessari veislu lesenda, höfunda, útgefenda, þýðanda og bókafólks. Dagskráin verður fjölbreytt og spennandi: fyrirlestrar, samtöl á sviði og upplestrar að ógleymdu hinu sívinsæla Bókaballi. 

Von er á höfundum, útgefendum og fjölmiðlafólki frá sex heimsálfum sem koma til þess að taka þátt og fylgjast með hátíðinni. Meðal þeirra erlendu höfunda sem hafa boðað komu sína í ár eru Colson Whitehead, Jenny Colgan og Åsne Seierstad og á meðal íslenskra höfunda er Pedro Gunnlaugur Garcia sem nýverið tók við Íslensku bókmenntaverðlaunum fyrir skáldsögu sína Lungu.

Colson Whitehead er tvöfaldur Pulitzer-verðlaunahafi og í bókum sínum skrifar hann meðal annars um átök, kúgun og kynþáttahyggju í Bandaríkjunum. Hann er einn rómaðasti höfundur samtímans og lesinn um heim allan. Jenny Colgan er drottning ljúflestrarbókanna og skrifar um um áhugaverðar persónur í lífsins ólgusjó sem gaman er að gleyma sér við lestur á. Åsne Seierstad er blaðamaður og höfundur sem hefur sagt mikilvægar sögur frá mestu átakasvæðum heimsins í gegnum blaðageinar og bækur. 

„Bókmenntahátíðin í Reykjavík er frábært tækifæri til þess að koma saman og fagna hinu ritaða orði og til þess að sameina bókaunnendur í áhuga þeirra á sögum og frásögnum,“ segir framkvæmdastjóri hátíðarinnar, Stella Soffía Jóhannesdóttir. „Við erum himinlifandi að fá svona stórkostlega höfunda í ár og getum ekki beðið eftir að opna hátíðina í apríl.“

Höfundar árið 2023 eru:

  • Jenny Colgan 
  • Mariana Enriquez 
  • Jan Grue 
  • Vigdis Hjorth
  • Hannah Kent
  • Kim Leine
  • Kirsten Hammann
  • Alexander McCall Smith
  • Dina Nayeri
  • Alejandro Palomas
  • Boualem Sansal
  • Åsne Seierstad
  • Gonçalo M. Tavares
  • Lea Ypi
  • Colson Whitehead
  • Benný Sif Ísleifsdóttir
  • Bragi Ólafsson
  • Eva Björg Ægisdóttir
  • Ewa Marcinek
  • Gyrðir Elíasson
  • Haukur Már Helgason
  • Hildur Knútsdóttir
  • Júlía Margrét Einarsdóttir
  • Kristín Eiríksdóttir
  • Kristín Svava Tómasdóttir
  • Natasha S
  • Pedro Gunnlaugur Garcia
  • Örvar Smárason

Sem fyrr er ókeypis inn á alla viðburði hátíðarinnar og þeir öllum opnir. Dagskráin fer fram í Iðnó, Norræna húsinu og víðar og hægt verður að fylgjast með í streymi líka. Dagskráin verður kynnt nánar þegar nær dregur, en óhætt er að halda því fram að allir lesendur geti fundið eitthvað við sitt hæfi.