Skip to main content

Dagskrá hátíðarinnar 2023 birt

Lóan er komin, vorið er á næsta leiti og dagskrá sextándu Bókmenntahátíðarinnar í Reykjavík hefur verið birt á heimasíðu hátíðarinnar. Dagskráin er fjölbreytt og hægt verður að hlýða á upplestra, pallborð og viðtöl við höfunda en einnig verða flutt áhugaverð erindi um bókmenntir og ýmis málefni. Þá verða einnig fjöldi hliðarviðburða. 

Á meðal dagskrárliða mætti nefna að bandaríski rithöfundurinn Colson Whitehead verður í viðtali við Einar Fal Ingólfsson og Birta Björnsdóttir tekur viðtal við hina írönsku Dinu Nayeri um stöðu mála í Íran. Þá verður sannkallaður stórviðburður þegar skáldið og rithöfundurinn Gyrðir Elíasson mun lesa upp ljóð og spjalla við Halldór Guðmundsson. Bókaballið verður að sjálfsögðu á dagskrá og hægt verður að hlýða á spennandi samtal Hönnuh Kent og Þórunnar Valdimarsdóttur við Hörpu Rún Kristjánsdóttur í Rauða húsinu á Eyrarbakka í tilefni af afmælishátíð Konubókastofu.

Dagskráin fer fram í Norræna húsinu og í Iðnó og auk þess verða nokkrir hliðarviðburðir á ýmsum stöðum sem má lesa nánar um í dagskránni. 

Aðgangur er ókeypis að öllum viðburðum hátíðarinnar og öllum heimill en einnig verður viðburðum streymt. Öll dagskrá fer fram á ensku, nema annað sé sé tekið fram, en þýðingar texta á íslensku verða fáanlegar á staðnum.