Saša Stanišić er fæddur í Bosníu Hersegóvínu og á bosníska móður og serbneskan föður. Fjórtán ára gamall, árið 1992, flúði hann stríðsátökin heimafyrir og settist að ásamt fjölskyldu í Heidelberg í Þýskalandi.
Fyrsta skáldsaga Stanišić kom út árið 2006 og heitir í íslenskri þýðingu Bjarna Jónssonar Hermaður gerir við grammófón. Höfundur vakti mikla athygli fyrir ferska nálgun, frumlega notkun tungumálsins og fjörlegan frásagnarhátt. Sagan fjallar um upplifun ungs drengs af Bosníustríðinu sem leitar skjóls í sögum og frásögnum. Bókin var gefin út á mörgum tungumálum og hlaut fjölda verðlauna, bæði í Þýskalandi og annars staðar.
Nýjasta bók Stanišić, Uppruni, hlaut Þýsku bókmenntaverðlaunin árið 2019. Hún kom út í íslenskri þýðingu Elísu Bjargar Þorsteinsdóttur. Bókin hefur verið þýdd á fjölda tungumála og hlotið mikið lof. Stanišić þykir meðal merkustu höfunda Þýskalands. Hann var áður gestur á Bókmenntahátíð í Reykjavík árið 2007.
Saša Stanišić tekur þátt í tveimur málstofum á Bókmenntahátíð; annars vegar um stríð og frið með Barböru Demick og hins vegar um mörk skáldskapar og veruleika með Vigdisi Hjorth.