Skip to main content

Leïla Slimani

Leïla Slimani er franskur rithöfundur af marokkóskum ættum. Hún sló rækilega í gegn um heim allan með sálfræðitryllinum Barnagælu sem segir frá fjölskyldu sem ræður til sín barnfóstru til að gæta bús og barna á meðan foreldrarnir sinna vinnu sinni, með hræðilegum afleiðingum. Bókin hlaut meðal annars hin virtu Goncourt-verðlaun í Frakklandi og var gefin út á fjölda tungumála, hún kom út í íslenskri þýðingu Friðriks Rafnssonar árið 2017.

Nýlega kom út bókin Í landi annarra en sagan er sú fyrsta í þríleik sem byggir á sögu fjölskyldu hennar í Marokkó og dregur upp lifandi mynd af marokkósku samfélagi um miðja 20. öld. Á næstunni kemur einnig út í íslenskri þýðingu Irmu Erlingsdóttur ritgerðasafnið Kynlíf og lygar: Samfélagseymd Marokkó. 

Auk ritstarfa hefur Slimani starfað sem sérlegur fulltrúi Emmanuel Macrons Frakklandsforseta sem boðberi franskrar tungu í heiminum.

Leila Slimani kemur fram í tveimur málstofum á hátíðinni: Sögum af jaðrinum ásamt Ninu Wähä og Bergþóru Snæbjörnsdóttur annars vegar og Skeikulleika minninganna ásamt Höllu Þórlögu og Nadja Spiegelman hins vegar.