Skip to main content

Góðir gestir á Bókmenntahátíð

Það eru ekki aðeins heimsfrægir rithöfundar sem taka þátt í Bókmenntahátíð í Reykjavík heldur koma hingað einnig þekktir útgefendur og annað bókmenntafólk að utan.

Á meðal gesta eru Christopher MacLehose útgefandi hjá Mountain Leopard Press, Regina Kammerer útgefandi hjá btb í Þýskalandi og Juergen Boos frá Bókasýningunni í Frankfurt. Það er mikill heiður að fá þessa góðu gesti hingað til lands að taka þátt í dagskrá á Bókmenntahátíð í Reykjavík.

MacLehose hefur gefið út heimsþekkta höfunda í þýðingum en útgáfulisti MacLehose er einkum byggður upp á þýðingum af hinum fjölmörgu tungumálum. Hann hefur einnig gefið út íslenska höfunda á borð við Einar Kárason og Jón Kalman Stefánsson.

Regina Kammerer er meðal helstu bókaútgefenda í Þýskalandi en hún er útgefandi hjá hinu virta forlagi btb. Hún hefur náð frábærum árangri í útgáfu íslenskra bóka í Þýskalandi eins og sjá má af velgengni Ragnars Jónassonar og Yrsu Sigurðardóttur þar í landi.

Juergen Boos er forstjóri Bókasýningarinnar í Frankfurt sem er stærsta bókasýning heims. Ísland var heiðursgestur á sýningunni árið 2011 og vakti sú þátttaka mikla athygli á íslenskum bókmenntum og höfundum frá Íslandi.