Að láta sig dreyma um eyju er ekkert nýtt. Og þessi vongóða draumsýn lifir enn góðu lífi og hrífur fólk með sér.
Draumur um eyju vaknar í huga sérhvers barns sem þekkir Róbinson Krúsó og heillast af ævintýrum hans. Hann leynist í hugsunum þeirra sem eru þjakaðir af amstri eða ósigrum, eða utanaðkomandi álagi, eða sem er ógnað af fjandsamlegu umhverfi eða óvinum. Heil fjölskylda getur átt sér draum um eyju, jafnvel heil þjóð, þannig að allir þegnar tiltekins lands óski þess að land þeirra breytist í eyju. Þessi draumur getur jafnvel ræst ef um lítið land er að ræða, einkum ef landamæri þess afmarkast af ám og fljótum. Hugsanlega mætti jafnvel sums staðar breyta árfarvegum svo að árnar renni meðfram landamærunum.
Vatn myndar hin fullkomnu landamæri – fátt er betra til að skilja eitt landsvæði frá öðru. Í mörgum menningarheimum er vatn tákn fyrir hreinsandi kraft eða sannleika – sem getur varið land fyrir falsi og óvinveittum nágrönnum. Vatn vekur upp tilfinningu fyrir stöðugleika. Að horfa á lygnan sjó róar taugarnar og jafnvel úfið og stormasamt haf getur kallað fram kyrrláta íhugun ef maður er öruggur á eyjunni sinni.
Ef Ísland væri ekki til í raun og veru hefði það verið fundið upp. Heimspekingar og rithöfundar til forna hefðu skapað það í verkum sínum. Í handritum þeirra hefði Ísland verið samnefnari fyrir Paradís. Þar væri milt loftslag og ótal aldin- og skrúðgarðar; þegnar þess væri heiðarlegt, vingjarnlegt fólk. Og eflaust væru þar einnig eksótískir frumskógar, fossar og litríkir söngfuglar á flögri milli trjánna.
En eins og við vitum öll er Ísland til, með öllum sínum dásamlegu, raunverulegu eiginleikum, með hrikalegri óspilltri fegurð sinni, eldfjöllum og goshverum og stórbrotnum klettum og grjóti. Hið raunverulega Ísland er öðruvísi en það sem hinir fornu heimspekingar og rithöfundar hefðu getað látið sér detta í hug. En hver veit hve langt er þar til hlýnun jarðar verður komin á það stig að einmitt þessar ótrúlegu breytingar verði að veruleika?
Ísland er ekki aðeins til á landakortum, heldur einnig á geopólitískum kortum og kortum yfir menningu.
Ég hef alltaf dáðst að því að íslenskar bókmenntir skuli vera betur þekktar í Evrópu en bókmenntir sumra Evrópuríkja á meginlandinu sem eru miklu stærri bæði hvað varðar landsvæði og íbúafjölda. Ég veit að þessi árangur hefur náðst með meðvituðu átaki af hálfu ríkisins, en ég held að landfræðileg staða eyjarinnar hafi einnig gegnt mikilvægu hlutverki í þessu samhengi.
Eyjan, eða öllu heldur það að landamæri hennar eru umkringd af sjó, merkir að sjóndeildarhringur íbúanna er ekki eins víður og neyðir þá til að einbeita sér að sjálfum sér, hugsunum sínum, draumum og áætlunum, sögu sinni og menningu. Og þegar allar þessar hugsanir, knúnar áfram af ást til eyjunnar, verða að köllun, þá er orðið tímabært að hrinda hinum metnaðarfyllstu markmiðum í framkvæmd. Þannig held ég að íslensk menning hafi verið byggð upp – hver kynslóð hefur lagt sitt af mörkum og smám saman hefur myndast voldug höll, sem er sýnileg frá Evrópu, Ameríku og Afríku.
Á hinn bóginn hefur umheimurinn orðið æ forvitnari um Ísland vegna þess hvað þessi fallega eyja er afskekkt og óaðgengileg. Heimurinn hefur kynnst Íslandi gegnum verk klassískra íslenskra höfunda eins og Þórberg Þórðarson og Halldór Laxness og um víða veröld hrífst fólk af Íslendingasögunum og les þær. Heimurinn fylgist með íslenskum nútímabókmenntum.
Ég myndi gjarnan vilja að heimurinn fylgdist með úkraínskum bókmenntum og menningu af sömu forvitni, en því miður hafa klassískar úkraínskar bókmenntir varla verið þýddar á erlend tungumál. Sumir nútímahöfundar eru nýfarnir að vekja athygli lesenda í öðrum löndum en í dag fylgist fólk með stríðinu í Úkraínu frekar en með menningarafrekum þjóðarinnar.
Sannleikurinn er sá að Úkraína var heppin hvað varðar landkosti en óheppin með staðsetningu. Úkraína er evrópskt land, ríkt af steinefnum, með víðáttumikla og frjósama akra og þar til nýlega var mögulegt að rækta og flytja út allt að 10% alls hveitis sem framleitt er í heiminum.
Úkraína býr yfir álíka miklu akurlendi og samsvarar „fiskiökrum“ Íslands. – Hafinu! Auðurinn í náttúru Úkraínu hefur haft í för með sér endalaus stríðsátök, þar á meðal baráttuna fyrir sjálfstæði Úkraínu, því Þýskaland, Rússland, Austurrísk-ungverska keisaradæmið og fleiri lönd hafa reglulega gert tilkall til úkraínsks landsvæðis, olíuauðlegðar Úkraínu og kolar.
En auður Úkraínu felst í ýmsu öðru, meðal annars nokkru sem ekkert nágrannaríki hefur haft áhuga á að stela – reyndar hafa þau frekar viljað tortíma honum – það er í úkraínskri menningu og úkraínskri tungu, sjálfum þjóðareinkennum Úkraínu en án menningar og tungumáls gæti Úkraína ekki verið til sem þjóð.
Menning er það sem helst tengir einstakling við landið þar sem hann býr. Fólk skapar menningu í kringum samskipti sín við fósturjörðina og þar af leiðandi einnig við ríkið. Þetta samband fólks og landsins sem það býr í er lögfest í heimssögunni gegnum menningu. Ef menningunni er tortímt er óhætt að segja að tengsl fólks við landið sitt eða fósturjörð séu ekki lengur til staðar.
Úkraínsk menning hefur alltaf verið eylenda – stundum furðulítil – svo lítil að hún átti á hættu að hverfa. Öldum saman hefur verið reynt að þvinga úkraínsku þjóðina til að gleyma móðurmálinu, hætta að syngja úkraínska söngva og þurrka út sögu sína. Í næstum fjögur hundruð ár hafa Rússar barist gegn úkraínskri sjálfsmynd, gegn úkraínskri tungu. Á 17. öld voru úkraínskar kirkjubækur bannaðar og eyðilagðar. Árið 1720 undirritaði Pétur mikli tilskipun um að öll útgáfa bóka á úkraínskri tungu væri óleyfileg. Árið 1763 bannaði Katrín mikla notkun úkraínsku við kennslu í elsta háskóla Úkraínu, Kyiv-Mohyla akademíuna. Árið 1804 varð óheimilt að kenna á úkraínsku í skólum. Árið 1884 lagði Alexander III. keisari bann við leiksýningar á úkraínsku. Fjórum árum síðar, árið 1888, bannaði hann einnig notkun úkraínskrar tungu í opinberum stofnunum og samþykkti lög um að ekki mætti skíra barn úkraínsku nafni. Árið 1892 var undirrituð tilskipun sem lagði bann við þýðingu bóka úr rússnesku yfir á úkraínsku.
Á þeim þrjú hundruð árum sem Úkraína var hluti af rússneska keisaradæminu undirrituðu ýmsir keisarar rúmlega fjörutíu tilskipanir sem bönnuðu eða takmörkuðu notkun úkraínskrar tungu í Úkraínu. Eftir byltinguna 1917 varð Úkraína sjálfstætt ríki í stuttan tíma, en þegar árið 1921 varð landið aftur hluti af hinu nýja rússneska heimsveldi – Sovétríkjunum – og rússavæðing hófst aftur af endurnýjuðum krafti.
Ég man að í Kyiv á áttunda og níunda áratugnum var talið að allir sem töluðu úkraínsku væru annað hvort eldheitir þjóðernissinnar eða ómenntaðir bændur. Ég fagna því að þessir tímar séu liðnir og að smám saman sé aftur farið að tala úkraínsku á þeim svæðum þar sem hún var gerð útlæg á tímum rússavæðingarinnar. Ógnin við Úkraínu og úkraínska menningu er hins vegar enn til staðar og vegna yfirgangs Rússa hefur hún aukist.
Forseti Rússlands, Vladímír Pútín, er nú að hrinda í framkvæmd öllum helstu stefnumálum keisaranna. Kennsla á úkraínsku er enn á ný bönnuð á hernumdu svæðunum í Úkraínu og úkraínskar bækur eru fjarlægðar úr bókasöfnunum. Í Rússlandi er verið að koma upp aðlögunarbúðum fyrir þá íbúa Úkraínu sem hafa verið fluttir nauðugir frá hernumdu svæðunum. Í þessum búðum verða þeim kenndar rússneskar hefðir og siði og þeim „breytt“ í Rússa.
Fyrir mig á draumurinn um eyju, eyju sem heitir Úkraína, betur við núna en nokkru sinni fyrr. Ég vildi óska þess að Úkraína væri eyja – samt ekki án tengsla við umheiminn og einangruð eins og Norður-Kórea. Alls ekki! Nei. Ég myndi vilja að þetta væri örugg eyja – í öruggri fjarlægð frá hættulegum nágranna – frá Rússlandi.
Í þessu stríðsástandi styðja öll lýðræðisríki heims við Úkraínu – með vopnasendingum og mannúðaraðstoð. En til er önnur leið til að rétta fram hjálparhönd sem krefst ekki fjármagns. Það krefst þess einungis að fólk gefi sér smátíma. Úkraínsk saga og menning er enn lítt þekkt í Evrópu og og um heim allan. Svo ég bið ykkur um að finna og lesa fræðibækur um sögu Úkraínu. Svo sem „Red Famine“ eftir Anne Applebaum, „Bloodlands“ eftir Timothy Snyder eða „The Gates of Europe“ eftir Serhiy Plohiy. Finnið bækur eftir úkraínska rithöfunda. Gefið ykkur tíma til að læra aðeins meira um Úkraínu en þið vitið nú þegar! Svo að land og þjóð færist aðeins nær ykkur, þrátt fyrir hina landfræðilegu fjarlægð sem er milli Úkraínu og Íslands.
Ég er Íslandi afar þakklátur fyrir Bókmenntaverðlaun Halldórs Laxness. Ég er þakklátur útgefanda mínum og þýðanda og íslenskum lesendum fyrir að hafa tekið svona vel á móti mörgæsinni Mísha fyrir um það bil tuttugu árum. Hlýjar móttökur í köldu loftslagi er einmitt það sem mörgæs þarf á að halda!
En ég er enn þakklátari íslenskum stjórnvöldum fyrir þann rausnarlega stuðning sem Ísland hefur veitt úkraínskum flóttamönnum og sömuleiðis fyrir að styðja land mitt. Jafnvel hörmulegir atburðir geta falið í sér óvænt tækifæri. Um allan heim hefur yfirgangur Rússa orðið til þess að Úkraína fær geysimikinn stuðning og samúð, en innrásin hefur líka vakið áhuga á landi mínu. Fleiri en nokkru sinni fyrr hafa nú áhuga á að læra úkraínsku sem er orðið sjálft tungumál frelsisins.
Miðað við sama tíma og í fyrra hefur úkraínskumælandi löndum mínum utan Úkraínu fjölgað um margar milljónir. Úkraínska er kannski ekki enn kennd við Háskóla Íslands, en ég er viss um að meðal úkraínskra flóttamanna á Íslandi er að finna fólk sem myndi vilja aðstoða við nám í úkraínsku – kannski í skiptum fyrir íslenskukennslu.
Við í Úkraínu höfum margar sögur sem við viljum segja ykkur og við viljum og þurfum að heyra sögurnar ykkar.
Þannig verður til samtal um menningu. Samræður og skoðanaskipti mynda grunninn að góðum samskiptum. Raunverulegar samræður og skoðanaskipti byggja brýr á milli lýðræðiseyja, sem gerir ókunnugum kleift að verða nánir vinir.
Andrej Kúrkov / íslensk þýðing: Áslaug Agnarsdóttir