Patrik Svensson er sænskur blaðamaður og höfundur einnar áhugaverðustu bókar síðustu ára í Svíþjóð og þótt víðar væri leitað, Álabókarinnar. Álabókin, sagan um heimsins furðulegasta fisk hlaut Augustpriset í Svíþjóð, helstu bókmenntaverðlaunin þar í landi, og kom út í íslenskri þýðingu Þórdísar Gísladóttur árð 2020. Bókin hefur komið út á meira en 30 tungumálum.
Álabókin er annars vegar fræðileg bók um ála, lífsferil þeirra, búsvæði og alla þá leyndardóma sem umlykja þessa dularfullu lífveru sem óttast er að senn verði útdauð vegna breytinga á lífríki hafsins og heimahögum álsins. Hins vegar er bókin minningasaga og segir frá fallegu sambandi feðga, höfundinn sjálfum og föður hans, sameiginlegum áhuga á álum og álaveiði og loks frá dauðastríði föðurins.
Álabókin er frumraun Svensson í bókaskrifum en það verður spennandi að fylgjast með þessum höfundi í framtíðinni.