Skip to main content
24. apríl, 2025
15:00

OFF VENUE

Þýsku ljóðskáldin Wolfgang Schiffer og Dinçer Güçyeter hafa á síðustu tíu árum – meðfram eigin ritstörfum – staðið fyrir viðamikilli útgáfu á verkum íslenskra ljóðskálda í Þýskalandi, í þýðingum Wolfgangs og Jóns Thors Gíslasonar. Forlag Dinçers, Elif Verlag, er langstærsti útgefandi íslenskrar ljóðlistar utan Íslands.

Ljóðbrýr liggja í báðar áttir, og því er gleðiefni að nú í apríl koma út íslenskar þýðingar á bókum eftir þá báða, Dinçer og Wolfgang. Bækurnar birtast í nýrri bókaröð hjá Tunglinu forlagi, sem ber heitið Svarthol.

Þessir þýsku fóstbræður munu sitja fyrir svörum í afslöppuðu spjalli við Gauta Kristmannsson um ljóðlist og bókaútgáfu kl. 15:00 á sumardaginn fyrsta, 24. apríl. Viðburðurinn er öllum opinn og fer fram í Gallerí Fold, Rauðarárstíg 14, í tengslum við myndlistarsýningu á verkum Jóns Thors. Hann er hluti af „off-venue“ dagskrá Bókmenntahátíðar í Reykjavík.