
Dinçer Güçyeter er þýskt ljóðskáld og stofnandi Elif forlagsins sem sérhæfir sig í ljóðaútgáfu og er stærsti útgefandi íslenskra ljóða utan Íslands. Hann hefur gefið út fjórar ljóðabækur og eina skáldsögu og hefur hlotið fjölda verðlauna fyrir verk sín, meðal annars bókmenntaverðlaun bókasýningarinnar í Leipzig. Bók hans, Prinsinn minn, ég er gettóið kemur út á íslensku hjá Tungl forlagi í þýðingu Gauta Kristmannssonar.
Norska ljóðskáldið Knut Ødegård gaf út sína fyrstu ljóðabók árið 1967 og hefur síðan gefið út 18 ljóðabækur. Hann hefur einnig skrifað skáldsögur, smásögur, barnabækur, ritgerðir, leikrit og fræðibækur (þar af þrjár um Ísland). Hann er eitt víðlesnasta skáld norska samtímabókmennta og hafa ljóðabækur hans komið út á meira en 40 tungumálum. Hann hefur einnig verið ötull þýðandi sjálfur og þýtt fjölmarga höfunda úr íslensku, þar á meðal Gerði Kristnýju sem einmitt þýðir einmitt nýútkomið ljóðaúrval Ødegårds, Áður en hrafnarnir sækja okkur, sem Forlagið gefur út. Knut Ødegård var forstjóri Norræna hússins um árabil og einn af stofnendum Alþjóðlegrar bókmenntahátíðar í Reykjavík ásamt Thor Vilhjálmssyni og Einari Braga.
Ragnar Helgi Ólafsson stýrir umræðum um ljóðlist.