Skip to main content

Chimamanda Ngozi Adichie

Chimamanda Ngozi Adichie fæddist í Enugu í Nígeríu árið 1977. Hún ólst upp á háskólasvæði háskólans í Nígeríu, Nsukka, þar sem faðir hennar var prófessor. Móðir Adichie gegndi einnig ábyrgðarstöðu innan háskólans, fyrst kvenna. 

Adichie lærði læknisfræði í eitt ár á Nsukka, en hélt síðan til Bandaríkjanna 19 ára gömul til þess að halda menntun sinni áfram á öðru sviði. Hún útskrifaðist með láði frá Eastern Connecticut State University með gráðu í samskiptum og stjórnmálafræði.

Hún er með meistaragráðu í skapandi skrifum frá Johns Hopkins háskóla, sem og meistaragráðu í afrískri sögu frá Yale háskóla. Hún hlaut Hodder styrk fyrir nám við Princeton háskóla námsárið 2005-2006 og Radcliffe Institute styrk frá Harvard háskóla fyrir námsárið 2011-2012. Hún var MacArthur styrkþegi 2008.

Adichie hefur hlotið heiðursdoktorsgráður frá Eastern Connecticut State, Johns Hopkins, Haverford, Williams, Háskólanum í Edinborg, Duke, Amherst, Bowdoin, SOAS í London, American, Georgetown, Yale, Rhode Island School of Design, og Northwestern.

Verk Adichie hafa verið þýdd á yfir þrjátíu tungumál.

Fyrsta skáldsaga hennar, Purple Hibiscus (2003), hlaut rithöfundaverðlaun samveldisins og önnur skáldsaga hennar, Half of a Yellow Sun (2006), hlaut Orange verðlaunin. Skáldsaga hennar Americanah (2013) hlaut bandarísku National Book Critics Circle verðlaunin og var nefnd ein af tíu bestu bókum ársins af New York Times árið 2013.

Hún hefur flutt tvö TED erindi: The Danger of A Single Story 2009 og TEDx Euston erindið We Should All Be Feminists , sem hóf um allan heim samtal um femínisma. Bók eftir Adichie með sama nafni kom út árið 2014.

Dear Ijeawele, or a Feminist Manifesto in Fifteen Suggestions, var gefin út í mars 2017. Nýjasta bók hennar, Notes On Grief, sem fjallar um föðurmissi, er nýútkomin. 

Hún var útnefnd ein af 100 áhrifamestu einstaklingum heims af TIME Magazine árið 2015.

2017 útnefndi Fortune Magazine hana sem einn af 50 helstu leiðtogum heims. Hún er meðlimur í bæði American Academy of Arts and Letters og American Academy of Arts og Science.

Chimamanda Adichie skiptir tíma sínum á milli Bandaríkjanna og Nígeríu, þar sem hún leiðir árlega smiðju í skapandi skrifum.

Chimamanda flytur erindi í Hátíðarsal Háskóla Íslands, föstudaginn 10. september kl. 14.