Skip to main content

Bókmenntahátíðin í fyrsta sinn að vori

Alþjóðlega bókmenntahátíðin í Reykjavík verður haldin dagana 24.-27. apríl en þetta er í fyrsta sinn sem hún fer fram að vori. Allt frá árinu 1985 hefur hún verið í september, að jafnaði annað hvert ár. Til landsins koma höfundar frá fjölmörgum löndum en verk margra þeirra hafa verið eða verða gefin út á Íslandi í tilefni af hátíðinni. Í ár litast hátíðin meðal annars af því að hundrað ár eru frá því að fyrsta skáldsaga Halldórs Laxness kom út og verður efnt til alþjóðlegs málþings af því tilefni. Þá verða heiðursverðlaun þýðenda af íslensku á erlend mál veitt í þriðja sinn. Að venju verða upplestrar, umræður og fyrirlestrar og er aðgangur ókeypis á alla viðburði og allir velkomnir.

Í ár er hátíðin í fyrsta skipti að vori og urðu dagarnir í lok apríl eftir Dag bókarinnar fyrir valinu. Á þessum tíma er mikill blómi í bókaútgáfu og vorbækurnar streyma úr prentsmiðjum, bæði íslenskar og erlendar.

Hátíðin fer fram í Norræna húsinu og í Iðnó og verður dagskráin fjölbreytt að vanda; fyrirlestrar, upplestrar, samtöl á sviði, uppistand, bókaball og fleira. Hátt í tuttugu erlendir höfundar taka þátt og hafa þeir margir komið út í íslenskum þýðingum eða eru væntanlegir á íslensku. Íslenskir höfundar taka einnig þátt. Þá er hingað boðið erlendum bókaútgefendum í þeim tilgangi að kynna þeim íslenskar bókmenntir og rithöfunda, og auk þess koma erlendir fjölmiðlar á hátíðina.

Í ár er þema hátíðarinnar aðlögun og er þar vísað til margs konar aðlögunar svo sem aðlögunar að kvikmynda- eða sjónvarpsþáttaforminu, aðlögunar að breyttum aðstæðum í breyttum heimi, svo sem vegna loftslagsbreytinga, breytinga á tungumálinu og aðlögunar okkar að nýjum heimkynnum.

Líkt og árið 2017 þjófstartar Bókmenntahátíðin í Reykjavík í Menningarhúsinu Hofi á Akureyri. Þar verður bókmenntadagskrá haldin þann 23. apríl, með þátttöku erlendra og innlendra höfunda auk lesenda, og verður þessi dagskrá kynnt nánar síðar. Þessi dagskrá er skipulögð í samstarfi við Menningarfélag Akureyrar.

Heiðursverðlaun þýðenda af íslensku á erlend mál, Orðstír, verða afhent í þriðja skiptið á hátíðinni. Þau voru fyrst afhent árið 2015 og hlotnast þau tveimur þýðendum sem hafa þýtt íslenskar bókmenntir á erlendar tungur. Að verðlaununum standa, auk hátíðarinnar, Íslandsstofa, Miðstöð íslenskra bókmennta, Bandalag þýðenda og túlka og embætti forseta Íslands.

Á hátíðinni verður einnig alþjóðlegt málþing helgað Halldóri Laxness en í ár eru liðin 100 ár síðan fyrsta skáldsaga hans Barn náttúrunnar kom út. Þingið var haldið í Osló í nóvember síðastliðnum og verður hluti þess haldinn hér á landi í samstarfi við Gljúfrastein og Stofnun Vigdísar Finnbogadóttur í erlendum tungumálum.

Barnadagskrá verður skipulögð fyrir unga lesendur, smiðjur og sögustundir, og fer hún fram í Norræna húsinu.

Sem fyrr er ókeypis inn á alla viðburði hátíðarinnar og þeir öllum opnir. Dagskráin fer fram á ensku en upplestrar eru allir á móðurmáli höfunda með þýðingum á íslensku. Barnadagskráin fer fram á íslensku. Heildardagskráin verður kynnt í apríl og höfundar verða kynntir á samfélagsmiðlum í aðdraganda hátíðarinnar. Bækur eftir höfunda á hátíðinni verða fáanlegar í Eymundsson.

Bókmenntahátíð í Reykjavík nýtur stuðnings Mennta- og menningarmálaráðuneytis, Reykjavíkur Bókmenntaborgar Unesco, Norræna hússins, Félags íslenskra bókaútgefenda og Miðstöðvar íslenskra bókmennta. Þá sækir hátíðin styrki í ýmsa sjóði og á í samstarfi við fjölmargar stofnanir og félög.