Miðvikudagur 8. september
Kl. 16:00
Norræna húsið
Hver þekkir ekki Múmínálfana, ævintýrapersónurnar sem glatt hafa bæði börn og fullorðna í áraraðir?
Í tilefni af Alþjóðlegum degi læsis þann 8. september bjóðum við ykkur á lestrarstund eða ReadHour að finnskri fyrirmynd þar sem lesið verður upp úr heillandi sögu Tove Jansson um Ósýnilega barnið. Saman förum við á slóðir Múmínálfanna og kynnumst hinni ósýnilegu Ninný, sem með hjálp Múmínfjölskyldunnar verður sýnileg á ný.
Dagskráin hefst á samtali Gerðar Kristnýjar og Sophiu Jansson um Tove Jansson og Múmínálfana og að því loknu tekur við upplestur á sögu Jansson sem fram fer á hinum ýmsu tungumálum. Um lesturinn sjá þau Sophia Jansson, Gerður Kristný, Eliza Reid, Erling Kjærbo, Stein Olav Romslo, Halla Nosøe Poulsen og Ann-Sofie Stude og munu þau lesa til skiptis á ensku, íslensku, dönsku, norsku, sænsku, finnsku og færeysku.
Viðburðurinn er partur af finnsku herferðinni Read Hour 2021 sem lesa má nánar um hér: ReadHour. Deilið ykkar lestrarupplifun og lestrarábendingum á samfélagsmiðlum undir myllumerkinu #ReadHour!
Í samstarfi við Múmínálfana bjóðum við ykkur einnig á Múmínálfasýningu fyrir börn og fullorðna á bókasafni Norræna hússins þar sem hægt er að kynnast stafrófinu um leið og farið er í skoðunarferð um hinn töfrandi Múmíndal. Nánari upplýsingar um sýninguna má nálgast hér: Múmínálfasýning.