Katja Kettu, ný og fersk rödd finnskra bókmennta

Hin finnska Katja Kettu er ný og spennandi rödd innan finnskra bókmennta. Hún er fædd árið 1978 og er, ásamt því að vera rithöfundur, söngkona í pönkhljómsveitinni Confusa og leikstjóri teiknimynda.

Katja Kettu

Þrjár skáldsögur og eitt smásagnasafn hefur komið út eftir Kettu. Nýjasta skáldsagan er frá árinu 2011 og heitir Ljósmóðirinn. Bókin var mest lesna skáldsagan í Finnlandi árið sem hún kom út og vann til fjölda verðlauna. Hún hefur komið út á nokkrum tungumálum og er væntanleg í íslenskri þýðingu Sigurðar Karlssonar hjá Forlaginu í hausti. Bókin verður kvikmynduð og er frumsýning áætluð í haust líka.

Í Ljósmóðurinni er sögusviðið norðurhluti Finnlands undir lok seinni heimsstyrjaldar, í Lapplandsstríðunum svokölluðu. Ástandið á svæðinu er brothætt og engum treystandi. Líf ljósmóður í smábænum Petsamo tekur stakkaskiptum árið 1944 þegar hún verður yfir sig ástfangin af SS foringja og fylgir honum eftir.

Hér kveður við nýjan tón í finnskum bókmenntum og þykir Kettu takast einstaklega vel til. Hér skynja lesendur bæði hrylling og ljóðrænu í lýsingum á efni sem farið hefur heldur hljótt í finnskum bókmenntum hingað til; stríðsbrúðir og stríðsbörn túndrunnar.

Helle Helle, verðlaunahöfundur frá Danmörku

Helle Helle er einn af merkustu samtímahöfundum  Danmerkur. Hún skrifar bæði smásögur og skáldsögur og hafa verk hennar verið þýdd á fimmtán tungumál. Hún hefur verið tilnefnd til Bókmenntaverðlauna Norðurlandaráðs og er tilnefnd í ár fyrir skáldsöguna “Hvis det er”.

Í skrifum sínum segir Helle sögur af jaðrinum, bæði út frá landfræðilegu sjónarmiði og þjóðfélagslegu. Hún hefur næmt auga fyrir smáatriðum og í gegnum smáatriðin fá lesendur glögga mynd af sögupersónum og aðstæðum þeirra. Textinn er áreynslulaus og blátt áfram, athafnir sögupersóna eru hversdagslegar og yfirborðið gárast ekki mikið, en undir niðri glittir í þá glímu sem felst í því að vera manneskja og taka þátt í mannlegu samfélagi.

Helle Helle hefur gefið út smásagnasöfn og sex skáldsögur. Ein þeirra hefur komið út á ensku, “Dette burde skrives i nutid” (“This Should be Written in the Present Tense”) en enn sem komið er engin bóka Helle Helle fáanleg á íslensku.

David Nicholls, heimsþekktur rithöfundur og handritshöfundur

David Nicholls (1966) er breskur höfundur fjögurra skáldsagna sem allar hafa hlotið mikið lof og náð miklum vinsældum. Þá er hann líka handritshöfundur og hefur skrifað handrit fyrir leiksvið, sjónvarp og kvikmyndir. Hann lærði leiklist og starfaði sem leikari áður en hann sneri sér alfarið að skrifum. Fyrir utan eigin handrit hefur hann líka aðlagað þekkt verk eins og “Much Ado About Nothing” eftir Shakespeare fyrir BBC.

Hal Shinnie

Fyrsta skáldsaga Nicholls, “Starter for Ten”, kom út árið 2003 og hann skrifaði jafnframt handritið að bíómyndinni sem kom út árið 2006 . Framleiðandi myndarinnar var Tom Hanks og myndin skartaði leikaranum James McAvoy. Næst kom út bókin “The Understudy” árið 2005 og í kjölfarið fylgdi “One Day”, sem gerð var bíómynd eftir árið 2011, með leikurunum Anne Hathaway og Jim Sturgess í aðalhlutverkum. Bókin kom út í íslenskri þýðingu hjá Bjarti undir heitinu Einn dagur.

Nýjasta bók Nicholls  “Us” kom út síðastliðið haust. Hún var nýverið gefin út hjá Bjarti í íslenskri þýðingu undir titlinum “Við”.  Bókin hlaut frábærar viðtökur og var meðal annars tilnefnd til Man Booker verðlaunanna og var lýst sem hinni fullkomnu bók“ af breska dagblaðinu The Independent.

Í bókinni segir frá lífefnafræðingnum Douglas Petersen sem reynir að bjarga hjónabandinum með því að leggja upp í mikla menningarreisu um Evrópu ásamt eiginkonu og syni. Á ferð um París, Amsterdam, Feneyjar og Flórens skerast í leikinn óður harmóníkuleikari, fjölþjóðlegir vopnasalar og lögreglan, og sú spurning verður áleitin hvort menningarreisur séu heppilegar til að bjarga hjónaböndum og bæta sambandið við börnin.

Pierre Lemaitre, margverðlaunaður spennusagnahöfundur

Franski rithöfundurinn Pierre Lemaitre er margverðlaunaður rithöfundur og gríðarlega vinsæll spennusagnahöfundur. Árið 2013 Goncourt-verðlaunin, en það eru virtustu bókmenntaverðlaunin í Frakklandi, og Alþjóðlega rýtinginn CWA, verðlaun samtaka breskra glæpasagnahöfunda.

Pierre Lemaitre ©Thierry Rajic / Figure

Pierre Lemaitre, ©Thierry Rajic / Figure

Bók Pierre Lemaitre, Alex, kom nýverið út í íslenskri þýðingu Friðriks Rafnssonar og hefur bókin trónað á toppi metsölulistanna síðan. Hún reynir mjög á réttlætiskennd lesandans og er alls ekki fyrir viðkvæma. Það verður gaman að heyra Lemaitre segja frá verkum sínum þegar hann kemur á Bókmenntahátíð í Reykjavík í september.

Í samtali við DV á dögunum sagði Friðrik frá höfundinum og þýðingarferlinu og sagði meðal annars :

„Það var mjög gaman en krefjandi að þýða Alex því Lamaitre er mjög vel lesinn og í bókum sínum lyftir hann hattinum til ýmissa rithöfunda, eins og Proust og Pasternak, en líka kvikmyndaleikstjóra eins og meistara Alfred Hitchcock. Mér finnst Alex snilldarlega vel fléttuð spennusaga sem reynir mjög á réttlætiskennd lesandans. Þetta er alls ekki bók fyrir viðkvæmar sálir. Fyrst og fremst er Pierre Lemaitre vel lesinn og fantagóður rithöfundur sem veit nákvæmlega hvað hann er að gera. Það er þýðandans að átta sig vel á því öllu og koma því til skila á íslensku. Ég vona að það hafi tekist.“

Timur Vermes og háðsádeilan um Hitler

Þýski rithöfundurinn Timur Vermes (1967) er höfundur skáldsögunnar Aftur á kreik (Er ist wieder da) sem kom út haustið 2012 og varð strax umtöluð metsölubók. Vermes starfaði áður sem blaðamaður og skrifaði bækur undir nöfnum annarra (ghost writing).

TimurVermes

Hér er á ferðinni háðsádeila af bestu gerð sem segir frá því þegar Hitler vaknar upp af værum blundi í almenningsgarði í Þýskalandi árið 2011 eftir að hafa sofið síðan 1945. Hitler veit ekki hvað tímanum hefur liðið og hyggst því halda sínu striki þar sem frá var horfið. Hins vegar halda þeir sem á vegi hans verða að hér sé á ferðinni afburða snjall leikari sem hefur náð svo góðum tökum á háttarlagi Foringjans og vekur hann því aðdáun og eftirtekt hvar sem hann fer. Hitler kemst í kynni við sjónvarpsþáttaframleiðendur og slær í gegn í skemmtiþætti í sjónvarpi og hljóta ræður hans mikla útbreiðslu á youtube.

Bókin hefur verið þýdd á fjöldamörg tungumál og vakið miklar umræður hvar sem hún hefur komið út. Til stendur að gera bíómynd eftir sögunni. Aftur á kreik kom út í íslenskri þýðingu Bjarna Jónssonar á dögunum hjá Forlaginu. Hægt er að lesa kafla úr bókinni á íslensku hér.

Bókmenntahátíð í Reykjavík I The Reykjavík International Literary Festival