Timur Vermes og háðsádeilan um Hitler

Þýski rithöfundurinn Timur Vermes (1967) er höfundur skáldsögunnar Aftur á kreik (Er ist wieder da) sem kom út haustið 2012 og varð strax umtöluð metsölubók. Vermes starfaði áður sem blaðamaður og skrifaði bækur undir nöfnum annarra (ghost writingTimurVermes).

Hér er á ferðinni háðsádeila af bestu gerð sem segir frá því þegar Hitler vaknar upp af værum blundi í almenningsgarði í Þýskalandi árið 2011 eftir að hafa sofið síðan 1945. Hitler veit ekki hvað tímanum hefur liðið og hyggst því halda sínu striki þar sem frá var horfið. Hins vegar halda þeir sem á vegi hans verða að hér sé á ferðinni afburða snjall leikari sem hefur náð svo góðum tökum á háttarlagi Foringjans og vekur hann því aðdáun og eftirtekt hvar sem hann fer. Hitler kemst í kynni við sjónvarpsþáttaframleiðendur og slær í gegn í skemmtiþætti í sjónvarpi og hljóta ræður hans mikla útbreiðslu á youtube.

Bókin hefur verið þýdd á fjöldamörg tungumál og vakið miklar umræður hvar sem hún hefur komið út. Til stendur að gera bíómynd eftir sögunni. Aftur á kreik kom út í íslenskri þýðingu Bjarna Jónssonar á dögunum hjá Forlaginu. Hægt er að lesa kafla úr bókinni á íslensku hér.

Teju Cole er rísandi stjarna á meðal rithöfunda

Rithöfundurinn Teju Cole (1975) er rísandi stjarna innan bókmenntaheimsins og er hann sagður vera á meðal hæfileikaríkustu höfunda sinncblog_e9ea925590-thumbcar kynslóðar. Hann er af nígerísku bergi brotinn, fæddur í Bandaríkjunum en uppalinn í Nígeríu fram á unglingsár þegar hann flutti á ný til Bandaríkjanna. Þessi tveggja heima sýn höfundarins reynist honum gott vopn við skriftirnar og í verkum hans birtist Nígería lesandanum bæði sem framandi og kunnuglegur staður.

Teju Cole hefur gefið út tvær bækur. Sú fyrri er nóvella frá árinu 2007, Every Day is for the Thief, og vakti hún gríðarlega athygli lesenda og gagnrýnenda. Í bókinni snýr sögumaður aftur til Nígeríu eftir fimmtán ára fjarveru. Hann hittir gamla vini og fjölskyldu en upplifir samfélagið sem aðkomumaður. Lesandinn skynjar mikla hlýju í textanum gagnvart Nígeríu og þegnum landsins, meira að segja gagnvart hinum víðfrægu Nígeríusvindlurum. Bókin var víða valin bók ársins þegar hún kom út, meðal annars af NPR, New York Times og Telegraph.

Open City er skáldsaga sem kom út árið 2011. Hún var tilnefnd til National Book Critics Circle Awards og hlaut auk þess fjölda verðlauna og afar góða dóma. Í henni segir frá ungum Nígeríumanni í New York sem nýlega hefur hætt með kærustunni sinni. Hann gengur um borgina og veltir fyrir sér aðstæðum sínum, bæði í samtíð og fortíð.

Teju Cole skrifar í blöð og tímarit, meðal annars í the New Yorker. Grein sem hann birti þar eftir hryðjuverkaárásirnar í París nú í ársbyrjun vakti mikla athygli en þar fjallar hann á áhrifaríkan hátt um tjáningarfrelsið og stöðu þess á Vesturlöndum.

Íslandsvinurinn David Mitchell

David Mitchell (1969) er breskur metsöluhöfundur sem hlotið hefur mikið lof fyrir verk sín og er einn vinsælasti samtímahöfundur Bretlands. Hann er til dæmis þekktur fyrir Cloud Atlas, sem samnefnd bíómynd var gerð eftir, og bókina The Bone Clocks sem tilnefnd var til Man Booker-verðlaunanna í fyrra.
20870_mitchell_david
Mitchell er mikill Íslandsvinur og gerist The Bone Clocks að hluta til á Íslandi. Aðalpersónu sögunnar, rithöfundinum Crispin, er meira að segja boðið að taka þátt í Bókmenntahátíð í Reykjavík, en þó ekki fyrr en árið 2018.

Fyrir skömmu var Mitchell í viðtali við Morgunblaðið (28.12.2014) og þar kom meðal annars fram dálæti hans á Halldóri Laxness og Sjálfstæðu fólki sem honum þykir ein sú almagnaðasta bók sem hann hefur lesið. Meira segja í köflunum þar sem lítil atburðarás á sér stað, er hún samt stórkostleg lætur hann hafa eftir sér í öðru viðtali.

Það verður spennandi að sjá hvort reynsla Mitchells af Bókmenntahátíð í Reykjavík og Íslandsdvöl hans í þetta skiptið verði honum frekari innblástur í bækur.

Drottning argentínskra örsagna til Íslands

Ana María Shua (1951) er á meðal kunnustu rithöfunda Argentínumanna og hefur skrifað meira en 80 bókmenntaverk af ýmsum toga. Hún er margverðlaunuð og hlaut nýverið argentínsku bókmenntaverðlaunin fyrir smásögur sínar. Örfáum dögum síðar hlotnuðust henni önnur virt smásagnaverðlaun í Argentínu.

Shua ana maríaShua er hvað þekktustu fyrir örsögur sínar, svo þekkt að hún er jafnan kölluð drottning örsagnanna. Í haust kemur út á íslensku safn hundrað örsagna eftir Shua í þýðingu Kristínar Guðrúnar Jónsdóttur en áður hafa nokkrar þeirra birst í bókmenntatímaritinu Stínu.

Örsögur eru örstuttar frásagnir í lausu máli. Þær fanga augnablikið og skilja lesandann eftir með einhverja hugsun eða tilfinningu. Hér er á ferðinni bókmenntagrein sem sífellt vinnur á og þess er skemmst að minnast að Gyrðir Elíasson gaf út fyrir síðustu jól bókina Lungnafiskarnir: smáprósar sem hlaut mikið lof lesenda og gagnrýnenda, en sú bók innihélt einmitt hundrað örsögur.

Bókmenntahátíð í Reykjavík 30 ára 2015

Bókmenntahátíð í Reykjavík verður haldin næst dagana 9. til 13. september 2015. Þá verða liðin 30 ár frá því stofnað var til þessarar fersku og síungu hátíðar í fyrsta sinn og verður dagskráin glæsileg sem endranær. Búast má við fjölmörgum erlendum höfundum, heimsþekktum og minna þekktum, ásamt erlendum útgefendum og blaðamönnum á götum Reykjavíkurborgar og verða nöfnin kynnt þegar nær dregur. Þangað til getum við lesið góðar bækur og látið okkur hlakka til.

Bókmenntahátíð í Reykjavík I The Reykjavík International Literary Festival