Bókmenntahátíð í Reykjavík 30 ára 2015

Bókmenntahátíð í Reykjavík verður haldin næst dagana 9. til 13. september 2015. Þá verða liðin 30 ár frá því stofnað var til þessarar fersku og síungu hátíðar í fyrsta sinn og verður dagskráin glæsileg sem endranær. Búast má við fjölmörgum erlendum höfundum, heimsþekktum og minna þekktum, ásamt erlendum útgefendum og blaðamönnum á götum Reykjavíkurborgar og verða nöfnin kynnt þegar nær dregur. Þangað til getum við lesið góðar bækur og látið okkur hlakka til.

Audience_Idno

Bókmenntahátíð í Reykjavík þakkar fyrir sig í ár

Elleftu Bókmenntahátíðinni í Reykjavík er nú lokið og óhætt er að segja að hátíðin hafi lukkast einstaklega vel í ár og hér er hægt að skoða myndir frá hátíðinni. Sautján erlendir höfundar sóttu hátíðina ásamt tólf erlendum útgefendum og umboðsmönnum og sjö erlendum blaðamönnum. Þá tóku þátt tíu íslenskir höfundar og fjöldi fólks, þýðendur og spyrlar, komu að hátíðinni með einum eða öðrum hætti. Skulu þeim öllum færðar þakkir hér með.

Bókmenntahátíð vill jafnframt koma á framfæri þökkum til allra þeirra sem sóttu viðburði hátíðarinnar og til samstarfsaðila og stuðningsaðila, sem voru fjölmargir. Hátíðin er lesendahátíð og miðað við þann fjölda gesta sem sóttu viðburði eru íslenskir lesendur alltaf jafnáhugasamir um nýjar og spennandi bækur og höfunda.

Á hátíðinni var tjáningarfrelsið mjög til umræðu í ár vegna samstarfsins við PEN International, en árlegt þing samtakanna var haldið á Íslandi samhliða Bókmenntahátíðinni. 300 rithöfundar voru staddir í bænum þessa viku og settu óneitanlega svip sinn á stemninguna. Þá var einnig áberandi þema á hátíðinni rithöfundar í útlegð, en þrír erlendir höfundar sem hafa skrifað í útlegð tóku þátt: Mazen Maarouf frá Palestínu, Svetlana Alexievitch frá Hvíta-Rússlandi og Antonio Skármeta frá Chile.

Hægt er að rifja upp dagskrá hátíðarinnar með því að hlusta á upptökur Rásar eitt, en Rás eitt  hélt úti viðamikilli dagskrá dagana fyrir hátíð og á hátíðinni sjálfri.  Nálgast má alla þættina hér og gaman er að rifja upp einstaka höfunda með því að hlusta á þessa þætti.

Svo má líka lesa ræður erlendra sem voru fluttar við opnun Bókmenntahátíðar í Reykjavík árið 2013. Fransk-kongóski höfundurinn Alain Mabanckou fjallaði um sjálfstæðisbaráttu Afríku og tjáningarfrelsið í afar áhrifamikilli ræðu við setningu Bókmenntahátíðar í Norræna húsinu: Alain Mabanckou_opnun.

Sama kvöld flutti John Ralston Saul, forseti PEN International, ávarp á sameiginlegu upplestrarkvöldi Bókmenntahátíðar og PEN International í Eldborg í Hörpu: John Ralston Saul Opnunarræða_Reykjavik 2013_þýðing.

Á Facebook-síðu Bókmenntahátíðar má sjá myndir frá ýmsum viðburðum, svosem upplestrum í Hörpu, Iðnó og Norræna húsinu, útgefendamálþingi, viðtölum og svo að sjálfsögðu Bókaballinu sem tókst svo einstaklega vel í ár.

Í Iðnó @ Magnús Helgason Svetlana Alexievitch / Steve Sem-Sandberg @ Magnús Helgason Á Bókaballi @Magnús HelgasonNew Voices Awards @Magnús Helgason

Rithöfundar sýna myndir

Um þessar munP1040338dir fara fram myndlistasýningar tveggja rithöfunda í Reykjavík. Annars vegar er í Listasafni ASÍ í Ásmundarsal við Freyjugötu sýning á verkum Sigrúnar Eldjárn sem ber yfirskriftina TEIKNIVÍSINDI – SJÖ NÍU ÞRETTÁN. Uppistaða sýningarinnar eru teikningar, eins konar óður til blýantsins. Fyrsta barnabókin Sigrúnar kom út 1980. Þær skipta nú tugum og njóta mikilla vinsælda meðal barna á ýmsum aldri. Hér er heimasíða safnsins þar sem finna má frekari upplýsingar um sýninguna: http://www.listasafnasi.is/

Hallgrímur Helgason mynd

Hin sýningin er til húsa að Baldursgötu 12, 101 Reykjavík í listhúsinu Tveir hrafnar. Þar sýnir Hallgrímur Helgason svarthvítar akrýlmyndir af frægustu rithöfundum Íslands á fyrri hluta tuttugustu aldar – frá torfbæjum til Nóbelsverðlauna. Yfirskrift sýningarinnar er „Íslensk bókmenntasaga, 4. bindi.“ Hér er heimasíða listhússins: http://tveirhrafnar.is/

Þessar sýningar eru kærkomin viðbót við þá miklu bókmenntaveislu sem framundan er.

Lestrarsprettur Bókmenntahátíðar og Eymundsson 5.-8. september

Eymundsson og Bókmenntahátíð í Reykjavík hafa ákveðið að skipuleggja Lestrarsprett í sýningarglugga Eymundsson í Austurstræti dagana 5. til 8. september. Lestrarspretturinn er tekin til styrktar Ljósinu, endurhæfingar- og stuðningsmiðstöð fyrir fólk sem hefur fengið krabbamein og aðstandendur þess.

Lestrarsprettur

1F3B1576

Lestrarspretturinn fer þannig fram að þátttakendur, einn í senn, koma sér fyrir í þægilegum hægindastól í notalegu lestrarumhverfi í glugga Eymundsson í Austurstræti og lesa. Gert er ráð fyrir að sprettur hvers og eins standi í um það bil klukkustund og að hver þátttakandi lesi bók að eigin vali. Að lestri loknum skráir þátttakandi í dagbók, hvaða bók hann las, hvar hann byrjaði og hvar hann endaði, auk þess að skrifa nokkur orð um verkið. Tekið skal sérstaklega fram að engu skiptir hvort lesið er mikið eða lítið, sögur leikrit eða ljóð. Þá eru innbyrðis afköst þátttakenda  ekki skoðuð sérstaklega. Þátttakendum er enn fremur velkomið að dotta ef notaleg höfgi sígur yfir þá við lesturinn.

Spretturinn fer fram á opnunartíma Eymundsson í Austurstræti og í sýningarglugga verslunarinnar til þess að auðvelda áhorfendum að fylgjast með. Hann hefst klukkan 11 að morgni 5. september og honum lýkur að kvöldi sunnudagins 8. september.

Nokkur hópur manna hefur þegar skráð sig til þátttöku í Lestrarsprettinum. Er þar um að ræða fólk úr flestum lögum þjóðfélagsins: íþróttafólk, sófaspekinga, garðyrkjumenn, skáld, dúklagningarmenn, stjórnmálamenn og ekki síst hreina letihauga. Tekið skal fram að öllum er velkomið að taka þátt. Hægt er að skrá sig bæði með því að koma við í Eymundsson í Austurstræti eða með því að senda póst á svanborgs@eymundsson.is.

Hægt er að styrkja Ljósið með því að hringja í eftirfarandi styrktarnúmer:

901-5011 = 1.000 krónur
901-5013 = 3.000 krónur
901-5015 = 5.000 krónur

Einnig er hægt að leggja inn frjáls framlög á reikning Ljóssins, margt smátt gerir eitt stórt!

Reikningur: 0130-26-410420
Kennitala: 590406-0740

Um Ljósið
Ljósið er endurhæfingar- og stuðningsmiðstöð fyrir fólk sem hefur fengið krabbamein og aðstandendur þess. Markmið Ljóssins er að fólk fái sérhæfða endurhæfingu og stuðning, þar sem fagfólk aðstoðar við að byggja upp líkamlegt og andlegt þrek, auk þess að fá stuðning við að setja sér markmið sem auka daglega virkni og hafa þannig áhrif á lífsgæði almennt.

Bókmenntahátíð og PEN þingið gera samning við prentsmiðjuna Odda

handsal

Prentsmiðjan Oddi, PEN á Íslandi og Bókmenntahátíð í Reykjavík hafa gert með sér samning sem felur í sér að prentsmiðjan Oddi styrkir þingið og Bókmenntahátíðina með því að prenta án endurgjalds allt efni sem gefið verður út í kringum alþjóðalega ráðstefnu PEN samtakanna, PEN International, og Bókmenntahátíð í Reykjavík sem fram fara á sama tíma nú í annarri vikunni í september.

PEN International eru samtök rithöfunda, ritstjóra, þýðenda og blaðamanna sem vilja standa vörð um tjáningarfrelsið og berjast fyrir þeim málstað víða um heim. Samtökin voru stofnuð árið 1921 og á hverju ári síðan 1923 hafa þau haldið þing samtakanna með þátttöku frá PEN-félögum hvaðanæva að úr heiminum og verður þingið í Reykjavík engin undantekning þar á.

Þetta þing er sérstakt því það mun vera hið fyrsta sem haldið er í svo náinni samvinnu við bókmenntahátíð fundarstaðarins. Það sýnir hversu mikillar virðingar Bókmenntahátíð í Reykjavík nýtur á alþjóðlegum vettvangi, en hátíðin hefur verið haldin annað hvert ár að jafnaði síðan árið 1985. Bókmenntahátíð og PEN-þingið munu standa fyrir opinni dagskrá í Hörpu og í Norræna húsinu 11. og 12. september, þegar þinginu lýkur, en hátíðin stendur svo áfram til 15. september.

PEN-samtökin og Bókmenntahátíð í Reykjavík leituðu til prentsmiðjunnar Odda um samstarf og stuðning. Prentsmiðjan Oddi er leiðandi prentsmiðja á Íslandi og hefur frá stofnun verið í fararbroddi í þjónustu og frágangi, ekki síst þegar prentun snýr að bókum. Prentsmiðjan Oddi býr að auki yfir góðum tengslum inn í bókaútgáfu víða í heiminum og mun samstarfið auka þau tengsl enn frekar.

Bækur í sumarfríið

SumarlesturFjölmiðlar keppast nú við að birta ýmsa lista yfir bækur sem eru góðar í sumarfríið. Guardian birti t.d. lista yfir þær bækur sem ýmsir rithöfundar myndu pakka ofan í tösku og NPR er með alls konar lista yfir sumarbækur. Bókmenntahátíð í Reykjavík er með sinn eigin skothelda lista þetta sumarið sem óneitanlega tekur mið af höfundalista ársins. Hér eru nefndar tvær bækur sem finna má á náttborði einu hér í borg.

demain-j-aurai-20-ans_book_medium

Demain j’aurain vingt ans (ísl. Ég verð tvítugur á morgun) eftir Alain Mabanckou er hlý og bráðfyndin frásögn sem byggir á æsku höfundarins. Hér segir frá tíu ára dreng sem sem elst upp í Pointe Noire í Kongó í upphafi áttunda áratugarins. Lesendur kynnast fjölskyldu hans og aðstæðum og sjá heiminn með saklausum augum drengsins. Margt kemur lesandanum og drengnum undarlega fyrir sjónir, til dæmis birtingarmyndir kommúnismans en á heimili frænda hans hanga myndir af Marx og Engels (sem drengurinn telur að hljóti að vera tvíburar því þeir eru með eins skegg, hugsa það sama og þegar þeir hugsa það sama skrifa þeir um það saman í bók!). Undir frásögninni hljómar tónlist frá Vesturlöndum í gegnum útvarpið svo úr verður heillandi blanda af kongólskum veruleika og vestrænum áhrifum. Bókin er skrifuð á frönsku en hefur verið þýdd á ensku og sænsku, svo dæmi séu nefnd.

SumarhusSumarhús með sundlaug eftir Herman Koch fjallar hreint ekki um afslöppun í sumarhúsi með sundlaug, en bókin er þó kjörin til þess að taka með sér á slíkan stað. Hér er á ferðinni æsispennandi og dramatísk frásögn af heimilislækninum Marc Schlosser og þeirri atburðarás sem verður eftir að einn sjúklinga hans deyr. Áleitnar spurningar vakna um hvað gerðist eiginlega í sumarhúsi sjúklingins og fjölskyldu hans, þar sem læknirinn dvaldi ásamt eiginkonu sinni og dætrum. Bókin er spennusaga um mannlegt eðli sem erfitt er að leggja frá sér, en hún er líka fyndin og býsna ágeng.

Dagskrá Bókmenntahátíðar í smíðum

imagespÞessa dagana er vinna við dagskrá Bókmenntahátíðar í fullum gangi. Í ár verður hátíðin afar fjölbreytt og alls kyns hliðardagskrár eru í mótun, á undan, eftir og á meðan hátíðinni stendur. Dagskráin verður kynnt hér á heimasíðunni þegar hún liggur fyrir auk þess sem prentaður bæklingur mun liggja frammi á ýmsum stöðum.

Samstarfsaðilar Bókmenntahátíðar eru fjölmargir. Fyrst ber að nefna PEN International en sameiginleg dagskrá með þinginu verður spennandi og haldin bæði í Hörpu og í Norræna húsinu. Þá er einnig samvinna með Stofnun Árna Magnússonar, því þann 14. september, á afmælisdegi Sigurðar Nordals verður árlegur afmælisfyrirlestur stofnunarinnar hluti af Bókmenntahátíð. Það verður nánar kynnt síðar.

Bókmenntahátíð nýtur stuðnings fjölmargara fyrirtækja og stofnana og á undirsíðunni Samstarfsaðilar og stuðningur má sjá lista yfir þá.

Þátttakendur á Bókmenntahátíð í Reykjavík árið 2013

Sautján erlendir höfundar frá sextán löndum hafa staðfest komu sína til Reykjavíkur í haust. Þeir eru:

 • Svetlana Alexievich frá Hvíta-Rússlandi
 • Douglas Coupland frá Kanda
 • Kiran Desai frá Indlandi
 • Jenny Erpenbeck frá Þýskalandi
 • Kjell Espmark frá Svíþjóð
 • Nuka K. Godtfredsen frá Grænlandi
 • Georgi Gospodinov frá Búlgaríu
 • Rachel Joyce frá Bretlandi
 • Herman Koch frá Hollandi
 • Kim Leine frá Danmörku
 • Ewa Lipska frá Póllandi
 • Mazen Maarouf frá Palestínu
 • Alain Mabanckou frá Kongó
 • Madeline Miller frá Bandaríkjunum
 • Steve Sem-Sandberg frá Svíþjóð
 • Antonio Skármeta frá Chile
 • Can Xue frá Kína

Lesa má nánar um þá með því að smella hér.

Tíu íslenskir höfundar taka þátt í hátíðinni í ár en þeir eru:

 • Auður Jónsdóttir
 • Eyrún Ingadóttir
 • Gerður Kristný
 • Guðmundur Andri Thorsson
 • Hermann Stefánsson
 • Hugleikur Dagsson
 • Rúnar Helgi Vignisson
 • Stefán Máni
 • Sölvi Björn Sigurðsson
 • Þorsteinn frá Hamri

Þá er sex útgefendum og umboðsmönnum jafnframt boðið til þáttöku en þeir eru:

 • Pietro Biancardi – Iperborea
 • Diogo Madre Deus – Cavalo Ferro
 • Monika Gram – Leonhardt & Høier Literary Agency
 • Philip Gwyn Jones
 • Trine Licht – Licht & Burr Literary Agency
 • Hege Roel-Rousson – Actes Sud

Margir erlendir útgefendur þýddra bókmennta hafa einnig lýst áhuga sínum á að koma og má nefna að Chad Post og Kaiju Straumanis frá Open Letter Books í Bandaríkjunum, hefur þegar skráð sig til þátttöku á hátíðinni.

Jakobína

Alls eru fimm af þeim 63 íslensku höfundum sem tekið hafa þátt í Bókmenntahátíð í Reykjavík frá upphafi nú látnir. Þetta eru þau Björn Th. Björnsson, Einar Bragi, Jakobína Sigurðardóttir, Stefán Hörður Grímsson og Thor Vilhjálmsson.

Þrátt fyrir að þessi skáld og höfundar hafi yfirgefið okkur þá lifir minning þeirra áfram og textar þeirra lifa góðu lífi. Á bókasöfnum lúra bækur þeirra og þær svala þorsta forvitinna lesenda, ýmist í lágstemmdri þögn eða á byltingarkenndan hátt.

Hér verður örstutt fjallað um Jakobínu Sigurðardóttur sem tók þátt í hátíðinni árið 1987, en hún lést sjö árum síðar. Jakobína fæddist í Hælavík á Hornströndum árið 1918 og var því orðin 41 árs þegar hún sendi  frá sér sína fyrstu bók árið 1959. Árið 1965 kom út hin merka bók Dægurvísa, saga úr Reykjavíkurlífinu. Hér eru upphafslínur bókarinnar:

Það hafa fallið skúrir meðan bærinn svaf. Ekki þessar stóru hvolfur, sem dynja á götunni dropi í dropa, óslitinn straumur beint niður úr himninum, ofsafengnar eins og tár ástríðuheitrar konu, heldur gegnsæjar skúrir, hlýjar í logninu, hljóðar eins og tár ellinnar, skærar og léttar eins og tár bernskunnar. (Dægurvísa, saga úr Reykjavíkurlífinu, 1978, Iðunn, Reykjavík, bls. 21)

Sagan hverfist um þriggja hæða hús í Reykjavík og þá þrettán íbúa sem þar búa í sex vistarverum. Í hverjum kafla fær lesandinn að skyggnast inn í heim einnar persónu í einu á meðan aðrir kaflar eru sagðir frá sjónarhorni götunnar og hússins sjálfs. Líf persónanna fléttast saman á ýmsan hátt og í raun má segja að Dægurvísa sé ein fyrsta íslenska skáldsagan þar sem hópsagan kemur fram. Þar er engin ein aðalpersóna en saman mynda bæði rýmið og persónurnar púsluspil sem raðast saman við sögulok. Í sögunni má finna ljóðræna kafla og gott stílnæmi. Lokasetningar bókarinnar kallast á við upphafið þar sem gatan og regnið koma aftur við sögu og morguninn í upphafi bókar er að kvöldi kominn:

Dagur er liðinn, kyrrð næturinnar nálgast. En gatan vakir enn, þó hún dotti öðruhvoru. Það er byrjað að rigna. Og þrestirnir hafa hægt um sig. En þeir þegja varla lengi. Þegar styttir upp, jafnvel áður en styttir upp, hefja þeir sönginn aftur, þetta lag, sem er þó varla neitt lag, sömu tónarnir aftur og aftur: — Lifa — lifa. (Dægurvísa bls. 208)

Þremur árum síðar gaf Jakobína út bókina Snaran. Sú bók er einnig um margt merkileg en hún er eintal þar sem ósýnileg og þögul manneskja er ávörpuð út alla bókina. Þetta er allsérstakt stílbragð og sýnir vel leikgleði Jakobínu þegar kom að stílnum. Eins og í Dægurvísu má finna beitta ádeilu á stjórnarfar og ríkjandi hugarfar. Sögusviðið er verksmiðja og sagan gerist í óljósri framtíð en lesandinn spyr sig óneitanlega hvort þessi framtíðarsýn hafi þegar ræst.

Þrjár af skáldsögum Jakobínu, Dægurvísa, Snaran og Lifandi vatnið, voru valdar sem framlag Íslands til Bókmenntaverðlaun Norðurlandaráðs. Jakobína gaf einnig um ljóðabækur, barnabók og endurminningar hennar komu út í bókinni Í barndómi árið 1994.

Jakobína Sigurðardóttir var, án nokkurs vafa, stórmerkilegur höfundur og fyrir þau ykkar sem enn hafið ekki lesið bækur hennar er óhætt að mæla með þeim.

Bókmenntahátíð í Reykjavík I The Reykjavík International Literary Festival