Skip to main content

Ian McEwan hlýtur Alþjóðleg bókmenntaverðlaun Halldórs Laxness 2019

Á alþjóðlegu málþingi um Halldór Laxness sem haldið var í Veröld á Bókmenntahátíð í Reykjavík í dag tilkynnti Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra um handhafa fyrstu Alþjóðlegu bókmenntaverðlauna Halldórs Laxness.

Verðlaunin nema 15.000 evrum og eru veitt alþjóðlega þekktum rithöfundi fyrir að stuðla að endurnýjun sagnalistar með verkum sínum, en fyrir það hlaut Halldór sjálfur Nóbelsverðlaunin á sínum tíma. Að verðlaununum standa skrifstofa forsætisráðherra, menntamálaráðuneytið, Íslandsstofa, Bókmenntahátíð í Reykjavík, Gljúfrasteinn og Forlagið og verða þau hér eftir veitt á Bókmenntahátíð í Reykjavík. Í valnefnd verðlaunanna að þessu sinni voru Eliza Reid forsetafrú, Einar Már Guðmundsson rithöfundur og Stella Soffía Jóhannesdóttir framkvæmdastjóri Bókmenntahátíðar í Reykjavík.

Fyrsti handhafi verðlaunanna er breski rithöfundurinn Ian McEwan. Hann gat ekki verið viðstaddur þingið en mun sækja landið heim í september til þess að veita þeim viðtöku. Um sama leyti mun koma út hjá Bjarti þýðing Árna Óskarssonar á nýjustu bók höfundarins, Machines Like Me, sem er nýkomin út á ensku.

Í skilaboðum frá höfundi segist hann vera afar þakklátur fyrir verðlaunin og að hann hlakki til að koma til Reykjavíkur í haust til þess að taka við þeim.

Umsögn valnefndar fylgir hér ásamt lista yfir útgefin verk Ians McEwan

Valnefnd Alþjóðlegra bókmenntaverðlauna Halldórs Laxness hefur ákveðið að veita enska rithöfundinum Ian McEwan verðlaun í fyrsta sinn sem þau eru afhent. Ferill Ians McEwan spannar næstum því hálfa öld en fyrstu bækur hans, smásögurnar First Love, Last Rites og In between the Sheets og skáldsögurnar Steinsteypugarðurinn, The Cement Garden og Vinarþel ókunnugra, The Comfort of Strangers, komu út árunum frá 1975 til 1981 og nýjasta skáldsagan Machines like me er nýkomin út, í apríl 2019 og mun vera væntanleg á íslensku. Þessar fyrstu sögur vöktu mikla athygli og náðu vel til áhugamanna um nýjungar í bókmenntum. Þar kvað við nýjan tón en um leið vöktu þær harðar deilur. Það voru ekki síst ögrandi viðfangsefnin, efnisval utan alfararleiðar, viðkvæm mál, sem skópu höfundinum sérstöðu. Sagt hefur verið um Ian McEwan að hann haldi sig ekki bara við fyrirsagnirnar í huganum heldur líka smáa letrið í sálinni.

Höfundarverkið spannar átján útgefin verk, og Ian McEwan hefur líka skrifað kvikmyndahandrit, barnasögur, leikrit og óperutexta. Sögur hans spanna vítt svið, frá frekar óhuggulegum sögum úr dimmustu afkimum sálarinnar yfir í breiðari samfélags- og mannlífslýsingar, sögur sviðsettar í samtíma okkar og sögu, á tíma seinni heimsstyrjaldarinnar, tíma kalda stríðsins, tímabili Margrétar Thatchers, tíma loftslagsbreytinga, og oft sögur með knýjandi siðferðislegum spurningum um mátt vísindannna og takmarkanir þeirra.

Yfir sögum hans hvílir nútíminn einsog reykur úr verksm­iðju; og ekki bara reykur heldur loftslag, sérstakt loftslag, andrúmsloft. Stíll­inn er úthugsaður, nákvæmur og skýr, en einkennist um leið af órökrænum skynjunum en slíkar lýsingar eru aldrei úr lausu lofti gripnar heldur greyptar í sálarástand persónanna. Nákvæmni setninganna vegur þungt, skírleiki þeirra og hljómur, í stuttu máli sagt, andrúmsloftið í textanum. Öllum má vera ljóst að vandi mannlegrar tilveru knýr að dyrum þessa höfundar og hann opnar sig ætíð með óvæntu og nýstárlegu móti.

Barnið og tíminn, The Child in Time, sem kom út árið 1985 markaði nýtt tímabil, tímabil breiðari sagna með sterkari samfélagslegri skírskotun. Meðal þeirra eru njósna- og kaldastríðssögurnar Sakleysinginn, The Innocent, og Svartir hundar, Black Dogs, og Eilíf ást, Enduring Love. Friðþægingin, Atonement, er ein sú frægasta en eftir henni var gerð vinsæl kvikmynd og fleiri sögur hans hafa verið kvikmyndaðar. Fyrir skáldsöguna Amsterdam fékk hann Booker verðlaunin. Ferill hans hefur verið samfelld sigurganga en hann oft umdeildur og má það heita lífsmark með höfundi. Við verðlaunum hér glæsilegan feril, höfund með mikið erindi.

Verk og verðlaun höfundar

Smásagnasöfn:

First Love, Last Rites

In Between The Sheets

Skáldsögur:

The Cement Garden (Steinsteypugarðurinn, þýð. Einar Már Guðmundsson. Almenna bókafélagið 1987)

The Comfort of Strangers (Vinarþel ókunnugra, þýð. Einar Már Guðmundsson. Almenna bókafélagið 1993)

The Child in Time (Barnið og tíminn, þýð. Árni Óskarsson. Bjartur 2004)

The Innocent

Black Dogs

The Day Dreamer (barnabók)

Enduring Love (Eilíf ást, þýð. Geir Svansson. Bjartur 1998)

Amsterdam (Amsterdam, þýð. Uggi Jónsson. Bjartur 1999)

Atonement (Friðþæging, þýð. Rúnar Helgi Vignisson. Bjartur 2003)

Saturday (Laugardagur, þýð. Árni Óskarsson. Bjartur 2006)

On Chesil Beach (Brúkaupsnóttin, þýð. Uggi Jónsson. Bjartur 2008)

Solar

Sweet Tooth

The Children Act

Nutshell (Hnotskurn, þýð. Árni Óskarsson. Bjartur 2017)

Machines Like Me

Verðlaun:

Somerset Maugham-verðlaunin: First love, Last Rite (1976)

Whitbread-verðlaunin fyrir bók ársins: The Child in Time (1987)

Booker-verðlaunin: Amsterdam (1998)