Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra afhendir Andrej Kúrkov Alþjóðleg bókmenntaverðlaun Halldórs Laxness við hátíðlega athöfn miðvikudaginn 7. september kl. 16. Kúrkov flytur við það tækifæri fyrirlestur Halldórs Laxness. Viðburðurinn er opinn öllum og fer fram á ensku í hátíðarsal Háskóla Íslands.
Upplestrarkvöld fer svo fram í Iðnó í kvöld, 7. september k. 20, þar sem Kúrkov kemur fram ásamt rithöfundunum Bergþóru Snæbjörnsdóttur og Guðrúnu Evu Mínervudóttur. Þær munu lesa úr væntanlegum bókum. Hallgrímur Helgason stýrir dagskránni. Aðgangur er ókeypis og allir velkomnir.
Um Andrej Kúrkov
Andrej Kúrkov sló í gegn með bókinni Dauðinn og mörgæsin sem gerði hann að þekktasta samtímahöfundi Úkraínumanna. Í henni fjallar Kúrkov á bráðskemmtilegan og tregafullan hátt um fjarstæðukenndan veruleika hversdagsfólks í löndum Austur-Evrópu eftir fall járntjaldsins og það gerir Kúrkov líka í fleiri verkum sínum. Dauðinn og mörgæsin kom út í íslenskri þýðingu Áslaugar Agnarsdóttur hjá Bjarti árið 2005 og bókin var endurútgefin vorið 2022.
Kúrkov er afkastamikill rithöfundur og hafa bækur hans komið út á 42 tungumálum. Hann skrifar bæði fyrir börn og fullorðna og fjölmargar kvikmyndir hafa verið gerðar eftir handritum hans. Á þessu ári kemur út á bók með dagbókarskrifum hans sem hófust í aðdraganda innrásar Rússa í Úkraínu. Bókina skrifar hann á ensku og ber hún heitið Diary of an Invasion. Kúrkov er forseti alþjóðlegu rithöfundasamtakanna PEN í Úkraínu og hefur undanfarin misseri ferðast víða um heim og fjallað um innrás Rússa í Úkraínu. Kúrkov tók þátt í Bókmenntahátíð í Reykjavík árið 2005 og muna margir eftir stórskemmtilegri framkomu hans á upplestrarkvöldi í Iðnó.
Umsögn valnefndar
„Andrei Kúrkov skipar vissulega einstakan sess í heimsmenningunni. Hann fæddist í Pétursborg sem þá var kölluð Leníngrad og hann hefur búið í Kyiv frá blautu barnsbeini. Hann ritar bækur sínar á rússnesku en þær eru bannaðar í Rússlandi. Hann hefur, sem höfundur, vel þekktur menntamaður og forseti PEN í Úkraínu, sýnt fádæma hugrekki og djörfung með því að andmæla ritskoðun, áróðri, pólitískum þrýstingi og ómannúðlegri hersetu og styrjaldarbrölti. Honum er ljóst að stundum renna upp þær stundir í sögu mannkyns þegar höfundar þegja þunnu hljóði andspænis kerfisbundnu ranglæti, grimmd og kúgun. Þetta kallar hann hins vegar „skyldu sína“. Skáldverk hans, ekki síst ádeilukrimminn Dauðinn og mörgæsin, eru borin uppi af visku, háði og einlægni. Í bókinni Ukraine Diaries: Dispatches from Kiev eru nánast daglega skráðar færslur mánuðum saman, þar sem birtist fölskvalaus sýn á tilveruna eins og hún verður á tímum átaka, glundroða, kreppu og samfélagsbyltingar. Höfundurinn birtir lesandanum stórfengleikann sem birtist í hversdagslífinu og það hversdagslega í stórviðburðunum. Árum saman hefur hann verið staðfastur og yfirvegaður í verkum sínum og hann er ævinlega staðráðinn í að verja mál- og ritfrelsið með reisn. Rödd hans hefur djúp áhrif og ber uppi brýn og sammannleg erindi.“ Elif Shafak
Um verðlaunin
Verðlaunin nema 15.000 evrum og eru veitt alþjóðlega þekktum rithöfundi fyrir að stuðla að endurnýjun sagnalistar með verkum sínum, en fyrir það hlaut Halldór sjálfur Nóbelsverðlaunin á sínum tíma. Að verðlaununum standa Forsætisráðuneytið, Menningar- og viðskiptaráðuneytið, Íslandsstofa, Bókmenntahátíð í Reykjavík, Gljúfrasteinn og Forlagið. Í valnefnd verðlaunanna að þessu sinni voru Egill Helgason fjölmiðlamaður, Stella Soffía Jóhannesdóttir framkvæmdastjóri Bókmenntahátíðar í Reykjavík og Elif Shafak, handhafi Alþjóðlegra bókmenntaverðlauna Halldórs Laxness 2021.