Yrsa Sigurðardóttir, vinsæll glæpasagnahöfundur

Yrsa Sigurðardóttir

Yrsa Sigurðardóttir

Yrsa Sigurðardóttir fæddist árið 1963. Hún hefur lokið mastersnámi í byggingarverkfræði frá Concordia University í Montreal og starfar sem byggingarverkfræðingur samhliða ritstörfum sínum.
Segja má að rithöfundaferill Yrsu sé tvískiptur. Í fyrstu skrifaði hún barna- og unglingabækur en í seinni tíð hefur hún snúið sér að glæpasagnaritun. Sögurnar hennar hafa vægast sagt hlotið góðar viðtökur lesenda og gagnrýnenda en nánast hver einasta bók sem hún gefur frá sér verður að metsölubók.
Fyrsta barnabók Yrsu, Þar lágu Danir í því kom út árið 1998. Önnur bók hennar Við viljum jólin í júlí kom út árið 1999 hjá Máli og menningu. Bókin hlaut viðurkenningu Barnabókaráðs Íslands. Þriðja bók Yrsu, Barnapíubófinn, búkolla og bókarránið kom út árið 2000 og unglingabókin B10 kom út árið 2001. Fimmta bók hennar Biobörn kom út árið 2003. Sú bók hlaut Íslensku Barnabókaverðlaunin.

Brakið-frontur-175x258Fyrsta skáldsaga Yrsu fyrir fullorðna er glæpasagan Þriðja táknið sem gefin var út hjá Veröld árið 2005. Í bókinni fæst lögfræðingurinn Þóra Guðmundsdóttir við dularfullt sakamál. Ári síðar, 2006 sendi Yrsa frá sér bókina Sér grefur gröf en þar er Þóra einnig aðalpersónan. Yrsa hefur gefið út fleiri vinsælar glæpasögur þar sem Þóra leysir sakamál, bókin Aska kom út árið 2007, Auðnin árið 2008, Horfðu á mig árið 2009 og Brakið árið 2011. Í þremur bókum Yrsu er Þóra ekki aðalpersóna, Ég man þig frá árinu 2010, Kuldi frá 2012 og Lygi frá 2013.

Brakið var valin besta norræna glæpasagan sem kom út í Bretlandi á síðasta ári. Yrsa tók við verðlaunum fyrir bókina á glæpasagnahátíðinni CrimeFest í Bristol fyrr á þessu ári.

Útgáfuréttur bóka Yrsu hefur verið seldur til fjölmargra landa og hafa bækur hennar DNA-175x254komið út í þýðingum víða um heim. Nýjasta bók Yrsu DNA kom út árið 2014 og hlaut mikið lof lesenda. Fyrir bókina hlaut Yrsa Blóðdropann, glæpasagnaverðlaun Hins íslenska glæpafélags. Það var í annað skiptið sem Yrsa hlýtur þau verðlaun en áður vann hún árið 2011 fyrir bókina Ég man þig. Bókin DNA er tilnefnd af Íslands hálfu til Glerlykilsins, Norrænu glæpasagnaverðlaunanna.

Hér fjallar Úlfhildur Dagsdóttir um verk Yrsu.

Pallborðsumræður: Glæpasögur á síðkvöldi