Vilborg Davíðsdóttir, rithöfundur og þjóðfræðingur

Vilborg_feb.2015

Vilborg Davíðsdóttir

Vilborg Davíðsdóttir fæddist árið 1965. Hún starfaði við fjölmiðla frá árinu 1985 – 2000 við blaðamennsku, dagskrárgerð og sem fréttakona. Vilborg er þjóðfræðingur að mennt. Hún hefur helgað sig ritstörfum og þýðingum frá árinu 2000.

Fyrsta bók hennar, skáldsagan Við Urðarbrunn, kom út árið 1993 og framhald hennar, Nornadómur, árið eftir. Bækurnar gerast um aldamótin 900 og segja frá baráttu ambáttar fyrir1839-4001-175x284 betra lífi. Við Urðarbrunn hlaut verðlaun Íslandsdeildar IBBY árið 1994 og ári síðar fékk framhaldsbókin, Nornadómur, verðlaun Skólamálaráðs Reykjavíkur. Vilborg hlaut viðurkenningu Rithöfundasjóðs Íslands fyrir ritstörf árið 1994. Bækurnar voru endurútgefnar árið 2001 í einni bók undir titlinum Korku saga. Hún hefur verið endurprentuð margsinnis síðan og nýtur stöðugra vinsælda meðal lesenda á öllum aldri.

Þriðja bók Vilborgar er Eldfórnin frá árinu 1997. Eldfórnin er söguleg skáldsaga sem byggir á atburðum sem gerðust í Kirkjubæjarklaustri á 14. öld. Fjórða bók Vilborgar, Galdur kom út árið 2000. Bókin byggir einnig á sögulegum atburðum og gerist í Skagafirði á 15. öld þegar Englendingar voru svo áhrifamiklir á Íslandi að hún er nefnd Enska öldin. Fimmta skáldsaga hennar, Hrafninn kom út árið 2005. Sagan er byggð á heimildum um lífshætti inúíta og norrænna manna á Grænlandi um miðja 15. öld og tekst meðal annars á við ráðgátuna um hvað olli því að norræna byggðin þar lagðist í eyði fimm öldum eftir að Eiríkur rauði nam land. Hrafninn var tilnefndur árið 2005 til Íslensku bókmenntaverðlaunanna.

Vilborg hefur einnig starfað við þýðingar. Árið 2002 kom út þýðing hennar á skáldsögunni The Hiding Place eftir bresku skáldkonuna Trezza Azzopardi, undir titlinum Felustaðurinn. Árið 2003 hlaut Vilborg viðurkenningu úr Bókasafnssjóði höfunda.
Audur-175x261 Vilborg sendi frá sér skáldsöguna Auður árið 2009 sem fjallar um uppvaxtarár Auðar Ketilsdóttur djúpúðgu á Bretlandseyjum og aðdraganda þess að norrænir menn sigldu þaðan til að nema land á Íslandi í lok níundu aldar. Auður hlaut mikið lof lesenda og gagnrýnenda og var einnig tilnefnd til Íslensku bókmenntaverðlaunanna. Framhald hennar, Vígroði, kom út haustið 2012.
Við Urðarbrunn og Nornadómur komu út í færeyskri þýðingu árin 2003 og 2004 og skáldsögurnar Eldfórnin (Das Feueropfer), Galdur (Der Liebeszauber) og Hrafninn (Die Winterfrau) hafa komið út á þýsku hjá Bertelsmann btb. Galdur kom út í mars 2012 hjá AmazonCrossing í Bandaríkjunum undir titlinum On the Cold Coasts. Vilborg tók einnig þátt í Bókmenntahátíð árið 2005

Nýjasta bók Vilborgar, Ástin, drekinn og dauðinn, kom út fyrr á þessu ári. Þar lýsir hún Astindrekinogdaudin-175x204vegferð sinni og manns síns með sjúkdómi sem þau vissu að myndi draga hann til dauða og fyrsta árinu eftir að hún varð ekkja. Bókin hefur fengið afar góðar viðtökur lesenda og einróma lof, ekki síst fyrir að hún fjallar um ástvinamissi og sorg á áhrifamikinn og væmnislausan hátt og er um leið hvatning til að lifa í árvekni og sættast við að dauðinn er órjúfanlegur hluti af lífinu.

Hér má sjá skemmtilegt viðtal við Vilborgu.

Pallborðsumræður: Íslenskar bókmenntir sem innblástur