Vilborg Dagbjartsdóttir, barnabókahöfundur og ljóðskáld

Vilborg_Dagbjartsdottir svhv

Vilborg Dagbjartsdóttir

Vilborg Dagbjartsdóttir fæddist árið 1930. Hún lærði leiklist og lauk einnig kennaraprófi og námi í bókasafnsfræðum við Háskóla Íslands. Ásamt starfi sínu sem rithöfundur starfaði hún sem kennari við Austurbæjarskóla um árabil. Vilborg hefur gefið út fjölmargar barnabækur, bæði sagnabækur og námsefni.

Hún er einnig ljóðskáld og hefur sent frá sér ljóðabækur. 
Fyrsta ljóðabók Vilborgar, Laufið á trjánum kom út árið 1960 og var hún þá ein af fáum konum sem skrifuðu atómljóð. Hún birti einnig ljóð í tímaritinu Birtingi og á fjölda ljóða og greina í Siddegi-175x286tímaritum og safnritum. Ljóð Vilborgar hafa birst í erlendum safn- og tímaritum og verið þýdd yfir á fjölmörg tungumál.
 Meðal annarra ljóðabóka eftir Vilborgu eru Dvergliljur sem kom út árið 1968, Kyndilmessa frá 1971 og Klukkan í turninum frá 1992. Árið 2010 sendi  Vilborg frá sér ljóðabókina Síðdegi sem er hennar níunda ljóðabók. Ljóðabókin var bæði tilnefnd til Fjöruverðlaunanna og Menningarverðlauna DV í bókmenntum.

Fyrsta barnabókin sem að Vilborg sendi frá sér er bókin Anni Nalli og Tunglið frá árinu 1959. Hér má sjá brot út þessari skemmtilegu bók:
„Svo setti hún grautarpottinn út í glugga og kallaði: Gjörðu svo vel tungl. Þú mátt eiga grautinn hans Alla Nalla. Þá var tunglið bara örlítil rönd á himninum og það hefur verið sársvangt, því það flýtti sér að teygja sig niður og át allan grautinn úr pottinum með stærstu ausunni, sem til var í húsinu.“

Bókin Alli Nalli og tunglið er löngu orðin sígild og vel þekkt meðal íslenskra barna.
Þess má til gamans geta að fjölmargar barnaleiksýningar hafa verið settar upp sem byggðar eru á sívinsælu sögum Vilborgar. Bókin Sögur af Alla Nalla kom út árið 1965. Þá hefur Vilborg einnig sent frá sér barnabækurnar Sagan af Labba Pabbakút árið 1971, Langsum og þversum árið 1979, Tvær sögur um tunglið árið 1981, Sögusteinn árið 1983, Bogga á Hjalla árið 1984, og bókina Fugl og fiskur árið 2006.
Vilborg ritstýrði Óskastundinni, barnablaði Þjóðviljans frá 1956 – 1962 og Kompunni, barnasíðu sunnudagsblaðs sama blaðs, frá 1975 – 1979. Þá hefur Vilborg einnig starfað við þýðingar og þýtt fjölda bóka.

Vilborg var einn af stofnendum Rauðsokkahreyfingarinnar og átti sæti fyrir miðju hreyfingarinnar 1970. Hún sat einnig í stjórn Menningar- og friðarsamtaka íslenskra kvenna. 
Þá var Vilborg í stjórn kvikmyndaklúbbsins og Litla bíós frá 1968 – 1970.

Vilborg hefur hlotið mörg verðlaun og viðurkenningar fyrir störf sín sem rithöfundur og ljóðskáld. Árið 2000 hlaut hún Heiðursmerki hinnar íslensku fálkaorðu.
Tvær bækur hafa verið gefnar út um ævi Vilborgar, bókin Mynd af konu: Vilborg Dagbjartsdóttir sem skrásett er af Kristínu Marju Baldursdóttur árið 2000 og bókin Úr þagnarhyl sem skrásett er af Þorleifi Haukssyni árið 2012.

Pallborðsumræður: Vilborg Dagbjartsdóttir í samtali við Kristínu Ómarsdóttur