Frá upphafi

Stofnað var til Bókmenntahátíðar í Reykjavík árið 1985 að frumkvæði Thors Vilhjálmssonar, Einars Braga og Knuts Ödegård. Fyrsta hátíðin var norræn ljóðahátíð en tveimur árum síðar, árið 1987, var áherslan orðin alþjóðleg. Erlendir höfundar það ár voru meðal annarra Kurt Vonnegut, Isabel Allende og Fay Weldon. Síðan þá hafa hátt á þriðja hundrað erlendra höfunda sótt Reykjavík heim, auk þess sem fjöldi íslenskra höfunda hafa tekið þátt.

Bókmenntahátíð í Reykjavík hefur að jafnaði verið haldin annað hvert ár og fer hún fram í annarri vikunni í september. Hún er haldin í Norræna húsinu, Iðnó og á fleiri stöðum og eru viðburðir fjölbreyttir: upplestrar, viðtöl, málþing, ráðstefnur og bókaball. Ókeypis er inn á alla viðburði, nema annað sé tekið fram.

Á Bókmenntahátíð í Reykjavík gerist alltaf eitthvað óvænt og skemmtilegt! Dyr hátíðarinnar standa öllum opnar, nálægð lesanda og höfundar eru aðalsmerki hennar, sem og einstaklega skemmtileg og hlýleg stemning sem gestir fyrri hátíða tala fallega um. Viltu vita meira eða koma með ábendingu um uppáhaldshöfundinn þinn? Skrifaðu á info (at) bokmenntahatid.is.

Árið 2011 var sett upp ljósmyndasýning þar sem sýndar voru myndir og sagðar sögum af nokkrum gestum fyrri hátíða. Hér má skoða sýninguna: Nokkrir gestir // A Few Guests

Stjórn og starfsfólk

Bókmenntahátíð í Reykjavík er sjálfseignarstofnun og starfar á grundvelli laga nr. 19/1988 um sjóði og stofnanir sem starfa samkvæmt staðfestri skipulagsskrá. Stjórn hátíðarinnar er skipuð sjálfboðaliðum og eru þeir eftirfarandi: Sigurður G. Valgeirsson (stjórnarformaður), Einar Kárason, Halldór Guðmundsson, Max Dager, Óttarr Proppé, Pétur Már Ólafsson, Stella Soffía Jóhannesdóttir, Þorgerður Agla Magnúsdóttir og Örnólfur Thorsson. Framkvæmdastjóri hátíðarinnar er Stella Soffía Jóhannesdóttir.