Þýðingar: leið fyrir rithöfunda að halda geðheilsunni

Þýski og hálf-íslenski rithöfundurinn og þýðandinn Kristof Magnusson var gestur á síðustu Bókmenntahátíð í Reykjavík. Kristof hefur gefið út tvær skáldsögur og þrjú leikrit eftir hann hafa verið sett á svið í Þýskalandi auk eins útvarpsleikrits. Árið 2010 kom út skáldsagan Das war ich nicht en á dögunum kom hún út hjá Máli og menningu í íslenskri þýðingu Bjarna Jónssonar undir heitinu Það var ekki ég. Bókin fjallar um þrjár ólíkar persónur: bankamanninn Jasper, þýðandann Meike og heimsþekkta rithöfundinn Henry og í bókinni koma við sögu ástarþríhyrningur og peningar. Hér má sjá gagnrýni Björns Þórs Vilhjálmssonar á bókina í Víðsjá frá 9. nóvember síðastliðnum.

Í tilefni af útgáfunni spjallaði Bókmenntahátíðin stuttlega við Kristof um muninn á því að vera þýðandi og rithöfundur og kvíðann sem fylgir því síðarnefnda.

* Bókin kom upprunalega út í Þýskalandi árið 2010. Hvernig finnst þér bókin eldast – á hún jafn mikið erindi árið 2012?

Ég skrifaði meiginhluta af bókinni 2007/2008 og gerði ítarlega rannsókn í fjármálaheiminum árið 2008, að vísu fyrri part ársins, áður en Lehman Brothers fór á hausinn og heimsfjármálakreppan fór af stað. Bókin er ekki skrifuð með kreppuna í huga. Hún á jafn mikið erindi núna og fyrir tveimur árum. Fólk veit bara meira um banka- og fjármálakerfið núna en fyrir kreppu, áhuginn hefur aukist, sem er ein af fáum jákvæðum afleiðingum kreppunnar. En bókin er fyrst og fremst ástarsaga sem gerist í fjármálaheiminum og mér fannst mikilvægt aðleggja áherslu á það að ýmis fyrirbæri eru svipuð þegar um ást eða peninga er að ræða: Ást og peningar eru sterkasta aflið sem heldur fólk saman. Og þegar fólk lætur sig dreyma, láta flestir sig dreyma um að verða annaðhvort hamingjusamir eða ríkir. Eða hvort tveggja.

* Nú hefur þú þýtt mikið af íslenskum skáldverkum á þýsku, hvernig tilfinning var það að vera sjálfur þýddur yfir á annað tungumál?

Það er alltaf mikill heiður. Þýðendur leggja svo mikla vinnu í það að þýða bók og fara stundum dýpra í mörg smáatriði en höfundurinn sjálfur. Bókin mín hefur verið þýdd á mörg tungumál eins og ítölsku, hollensku og slóvensku – tungumál sem ég skil ekki. Að vera þýddur yfir á íslensku var sérstaklega skemmtilegt fyrir mig vegna þess að ég gat lesið þýðinguna sem ég er reyndar mjög ánægður með.
* Finnurðu mikinn mun á starfi þýðandans og rithöfundarins? Fer þetta vel saman?
Þetta fer vel saman. Að þýða og að skrifa eru skapandi störf en samt nokkuð ólík. Mér finnst ekki auðveldara að þýða heldur en að skrifa. Þýðandinn þarf að vísu ekki að hafa áhyggjur af sögunni og persónunum og hugsar „bara“ um tungumálið, það hljómar kannski auðveldara en höfundurinn getur aftur á móti stytt sér leiðina með því að eyða öllum setningum sem hann er ekki ánægður með. Höfundurinn þarf bara að segja það sem hann langar að tjá. Þýðandinn getur aldrei stytt sér leið, hann þarf að finna lausn á sínu tungumálið fyrir allt sem höfundurinn hefur kokkað upp. Aðalmunurinn fyrir mig á þýðenda- og höfundastarfinu er að ég finn alltaf fyrir kvíða þegar ég er að skrifa sjálfur, er alltaf hræddur um að taka ranga ákvörðun fyrir söguna mína, ranga ákvörðun með söguþráðinn sem eyðileggur allt. Þegar ég er að þýða er ég ekki eins kvíðinn, það er ein af ástæðunum fyrir því að mér finnst nauðsynlegt að þýða. Þetta er góð leið fyrir höfund til að halda geðheilsu sinni.
* Að hverju ertu að vinna núna?
Ég er að skrifa nýja skáldsögu sem mér vonandi tekst að klára 2013. Svo ætla ég að skrifa nýtt leikrit eftir það.