Þórdís Gísladóttir, rithöfundur, ljóðskáld og þýðandi

thordis gisladottir

Þórdís Gísladóttir

Þórdís Gísladóttir fæddist árið 1965. Hún er með próf í íslensku frá Háskóla Íslands og licentiat-gráðu í norrænum fræðum frá Uppsalaháskóla í Svíþjóð. Hún er rithöfundur, þýðandi og ljóðskáld sem bæði hefur samið fyrir fullorðna og börn. Þá hefur hún einnig samið námsbækur.

Leyndarmál-annarra-175x271Þórdís hlaut Bókmenntaverðlaun Tómasar Guðmundssonar fyrir ljóðabókina Leyndarmál annarra árið 2010. Hér má sjá tilvitnun úr Víðsjá 4. nóvember 2010 þar sem fjallað er um bókina Leyndarmál annarra;

„… Líkt og titill bókarinnar gefur til kynna er leitast við að skyggnast undir yfirborðið í lífi ókunnugs fólks með ímyndunaraflið að vopni. Þórdísi ferst þetta verk vel úr hendi, hún er ekki örvæntingarfull eða vonsvikin eins og gluggagægirinn sem Purrkur Pillnikk söng um, heldur húmoristi og húmanisti í senn, skrásetjari einhvers sem er til, ekki bara í hugskoti hennar sjálfrar, heldur allt í kringum okkur. Það er notalegt að hlæja með Þórdísi í þessari bók, og kannski fáum við að njóta þess aftur ef bækurnar verða fleiri.“

Velúr-175x281Þórdís sendi frá sér sína aðra ljóðabók Velúr árið 2014. Sú vandaða ljóðabók var tilnefnd til Íslensku bókmenntaverðlaunanna sama ár.
Ásamt starfi sínu sem rithöfundur hefur Þórdís kennt við Háskóla Íslands og Uppsala háskólann í Svíþjóð. Einnig hefur hún skrifað um bókmenntir í norska dagblaðið Klassekampen, starfað sem gagnrýnandi og gert útvarpsþætti.

Þórdís er afkastamikill þýðandi, aðallega úr sænsku, en hún þýddi meðal annars bókina Allt er ást árið 2012 eftir Kristian Lundberg og fyrir hana var hún tilnefnd til Íslensku þýðingarverðlaunanna.Randalín-og-Mundi-175x268
Þórdís þýddi líka bókina Í leyfisleysi eftir Lenu Andersson sem einnig er gestur Bókmenntahátíðar í ár.

Árið 2012 sendi Þórdís frá sér barnabókina Randalín og Mundi. Fyrir hana hlaut hún bæði Fjöruverðlaunin og Bóksalaverðlaunin. Ári seinna kom framhaldið, Randalín og Mundi í Leynilundi, íslenskum börnum til mikillar gleði.
Í haust kemur út þriðja ljóðabók Þórdísar og einnig þriðja bókin um Randalín og Munda.

Pallborðsumræður: Töfrar hversdagsleikans í bókmenntum