Tapio Koivukari

Mynd: Johnny Kniga

Tapio Koivukari er finnskur höfundur sem hefur samið skáldsögur, smásögur, ljóð og leikrit. Koivukari var búsettur á Íslandi um árabil og er mikilvirkur þýðandi íslenskra bókmennta á finnsku. Tvær bækur Koivukaris hafa komið út á íslensku, Yfir hafið, inn í steininn árið 2009 og Ariasman árið 2011. Vakti sú síðarnefnda sérstaka athygli hér á landi, enda fjallar hún um Spánverjavígin svokölluðu, fjöldamorð Íslendinga á baskneskum hvalföngurum á Vestfjörðum árið 1615. Þriðja bók Koivukaris, Draumapredikarinn (Unissasaarnaaja), fjallar um andlegt ástand fólks í Finnlandi eftir seinni heimsstyrjöldina og uppgang spíritismans þar. Fyrir bókina hlaut höfundurinn hin virtu Runeberg-verðlaun í Finnlandi og hún er væntanleg í íslenskri þýðingu undir merkjum bókaútgáfunnar Sæmundar.