Steinunn Sigurðardóttir, rithöfundur og skáld

© David Ignaszewski-koboy

Steinunn Sigurðardóttir (photo by David Ignaszewski Koboy)

Steinunn Sigurðardóttir  lauk prófi í sálfræði og heimspeki frá University College Dublin árið 1972. Þá hafði hún þegar sent frá sér tvær ljóðabækur, Sífellur og Þar og þá, á tímum þegar konur voru fámennar í rithöfundastétt á Íslandi. Steinunn hefur verið óslitið við ritstörf síðan, en hún vann framan af við fréttamennsku fyrir útvarp, blaðamennsku og þáttagerð fyrir sjónvarp. Þar á meðal er þáttur um Vigdísi Finnbogadóttur í forsetatíð hennar. Enn fremur viðtöl við rithöfunda, t.d. Halldór Laxness og Iris Murdoch. Steinunn hefur einnig þýtt skáldsögur og ljóð.

Steinunn sló í gegn hjá lærðum og leikum með sinni 0091-175x268fyrstu skáldsögu Tímaþjófurinn sem kom út árið 1986 og er sagan enn viðfangsefni bókmenntafólks. Franska kvikmyndin Voleur de vie frá 1999 (í leikstjórn Yves Angelo) með Sandrine Bonnaire og Emmanuelle Beart í aðalhlutverkum er byggð á skáldsögu Steinunnar Tímaþjófurinn.

Árið 1988 sendi Steinunn frá sér bókina Ein á forsetavakt: dagar í lífi Vigdísar Finnbogadóttur. Þar fjallar hún á persónulegan hátt um forsetahlutverkið þar sem lesendur fá um leið að skyggnast inn í líf og störf Vigdísar Finnbogadóttur. Bókin varð metsölubók og fékk einstaklega góða dóma lesenda og gagnrýnenda fyrir vandaða framsetningu.

Meðal skáldsagna eftir Steinunni má nefna Ástin fiskanna (1993), Hjarastaður (1995), Hanami (1997), Jöklaleikhúsið (2001), Hundrað dyr í golunni (2002), Sólskinshestur (2006), Góði elskhuginn (2009), Jójó (2011) og Fyrir Lísu (2012). Steinunn hlaut Íslensku bókmenntaverðlaunin árið 1995 fyrir skáldsöguna Hjartastað og hefur alls hlotið sex tilnefningar til verðlauna. Hjartastaður var tilnefnd til Bókmenntaverðlauna Norðurlandaráðs sem og Tímaþjófurinn. Steinunn hlaut verðlaun Jónasar Hallgrímssonar 2014.

Steinunn hefur sent frá sér ljóðabækur jafnt og þétt síðan 1969, þar á meðal Hugástir og ástarljóð af landi. Enn fremur hefur hún samið smásagnasögn, barnabók og svo sjónvarps- og útvarpsleikrit.
Steinunn hefur lengi verið í hópi vinsælustu rithöfunda þjóðarinnar. Verk hennar eru þýdd yfir á önnur tungumál, einkum þýsku og frönsku, og nú síðast á ensku og njóta þau vinsælda á erlendri grundu.. Skrif Steinunnar einkennast af þéttum söguþræði, húmor, kaldhæðni, skopstælingum og listilega útfærðum orðaleikjum.

Nýjasta skáldsaga Steinunnar, Gæðakonur kom út hjá Bjarti árið 2014 við góðar Gæðakonur-175x260undirtektir og var meðal annars kölluð „Frábært listaverk.“ Á bókakápu segir:
„Í skáldsögunni Gæðakonur kemur Steinunn Sigurðardóttir að lesandanum úr óvæntri átt. Hún sýnir hér allar sínar bestu hliðar: ískrandi kaldhæðni, flugbeittur stíll, leiftrandi húmor og einstök innsýn í heim alls kyns ásta og erótíkur.“

Steinunn hefur búið á ýmsum stöðum í Evrópu, þar á meðal í París og Berlín. Hún var á þessu ári boðin fyrst höfunda til háskólans í Strassborg undir merkinu “Écrire L’Europe” sem felur í sér fyrirlestrahald og kennslu í skapandi skrifum.

Hér má sjá nánari upplýsingar um starfsferil og ritverk Steinunnar.

Pallborðsumræður: Formleg opnun Bókmenntahátíðar í Reykjavík í Norræna húsinu & Sögur sem ferðast og breytast