Yoko Tawada

2019

Yoko Tawada er fædd og uppalin í Tókíó þar sem hún nam rússneskar bókmenntir en fluttist til Hamborgar rétt rúmlega tvítug þaðan sem hún útskrifaðist með meistaragráðu í þýskum samtímabókmenntum árið 1990. Tíu árum síðar varð hún doktor í þýskum bókmenntum frá Háskólanum í Zurich og árið 2006 fluttist hún til Berlínar þar sem hún hefur búið allar götur síðan. Tawada skrifar ljóð, smásögur, skáldsögur, leikrit og greinar og skrifar jöfnum höndum á japönsku og þýsku.

1993 vöktu skrif hennar fyrst verulega athygli utan Japan þegar hún vann til Lessing verðlaunanna og fimm árum síðar var safn þriggja sagna hennar, Inu muko iri, gefið út í enskri þýðingu Margaret Mitsutani sem hefur síðan þýtt mörg af skáldverkum hennar. Síðan hefur hún hlotið fjölmörg verðlaun víða um heim.

Árið 2011 skrifaði Tawada þrjár sögur sem hverfðust um þrjár kynslóðir ísbjarna og tengsl þeirra við menn. Skrifin voru innblásin af ísbirninum heimsfræga, Knúti, sem var alinn upp af starfsfólki Dýragarðsins í Berlín þar sem hann lést fjögurra ára gamall. Tawada skrifaði sögurnar bæði á japönsku: Yuki no renshusei, og þýsku: Etüden im Schnee, og komu þær út í báðum löndum og vöktu mikla athygli. Bókin birtist í enskri þýðingu árið 2016 sem Memoirs of a Polar Bear og Angústúra gaf hana út 2018 í undir nafninu Etýður í snjó í þýðingu Elísu Bjargar Þorsteinsdóttur.