Tom Malmquist

2019

Svíinn Tom Malmquist hafði getið sér gott orð sem ljóðskáld áður en hans frægasta verk, I varje ögonblick är vi fortfarande vid liv (í. Hvert andartak enn á lífi) kom út árið 2015.

Bókin er sjálfsævisöguleg og byggir á þeim atburðum í lífi höfundar þegar Karin, sambýliskona hans var greind með bráða-mergfrumuhvítblæði þegar hún var gengin 33 vikur með fyrsta barn þeirra hjóna. Dóttirin Livia var tekin með keisara, alheilbrigð, en Karin lést aðeins viku síðar og faðir höfundarins lést sömuleiðis úr krabbameini nokkrum mánuðum síðar.

Hvert andartak enn á lífi hefur farið sigurför um heiminn og rakað að sér viðurkenningum. Hún hlaut Karin Boys bókmenntaverðlaunin árið 2015, Menningarverðlaun Dagens Nyheter árið 2016 og var tilnefnd til Bókmenntaverðlauna Norðurlandaráðs sama ár svo dæmi séu tekin. Þá hefur útgáfurétturinn verið seldur til fjölmargra landa. Hvert andartak enn á lífi kom út hjá Forlaginu 2018 í þýðingu Davíðs Stefánssonar.