Merete Pryds Helle

2019

Danska skáldkonan Merete Pryds Helle hefur getið sér gott orð fyrir smásögur sínar jafnt sem skáldsögur en einnig hefur hún skrifað barnabækur, greinar, útvarpsleikrit og ljóð. Þá hefur hún skrifað fyrir tölvuleiki, sms og spjaldtölvur en hún hefur verið leiðandi í sköpun skáldskapar sem hannaður er fyrir slíka miðla.

Pryds Helle er fædd og uppalin í Kaupmannahöfnd en bjó árum saman á Ítalíu með þáverandi manni sínum, rithöfundinum Morten Søndergaard. Saman skrifuðu þau hjónin glæpasögur undir höfundarnafninu, Liv Mørk.

Hún vakti fyrst verulega athygli sem höfundur með skáldsögunni Fiske i livets flod árið 2000. Hennar frægasta verk er þó sennilega fjölskyldusagan Folkets skønhed frá árinu 2016 en hún byggir þar á sögu móður sinnar sem ólst upp í stórum systkinahópi í mikilli fátækt á Langeland í Danmörku.

Fyrir Folkets skønhed hlaut Pryds Helle Gyllta lárviðarlaufið og var auk þess tilnefnd til fjölmargra annarra verðlauna svo sem bókmenntaverðlauna danska ríkisútvarpsins (DR). Þá fékk Pryds Helle Beatrice verðlaunin árið 2009, Dönsku bókmenntaverðlaun kvenna árið 2013 og Bókmenntaverðlaun Politiken árið 2016. Folkets skønhed kom út hjá Forlaginu árið 2018 í íslenskri þýðingu Magneu J. Matthíasdóttur undir nafninu Það sem að baki býr.