Hannelore Cayre

2019

Hin franska Hannelore Cayre er rithöfundur, leikkona, handritshöfundur, kvikmyndaleikstjóri og síðast en ekki síst starfandi lögfræðingur á sviði refsiréttar í París. Með bakgrunn sinn úr réttarsölum Frakklands er ekki að undra að hún þykir draga upp einstaklega trúverðuga mynd af innviðum franskra dómstóla sem og undirheimum Parísar.

Fyrsta bók hennar, Commis d’office, kom út árið 2004, hlaut mikið lof og var kvikmynduð árið 2009. Árið 2017 hlaut Cayre frönsku Polar verðlaunin sem veitt eru ár hvert þeirri evrópsku glæpasögu sem þykir skara fram úr. Verðlaunin hlaut hún fyrir fimmtu glæpasögu sína, La Daronne sem nú er verið að kvikmynda með frönsku leikkonunni Isabelle Huppert í aðalhlutverki.