Fríða Ísberg

2019

Fríða Ísberg er fædd 1992. Fyrsta ljóðabók Fríðu, Slitförin, kom út árið 2017 og var tilnefnd til Fjöruverðlaunanna, en fyrir bókina hlaut Fríða Bóksalaverðlaunin fyrir bestu ljóðabókina og Nýræktarstyrk Miðstöðvar íslenskra bókmennta. Smásagnasafnið Kláði var með umtöluðustu bókum jólavertíðarinnar 2018, en hún hlaut einnig tilnefningu til Fjöruverðlaunanna. „Umfjöllun um mannleg tengsl og tengslaleysi liggur eins og rauður þráður í gegnum bókina auk þess sem hún endurspeglar á næman hátt þær kröfur sem nútímasamfélag gerir til fólks en ekki síður þær sem við gerum sjálf, meðvitað eða ómeðvitað, til annarra,“ segir í umfjöllun dómnefndar. Fríða hefur auk þess gefið út ljóðabækurnar Ég er ekki að rétta upp hönd og Ég er fagnaðarsöngur ásamt ljóðakollektífinu Svikaskáldum. Hún skrifar af og til rýni fyrir breska bókmenntatímaritið The Times Literary Supplement.