Óskar Árni Óskarsson, ljóðskáld, rithöfundur og þýðandi

Ljósmynd: Kristinn Ingvarsson

Óskar Árni Óskarsson – Ljósmynd: Kristinn Ingvarsson

Óskar Árni Óskarsson fæddist árið 1950. Fyrsta ljóðabók hans, Handklæði í gluggakistunni kom út árið 1986 en síðan þá hefur Óskar Árni sent frá sér fjölmargar ljóðabækur. Óskar Árni ritstýrði og gaf út bókmenntatímaritið Ský sem kom út á árunum 1990 – 1994. Hann hefur einnig fengist mikið við þýðingar á ljóðum og skáldverkum. Meðal annars hefur Óskar Árni sent frá sér þrjár bækur með japönskum hækuþýðingum eftir skáldin Basho, Issa og Buson. Árið 2010 var hann tilnefndur til Íslensku þýðingaverðlaunanna fyrir bókina Kaffihús tregans eftir ameríska rithöfundinn Carson McCullers.
Einnig ber að nefna þýðingu Óskars Árna á bókinni Sendiferðin sem er eftir einn fremsta smásagnahöfund 20. aldar, Raymond Carver. Þá þýddi Óskar Árni einnig bókina Það sem við tölum um þegar við tölum um ást eftir Carver.

Óskar Árni er ötult smáprósaskáld og hefur markað sér stöðu sem eitt athyglisverðasta skáld íslenskra samtímabókmennta. Tvær örsögur hafa komið út hjá Bjarti úr smiðju Óskars Árna, Lakkrísgerðin frá árinu 2001 og Truflanir í vetrarbrautinni frá árinu 2004. Sama ár og sú síðari kom út hlaut Óskar Árni verðlaun úr Rithöfundasjóði Ríkisútvarpsins fyrir ritstörf sín.

Árið 2008 sendi Óskar Árni frá sér ljóðrænu minningabókina Skuggamyndir úr ferðalagi sem gefin var út hjá Bjarti. Bókin fékk góðar móttökur lesenda og gagnrýnenda.
Á vef Forlagsins segir;Skuggamyndir-úr-ferðalagi-kilja

Ljóðskáld leggur land undir fót, ferðinni er heitið á vettvang liðinna atburða, til móts við horfinn tíma og gengnar kynslóðir. Smámyndir úr veruleikanum og fortíðinni raðast saman í áhrifamikla ferðasögu í tíma og rúmi, ljóðræna minningabók og ættarsögu í brotum.Aðfengnir textar og ríkulegt úrval ljósmynda í frjóu samspili við lesmálið víkka og dýpka frásögnina í þessu frumlega og fallega verki. Lifandi skáldskapur sem einkennist af næmi fyrir því smáa og stóra í mannlegri tilveru.

kudungasafnid-200Bókin Skuggamyndir úr ferðalagi var tilnefnd til Íslensku bókmenntaverðlaunanna árið 2008. Hún kom einnig út í þýskri þýðingu árið 2011 hjá bókaforlaginu Transit.
Nýjustu bækur Óskars Árna eru ljóðabókin Þrjár hendur frá árinu 2010 og prósabókin Kuðungasafnið frá árinu 2012.

Hér má sjá umfjöllun Úlfhildar Dagsdóttur um bókina Kuðungasafnið.

Hér má einnig sjá skemmtilegt viðtal við Óskar Árna.

Pallborðsumræður: Töfrar hversdagsleikans í bókmenntum