Nanna Rögnvaldardóttir, iðinn matreiðslubókahöfundur og þýðandi

NannaRognvaldardottir2015JPVlit

Nanna Rögnvaldardóttir

Nanna Rögnvaldardóttir fæddist árið 1957. Hún er mikil áhugamanneskja um matargerð og hefur gefið út fjölmargar matreiðslubækur sem miðla bæði fróðleik um mat og sögu matar ásamt gómsætum uppskriftum. Nanna byrjaði ung að safna matreiðslubókum og á í dag yfir 2200 bækur um mat og matargerð frá ýmsum heimshornum.
Meðal þekktra matreiðslubóka sem Nanna hefur sent frá sér er Matreiðslubók Nönnu frá árinu 2001 sem inniheldur 3.600 uppskriftir og fyrirfinnst víða í íslenskum eldhúsum og stórvirkið Matarást frá árinu 1998. Sú bók var tilnefnd til Íslensku bókmenntaverðlaunanna, hlaut viðurkenningu Hagþenkis og viðurkenningu bókasafnsfræðinga sem besta uppflettiritið.  887164_10152451112679810_6584085899340440370_o-1
Meðal annarra verka eftir Nönnu er bókin Lambakjöt frá árinu 2005 sem gefin var út af Gestgjafanum, Jólahefðir sem kom út sama ár hjá Nóatúni, Af bestu lyst 3. sem kom út árið 2008 sem hluti af safninu Af bestu lyst 1 – 3, Maturinn hennar Nönnu frá árinu 2009, Smáréttir Nönnu frá 2010, Jólamatur Nönnu frá 2011, Múffur í hvert mál frá árinu 2012, Kjúklingaréttir Nönnu frá 2013, Ömmumatur Nönnu sem kom út árið 2015 og bókin Sætmeti án sykurs og sætuefna sem einnig kom út á þessu ári.
doesNanna hefur einnig skrifað bækur á ensku sem fjalla um íslenska matargerð. Þar ber helst að nefna bókina Icelandic Food and Cookery frá 2002 sem gefin var út aftur í endurbættri útgáfu árið 2014, Cool Cuisine frá 2004, Cool Dishes sem kom út sama ár, 2004 og bókin Does anyone actually eat this? Sem er kver um íslenska sérrétti og kom út árið 2014.
Þá hefur Nanna einnig þýtt erlendar matreiðslubækur yfir á íslensku.

Nanna hefur skrifað fjölda greina um mat og matreiðslu í blöð og tímarit og haldið erindi á ráðstefnum um sérgrein sína. Hún heldur uppi glæsilegri vefsíðu þar sem finna má fjölda uppskrifta ásamt myndum. Þar má einnig finna nánari upplýsingar um ritstörf hennar og útgefnar bækur.

Pallborðsumræður: Matur í bókmenntum og bókmenntir um mat