Lestrarsprettur Bókmenntahátíðar og Eymundsson 5.-8. september

Eymundsson og Bókmenntahátíð í Reykjavík hafa ákveðið að skipuleggja Lestrarsprett í sýningarglugga Eymundsson í Austurstræti dagana 5. til 8. september. Lestrarspretturinn er tekin til styrktar Ljósinu, endurhæfingar- og stuðningsmiðstöð fyrir fólk sem hefur fengið krabbamein og aðstandendur þess.

Lestrarsprettur

1F3B1576

Lestrarspretturinn fer þannig fram að þátttakendur, einn í senn, koma sér fyrir í þægilegum hægindastól í notalegu lestrarumhverfi í glugga Eymundsson í Austurstræti og lesa. Gert er ráð fyrir að sprettur hvers og eins standi í um það bil klukkustund og að hver þátttakandi lesi bók að eigin vali. Að lestri loknum skráir þátttakandi í dagbók, hvaða bók hann las, hvar hann byrjaði og hvar hann endaði, auk þess að skrifa nokkur orð um verkið. Tekið skal sérstaklega fram að engu skiptir hvort lesið er mikið eða lítið, sögur leikrit eða ljóð. Þá eru innbyrðis afköst þátttakenda  ekki skoðuð sérstaklega. Þátttakendum er enn fremur velkomið að dotta ef notaleg höfgi sígur yfir þá við lesturinn.

Spretturinn fer fram á opnunartíma Eymundsson í Austurstræti og í sýningarglugga verslunarinnar til þess að auðvelda áhorfendum að fylgjast með. Hann hefst klukkan 11 að morgni 5. september og honum lýkur að kvöldi sunnudagins 8. september.

Nokkur hópur manna hefur þegar skráð sig til þátttöku í Lestrarsprettinum. Er þar um að ræða fólk úr flestum lögum þjóðfélagsins: íþróttafólk, sófaspekinga, garðyrkjumenn, skáld, dúklagningarmenn, stjórnmálamenn og ekki síst hreina letihauga. Tekið skal fram að öllum er velkomið að taka þátt. Hægt er að skrá sig bæði með því að koma við í Eymundsson í Austurstræti eða með því að senda póst á svanborgs@eymundsson.is.

Hægt er að styrkja Ljósið með því að hringja í eftirfarandi styrktarnúmer:

901-5011 = 1.000 krónur
901-5013 = 3.000 krónur
901-5015 = 5.000 krónur

Einnig er hægt að leggja inn frjáls framlög á reikning Ljóssins, margt smátt gerir eitt stórt!

Reikningur: 0130-26-410420
Kennitala: 590406-0740

Um Ljósið
Ljósið er endurhæfingar- og stuðningsmiðstöð fyrir fólk sem hefur fengið krabbamein og aðstandendur þess. Markmið Ljóssins er að fólk fái sérhæfða endurhæfingu og stuðning, þar sem fagfólk aðstoðar við að byggja upp líkamlegt og andlegt þrek, auk þess að fá stuðning við að setja sér markmið sem auka daglega virkni og hafa þannig áhrif á lífsgæði almennt.