Kim Stanley Robinson, landkönnuður sólkerfisins

Kim Stanley Robinson (f. 1952) er bandarískur rithöfundur vísindaskáldsagna.
Robinson er hvað þekktastur fyrir margverðlaunaðan þríleik sinn sem kenndur er við plánetuna Mars. Þar segir frá landnámi manna á Mars og mótun nýs samfélags á nýjum stað. Í sögunni er jörðin að verða óbyggileg sökum mikils mannfjölda og neikvæðra áhrifa manna á umhverfi sitt. Plánetan Mars er mikið eftirlæti Robinsons og notar hann plánetuna sem sögusvið í mörgum verka sinna.
Bækur Robinsons hafa unnið til fjölda verðlauna á sviði vísindaskáldskaps. Þar ber helst að nefna Hugo verðlaunin sem hann hlaut árið 1994 og 1997 og Nebula verðlaunin sem hann hlaut árið 1993 og 2012.

Kim Stanley Robinson

Í verkum sínum kemur Robinson inn á ýmiss félagsmál sem snerta mannkynið í heild sinni. Umhverfismál eru höfundi afar hugleikin og hefur hann talað víða um heim um þau og haft áhrif á aðra höfunda, til dæmis hina kanadísku Naomi Klein.
Árið 2008 hlaut hann viðurkenninguna „Hero of the Enviroment“ af tímaritinu Time.

Bók Robinsons 2312 sem kom út árið 2012 hefur hlotið mikla athygli og verið þýdd yfir á fjölmörg tungumál víðs vegar um heiminn. Þar hefur mannkynið yfirtekið sólkerfið. Sú bók vann til Nebula verðlauna árið 2012.
Í nýjustu vísindaskáldsögu sinni sem ber heitið Aurora og kom út í júní 2015, fá lesendur að lesa um fyrstu ferð mannsins út fyrir sólkerfið. Bókin hefur vægast sagt fengið góða dóma.

Pallborðsumræður: Umhverfið, framtíðin og framtíð skáldskaparins & The Hard Problem