Jónína Leósdóttir

Mynd: Elísa Björg Magnúsdóttir

Jónína er fædd í Reykjavík 16. maí 1954. Hún hefur skrifað æviminningabækur,  skáldsögur, barna- og unglingabækur og fjölda smásagna. Leikrit eftir Jónínu hafa verið sýnd í Sjónvarpinu og verk eftir hana verið flutt í Útvarpsleikhúsinu. Auk þess var leikrit hennar, Leyndarmál, flutt í þremur framhaldsskólum og stuttir leikþættir eftir Jónínu hafa verið sýndir vítt og breitt um landið, síðast á Act Alone-einleikjahátíðinni á Ísafirði sumarið 2008.

Jónína stofnaði Fjöruverðlaunin, bókmenntaverðlaun kvenna, ásamt nokkrum öðrum rithöfundum árið 2007. Hún er nú heiðursfélagi samtakanna sem standa að veitingu verðlaunanna.

Jónína Leósdóttir hefur starfað sem blaðamaður og ritstjóri um tveggja áratuga skeið og þýtt skáldsögur og bækur af öðrum toga. Frá 2006 hefur hún eingöngu unnið við bókaskrif og nýjustu skáldsögur hennar fjalla um orkumiklu eftirlaunakonuna Eddu sem leysir ýmsar ráðgátur, oft í óþökk lögreglunnar. Fyrsta bókin um Eddu, Konan í blokkinni, kom út 2016 og er tilnefnd til Blóðdropans, íslensku glæpasagnaverðlaunanna. Önnur bókin í Eddu-seríunni kom út í janúar 2017 og þriðja bókin er væntanleg 2018.