Jón Gnarr, rithöfundur, leikari og fyrrum borgarstjóri Reykjavíkur

Jón Gnarr

Jón Gnarr fæddist árið 1967. Hann er rithöfundur, leikari og fyrrverandi borgarstjóri Reykjavíkur (2010 – 2014) fyrir hönd Besta flokksins. Þá hefur hann einnig skrifað efni fyrir sjónvarp og útvarp.
Flestir Íslendingar þekkja útvarpsþáttinn Tvíhöfða. Þættinum stjórna tvíeykið Jón Gnarr og Sigurjón Kjartansson. Þátturinn lifði góðu lífi í fjöldamörg ár en tók sér svo langt hlé. Á þessu ári, 2015 hóf hlaðvarp Kjarnans að senda út þáttinn aftur en þar koma þeir félagar saman vikulega.
Jón varð síðan hluti af einum vinsælasta grínhóp síðari ára – Fóstbræðrum. Fóstbræður voru á dagskrá Stöðvar tvö frá árunum 1997 – 2000. Alls komu út fimm seríur af þáttunum. Jón sló aftur í gegn nokkrum árum síðar með sjónvarpsþáttunum Næturvaktin (2007), Dagvaktin(2008) og Fangavaktin(2009). Þar fór Jón með aðalhlutverkið í þáttunum sem Georg Bjarnfreðarson. Fyrir túlkun sína á honum hlaut hann Edduverðlaunin árið 2010. Jón hefur fengið á annan tug Edduverðlauna á ferli sínum bæði sem handritshöfundur, framleiðandi og leikari.

Jón sendi frá sér skáldsöguna Miðnætursólborgin árið 1989 og Plebbabókina árið 2002. Árið 2006 sendi Jón frá sér skálduðu ævisöguna Indjáninn. Indjaninn-175x288
Í bókinni segir: „Fæðing mín er annað reiðarslag fyrir fjölskylduna. Að vísu er ég ekki þroskaheftur. Það er léttir. En eftir fæðinguna blasir önnur hryllileg staðreynd við: Ég er rauðhærður. Það hefði ekki getað verið meira áfall þótt ég hefði verið svartur.“
Bókin er byggð á æskuminningum Jóns og vakti hún mikla athygli lesenda og gagnrýnenda. Árið 2012 kom út sjálfstætt framhald Indjánans sem ber nafnið Sjóræninginn. Þar er umfjöllunarefnið það sama en í bókinni skrifar Jón um líf sitt að loknum grunnskóla og fram á fullorðinsár. Indjáninn og Sjóræninginn hafa báðar verið þýddar á ensku og þýsku og hlotið góðar viðtökur. Þriðja bókin í seríunni, Útlaginn, mun koma út haustið 2015.

{76B75FD8-48C3-4503-9D1C-D0F85F4060A4}Img100Jón gaf einnig út bókina Gnarr: How I Became the Mayor of a Large City in Iceland and Changed the World árið 2014 hjá bandaríska forlaginu Melville House. Sú bók vakti heimsathygli.
Á dögunum var Jón ráðinn ritstjóri innlendrar dagskrár hjá 365 miðlum.

Hér má sjá viðtal við Jón Gnarr sem birtist á heimasíðu fréttamiðilsins The Guardian.

Pallborðsumræður: Sannar sögur og falsaðar