Jakobína

Alls eru fimm af þeim 63 íslensku höfundum sem tekið hafa þátt í Bókmenntahátíð í Reykjavík frá upphafi nú látnir. Þetta eru þau Björn Th. Björnsson, Einar Bragi, Jakobína Sigurðardóttir, Stefán Hörður Grímsson og Thor Vilhjálmsson.

Þrátt fyrir að þessi skáld og höfundar hafi yfirgefið okkur þá lifir minning þeirra áfram og textar þeirra lifa góðu lífi. Á bókasöfnum lúra bækur þeirra og þær svala þorsta forvitinna lesenda, ýmist í lágstemmdri þögn eða á byltingarkenndan hátt.

Hér verður örstutt fjallað um Jakobínu Sigurðardóttur sem tók þátt í hátíðinni árið 1987, en hún lést sjö árum síðar. Jakobína fæddist í Hælavík á Hornströndum árið 1918 og var því orðin 41 árs þegar hún sendi  frá sér sína fyrstu bók árið 1959. Árið 1965 kom út hin merka bók Dægurvísa, saga úr Reykjavíkurlífinu. Hér eru upphafslínur bókarinnar:

Það hafa fallið skúrir meðan bærinn svaf. Ekki þessar stóru hvolfur, sem dynja á götunni dropi í dropa, óslitinn straumur beint niður úr himninum, ofsafengnar eins og tár ástríðuheitrar konu, heldur gegnsæjar skúrir, hlýjar í logninu, hljóðar eins og tár ellinnar, skærar og léttar eins og tár bernskunnar. (Dægurvísa, saga úr Reykjavíkurlífinu, 1978, Iðunn, Reykjavík, bls. 21)

Sagan hverfist um þriggja hæða hús í Reykjavík og þá þrettán íbúa sem þar búa í sex vistarverum. Í hverjum kafla fær lesandinn að skyggnast inn í heim einnar persónu í einu á meðan aðrir kaflar eru sagðir frá sjónarhorni götunnar og hússins sjálfs. Líf persónanna fléttast saman á ýmsan hátt og í raun má segja að Dægurvísa sé ein fyrsta íslenska skáldsagan þar sem hópsagan kemur fram. Þar er engin ein aðalpersóna en saman mynda bæði rýmið og persónurnar púsluspil sem raðast saman við sögulok. Í sögunni má finna ljóðræna kafla og gott stílnæmi. Lokasetningar bókarinnar kallast á við upphafið þar sem gatan og regnið koma aftur við sögu og morguninn í upphafi bókar er að kvöldi kominn:

Dagur er liðinn, kyrrð næturinnar nálgast. En gatan vakir enn, þó hún dotti öðruhvoru. Það er byrjað að rigna. Og þrestirnir hafa hægt um sig. En þeir þegja varla lengi. Þegar styttir upp, jafnvel áður en styttir upp, hefja þeir sönginn aftur, þetta lag, sem er þó varla neitt lag, sömu tónarnir aftur og aftur: — Lifa — lifa. (Dægurvísa bls. 208)

Þremur árum síðar gaf Jakobína út bókina Snaran. Sú bók er einnig um margt merkileg en hún er eintal þar sem ósýnileg og þögul manneskja er ávörpuð út alla bókina. Þetta er allsérstakt stílbragð og sýnir vel leikgleði Jakobínu þegar kom að stílnum. Eins og í Dægurvísu má finna beitta ádeilu á stjórnarfar og ríkjandi hugarfar. Sögusviðið er verksmiðja og sagan gerist í óljósri framtíð en lesandinn spyr sig óneitanlega hvort þessi framtíðarsýn hafi þegar ræst.

Þrjár af skáldsögum Jakobínu, Dægurvísa, Snaran og Lifandi vatnið, voru valdar sem framlag Íslands til Bókmenntaverðlaun Norðurlandaráðs. Jakobína gaf einnig um ljóðabækur, barnabók og endurminningar hennar komu út í bókinni Í barndómi árið 1994.

Jakobína Sigurðardóttir var, án nokkurs vafa, stórmerkilegur höfundur og fyrir þau ykkar sem enn hafið ekki lesið bækur hennar er óhætt að mæla með þeim.