Íslandsvinurinn David Mitchell

David Mitchell (1969) er breskur metsöluhöfundur sem hlotið hefur mikið lof fyrir verk sín og er einn vinsælasti samtímahöfundur Bretlands. Hann er til dæmis þekktur fyrir Cloud Atlas, sem samnefnd bíómynd var gerð eftir, og bókina The Bone Clocks sem tilnefnd var til Man Booker-verðlaunanna í fyrra.

20870_mitchell_david

David Mitchell

Mitchell er mikill Íslandsvinur og gerist The Bone Clocks að hluta til á Íslandi. Aðalpersónu sögunnar, rithöfundinum Crispin, er meira að segja boðið að taka þátt í Bókmenntahátíð í Reykjavík, en þó ekki fyrr en árið 2018.

Fyrir skömmu var Mitchell í viðtali við Morgunblaðið (28.12.2014) og þar kom meðal annars fram dálæti hans á Halldóri Laxness og Sjálfstæðu fólki sem honum þykir ein sú almagnaðasta bók sem hann hefur lesið. Meira segja í köflunum þar sem lítil atburðarás á sér stað, er hún samt stórkostleg lætur hann hafa eftir sér í öðru viðtali.

Það verður spennandi að sjá hvort reynsla Mitchells af Bókmenntahátíð í Reykjavík og Íslandsdvöl hans í þetta skiptið verði honum frekari innblástur í bækur.

Pallborðsumræður: Íslenskar bókmenntir sem innblástur