Hvað hefur Yann Martel verið að sýsla síðan 2003?

Kanadíski rithöfundurinn Yann Martel var gestur Bókmenntahátíðar í Reykjavík árið 2003. Bók hans Sagan af Pí (Life of Pi) kom út árið 2001 og sló í gegn um allan heim. Bókin kom út í íslenskri þýðingu Jóns Halls Stefánssonar í Neonbókaflokki Bjarts árið 2003. Ef marka má upplýsingar um Martel af alfræðisíðunni Wikipedia hefur hann ekki setið auðum höndum síðan hann sótti Ísland heim.

Frá september 2003 (væntanlega fljótlega eftir hátíðina) dvaldi hann í eitt ár í hinu fræga Alcatraz fangelsi og vann í kjölfarið að texta fyrir tónverk. Tvö verk hafa komið út en árið 2004 kom smásagan We ate the Childen Last (gerð hefur verið stuttmynd sem byggir á þeirri sögu, sjá sýnishorn hér) og árið 2010 kom út bókin Beatrice and Virgil. Á árunum 2007 til 2011 vann hann að nokkurs konar gjörningi þar sem hann sendi reglulega texta til forsætisráðherra Kanada.

Nýjustu fréttir herma að bíómynd byggð á Sögunni af Pí, í leikstjórn Ang Lee, sé væntanleg í kvikmyndahús á Íslandi í desember. Hér má sjá helstu upplýsingar um myndina. Það verður spennandi að sjá hvernig sögunni af sjávarháska Pí  verður gerð skil á hvíta tjaldinu.