Íslenskir höfundar 2013

AudurJonsdottirAuður Jónsdóttir er fædd árið 1973. Hún starfar sem rithöfundur og sjálfstæður blaðamaður og hefur skrifað greinar, pistla og viðtöl fyrir ýmis tímarit, dagblöð og útvarp.

Smásaga hennar, Gifting, birtist í tímaritinu Andblæ haustið 1997 og fleiri smásögur eftir hana hafa birst í blöðum og safnbókum síðan. Fyrsta skáldsaga Auðar, Stjórnlaus lukka frá árinu 1998, var tilnefnd til Íslensku bókmenntaverðlaunanna sama ár. Hún hefur síðan sent frá sér fleiri skáldsögur, auk bóka fyrir börn og unglinga, meðal annars bókina Skrýtnastur er maður sjálfur, frá árinu 2001, þar sem hún dregur upp mynd af afa sínum, Halldóri Laxness, en sú bók var einnig tilnefnd til Íslensku bókmenntaverðlaunanna, auk þess sem hún hlaut bæði viðurkenningu frá bóksölum og bókasafnsfræðingum.

Skáldsaga Auðar, Fólkið í kjallaranum, hlaut Íslensku bókmenntaverðlaunin 2004 og var tilnefnd til Bókmenntaverðlauna Norðurlandaráðs 2005. Tryggðarpantur var jafnframt tilnefnd til Íslensku bókmenntaverðlaunanna 2006. Auður var valin “hirðskáld” Borgarleikhússins 2009. Nýjasta skáldsaga Auðar heitir Ósjálfrátt og hlaut hún Fjöruverðlaunin, bókmenntaverðlaun kvenna árið 2012, auk þess sem hún var tilnefnd til Menningarverðlauna DV. Bækur Auðar hafa komið út á þýsku, dönsku, sænsku og hollensku.

Eyrún IngadóttirEyrún Ingadóttir sagnfræðingur og rithöfundur er fædd árið 1967. Hún hefur skrifað bækur og rit um sagnfræðileg efni, ævisögur og fleira, en gaf sína fyrstu skáldsögu, Ljósmóðurina, árið 2012. Hér er á ferðinni söguleg skáldsaga um ljósmóðurina Þórdísi Símonardóttur sem starfaði á Eyrarbakka á ofanverðri 19. öld og fram á þá 20. Í bókinni varpar Eyrún ljósi í líf Þórdísar og starfsumhverfi en jafnframt á tíðarandann á Íslandi á þessum tíma. Bókin hlaut góðar viðtökur þegar hún kom út og var meðal annars tilnefnd til Fjörðuverðlaunanna, bókmenntaverðlauna kvenna.

Gerður KristnýGerður Kristný er fædd árið 1970. Hún skrifar jöfnun höndum verk fyrir börn og fullorðna og hefur sent frá sér skáldsögur, ljóð, smásögur og leikrit auk annars efnis. Hún hefur hlotið margvísleg verðlaun og viðurkenningar, meðal annars Bókaverðlaun barnanna árið 2003 fyrir Mörtu smörtu, Bókmenntaverðlaun Halldórs Laxness árið 2004 fyrir skáldsöguna Bátur með segli og allt, Blaðamannaverðlaun Íslands fyrir Myndina af pabba – Sögu Thelmu árið 2005 og Vestnorrænu barna- og unglingabókaverðlaunin árið 2010 fyrir Garðinn. Sama ár hlaut Gerður Ljóðstaf Jóns úr Vör og Ljóðaverðlaun Guðmundar Böðvarssonar.

Árið 2007 var ljóðabókin Höggstaður tilnefnd til Íslensku bókmenntaverðlaunanna og Gerður hlaut þau verðlaun árið 2010 fyrir ljóðabókina Blóðhófni. Bókina byggir skáldið á sögu nöfnu sinnar Gymisdóttur úr Skírnismálum. Nýjasta ljóðabók Gerðar kom út árið 2012 og heitir hún Strandir.

Verk Gerðar Kristnýjar hafa verið gefin út á sænsku, norsku, dönsku, finnsku, þýsku, ensku, esperantó, bengölsku og hindí.

Gudmundur_AndriGuðmundur Andri Thorsson  er fæddur árið 1957. Hann hefur skrifað pistla í blöð um árabil, verið með vinsæla útvarpsþætti, starfað sem ritstjóri á bókaforlögum og ritstýrt Tímariti Máls og menningar tvívegis, tók aftur við ritinu árið  2009.

Fyrsta skáldsaga Guðmundar Andra, Mín káta angist, kom út árið 1988 og þótti þar kveða við nýjan tón. Síðan hefur hefur hann sent frá sér nokkrar skáldsögur, síðast Valeyrarvalsinn árið 2011. Hann hlaut Menningarverðlaun DV í bókmenntum fyrir Íslenska drauminn 1991 og var bókin einnig tilnefnd til Íslensku bókmenntaverðlaunanna sama ár. Skáldsagan Íslandsförin var tilnefnd til sömu verðlauna 1996. Valeyrarvalsinn er tilnefnd til Bókmenntaverðlauna Norðurlandaráðs árið 2013.

Bækur Guðmundar Andra hafa komið út á þýsku og finnsku og brátt mun Valeyrarvalsinn koma út í Þýskalandi, Frakklandi, Danmörku og í Noregi.

Hermann StefánssonHermann Stefánsson er fæddur árið 1968. Hann er menntaður í bókmenntum á Íslandi og á Spáni. Meðfram ritstörfum hefur Hermann starfað við allt milli himins og jarðar en á síðustu árum hefur hann mestmegnis helgað sig skriftum og birt skrif af öllu tagi á ýmsum vettvangi.

Fyrsta bók Hermanns er Sjónhverfingar sem Bjartur gaf út 2003, en hún er blanda af fræðibók og skáldverki. Skáldsagan Níu þjófalyklar kom svo út ári síðar og eftir það hefur Hermann meðal annars sent frá sér skáldsöguna Stefnuljós, smákrimmann Morð fyrir luktum dyrum og þrjár ljóðabækur, Borg í þoku, Högg á vatni og Ugluturn. Þá hefur hann skrifað leikrit, smáprósa og mikið af esseyjum. Hermann er tónlistarmaður og hefur gefið út lög og söngvatexta, ýmist einn eða með öðrum. Skáldsagan Algleymi frá 2008 kom út á þýsku árið 2011 og hlaut hún góða dóma þar í landi. Árið 2013 gaf Hermann út skáldsöguna Hælið í ritröðinni 1005.

Hermann hefur einnig þýtt verk margra erlendra höfunda, meðal annars Fásinnu Horacio Castellanos Moya, sem var gestur Bókmenntahátíðar í Reykjavík árið 2011.

Hugleikur DagssonHugleikur Dagsson listamaður og rithöfundur er fæddur árið 1977. Hann hefur þróað einstakan stíl í teiknimyndasagnagerð sinni sem er í senn kaldhæðinn og einfaldur. Hugleikur hefur gefið út fjölmargar bækur og vakið mikla athygli fyrir. Fyrstu bókina, Elskið okkur, gaf hann út sjálfur árið 2002 og í kjölfarið fylgdu bækurnar Drepið okkar (2003) og Ríðið okkur (2004). Árið 2005 hóf JPV að gefa út bækur Hugleikar og hafa komið út þónokkrar síðan, m.a. bækur í þessari sömu seríu.

Hugleikur hefur birt verk sín víða, til dæmis í nýjasta hefti teiknimyndasagnablaðsins Gisp! (2013). Á síðum Símaskrárinnar árin 2008 og 2009 birtist sagan Garðarshólmi og einnig hefur Hugleikur myndskreytt kennslubók í málsögu. Nýjasta teiknimyndasaga Hugleiks er bókin Enn fleiri dægurlög frá árinu 2012.

Bækur Hugleiks hafa verið gefnar út í Finnlandi, Svíþjóð, Frakklandi, Þýskalandi, Ítalíu og í Tékklandi og þær hafa einnig komið út á ensku.

RunarHelgi_©Jón Páll VignissonRúnar Helgi Vignisson rithöfundur og þýðandi er fæddur árið 1959 á Ísafirði. Rúnar Helgi lauk M.A. prófi í bókmenntafræði frá University of Iowa í Bandaríkjunum árið 1987 og er lektor í ritlist við Háskóla Íslands. Hann hefur skrifað fjölda greina í blöð og tímarit og unnið fyrir útvarp.

Fyrsta skáldsaga Rúnars Helga, Ekkert slor, kom út 1984. Hann hefur auk skáldsagna sent frá sér smásögur og þýtt fjölda erlendra bókmenntaverka, m.a. verk eftir bandaríska, ástralska og suður-afríska höfunda. Skáldsaga hans, Nautnastuldur, var tilnefnd til Íslensku bókmenntaverðlaunanna 1990. Rúnar Helgi hlaut Íslensku þýðingarverðlaunin 2005 fyrir þýðingu sína á Barndómi (Boyhood) eftir J.M. Coetzee en þess má geta að Coetzee var gestur Bókmenntahátíðar í Reykjavik árið 2007. Rúnar Helgi fékk Barnabókaverðlaun Menntaráðs Reykjavíkurborgar 2006 fyrir þýðingu á Sólvæng (Sunwing) eftir kanadíska rithöfundinn Kenneth Oppel.

Nýjasta verk Rúnars Helga er smásagnasafnið Ást í meinum (2012) en bókin inniheldur fimmtán smásögur sem tengjast saman efnislega og mynda sagnasveig. Umfjöllunarefnið er Rúnari Helga hugleikið og hefur verið áberandi í verkum hans: samskipti kynjanna og breytt staða karlmannsins í nútímanum. Fyrir Ást í meinum hlaut Rúnar Helgi menningarverðlaun DV.

@JPVStefán Máni er fæddur árið 1970. Fyrsta skáldsaga hans kom út árið 1996 og síðan hefur hann sent frá sér ellefu skáldsögur til viðbótar, nú síðast Úlfshjarta (2013). Með Úlfshjarta kveður við nokkuð nýjan tón hjá höfundi því bókin er skrifuð fyrir stálpaða unglinga (young adult).

Bækur Stefáns Mána hafa komið út í Danmörku, Svíþjóð, Frakklandi, Þýskalandi, Póllandi, Ítalíu, Tyrklandi og í Ástralíu. Kvikmyndin Svartur á leik eftir samnefndi bók frá 2004 kom út árið 2012 og hlaut góðar viðtökur. Þá hefur verið samið um kvikmyndaréttinn af Húsinu (2012) og Úlfshjarta.

Stefán Máni hlaut Blóðdropann, glæpasagnaverðlaun Hins íslenska glæpafélags, fyrir Skipið (2007) og Húsið (2012) og voru bækurnar báðar tilnefndar af hálfu Íslands til Glerlykilsins, norrænu glæpasagnaverðlaunanna. Hann vinnur nú að þrettándu skáldsögu sinni sem er væntanleg til útgáfu í haust.

SÖLVI BJÖRN @ Kristinn IngvarssonSölvi Björn Sigurðsson er fæddur árið 1978. Hann gaf út bókmenntatímaritið Blóðberg árið 1998, ásamt Sigurði Ólafssyni, og árið 2001 ritstýrði hann ljóðasafninu Ljóð ungra skálda sem Mál og menning gaf út. Þar með fetaði hann í fótspor Magnúsar Ásgeirssonar sem ritstýrði ljóðabók með sama nafni árið 1954. Sölvi Björn hefur, auk ritstjórnarstarfa, fengist töluvert við þýðingar og greinaskrif um bókmenntir.

 Sölvi Björn hefur bæði gefið út ljóðabækur og skáldsögur. Fyrsta ljóðabókin, Ást og frelsi, kom út árið 2000, og fyrsta skáldsagan, Radíó Selfoss, árið 2003 og hlaut bókin góðar viðtökur lesenda.

Árið 2006 gaf Sölvi út skáldsöguna Fljótandi heimur og þremur árum síðar kom út bókin Síðustu dagar móður minnar sem hlaut mikið lof, bæði lesenda og gagnrýnenda. Bókin kom síðar út á dönsku og er væntanleg til útgáfu í Bandaríkjunum á næsta ári.  Árið 2011 vakti Sölvi Björn mikla athygli fyrir bókina Dálítill leiðarvísir um heldri manna eldunaraðferð og gestakomur í Sauðlauksdal: eður hvernig skal sína þjóð upp reisa úr öskustó. Sögusviðið er Ísland á 18. öld. Það er ekki bjart yfir þjóðinni á þessum tíma en vonarglæta um betri tíð leynist hjá hinum aldurhnigna og blinda Birni Halldórssyni sem er nýverið snúinn aftur til heimahaganna með fyrstu kartöflurnar sem átti að rækta á Íslandi.

Í haust er væntanleg frá Sölva Íslensk vatnabók, verk í tveimur bindum, sem Sögur gefa út. Að sögn höfundar er Vatnabókin ævintýrabók og sögubók, um veiðimenn og landkönnuði, gamlar sögur af strokufiskum og hrognabændum, alls konar þjóðlegur fróðleikur í bland við landlýsingu og frásagnir af dularfullum atburðum við ár og vötn.

Þorsteinn frá HamriÞorsteinn frá Hamri (1938) hefur fyrir löngu tryggt sér sess meðal fremstu ljóðskálda sem ort hafa á íslenska tungu. Allt frá því hann gaf út sína fyrstu ljóðabók, Í svörtum kufli árið 1958, aðeins tvítugur að aldri, hefur hann mótað og fágað ljóðstíl sinn, og oft er talið að honum hafi tekist sérlega vel að bræða saman hina gömlu ljóðahefð og stílbrögð nýrrar aldar, ljóðmál módernismans.

Þorsteinn hefur einnig skrifað skáldsögur og sagnaþætti og eftir hann liggja margar þýðingar. Hann hefur hlotið margvíslegar viðurkenningar fyrir skáldskap sinn, meðal annars Íslensku bókmenntaverðlaunin árið 1992 fyrir ljóðabókina Sæfarinn sofandi. Þá var hann tilnefndur til Íslensku bókmenntaverðlaunanna árið 1995 fyrir Það talar í trjánum og 1999 fyrir Meðan þú vaktir. Þorsteinn fékk verðlaun á degi íslenskrar tungu árið 2009. Verk Þorsteins hafa verið þýdd á fjölmörg tungumál, meðal annars þýsku, ensku, frönsku, ítölsku, dönsku, sænsku og kínversku, auk esperantó og annarra tungumála.

Í haust kemur út 25. ljóðabók Þorsteins og hefur hún hlotið titilinn Skessukatlar.