Erlendir höfundar 2013

Svetlana AlexievichSvetlana Alexievitch, blaðamaður og rithöfundur frá Hvíta-Rússlandi er fædd árið 1948. Hún hefur skrifað fyrir blöð og tímarit en er þekktust fyrir bækur sínar sem hún hefur hlotið mikið lof og verðlaun fyrir. Þær fjalla einkum um upplifun venjulegs fólks af sögulegum atburðum eins og seinni heimstyrjöldinni, falli Sovétríkjanna, stríði Sovétmanna í Afganhistan og Chernobyl kjarnorkuslysinu en með efnistökum sínum tekst Alexievich að ljá ólíkum hópum þjóðfélagsins rödd, svo lesendur kynnast áður óþekktri hlið þessara atburða. Það gerir hún meðal annars með því að tala við fólk, hlusta, leyfa röddum þeirra, skoðunum, tilfinningum og sýn þeirra á atburðina að njóta sín. Hún hefur talað við þúsundir manna og hefur skráð sögu heillar þjóðar á 20. öld með þessum efnistökum.

Sjálf segist Alexievitch hafa átt erfitt með að skilgreina skrifin og finna þeim pláss en í raun eru bækur hennar byggðar á vitnisburðum, hún skrifar það sem hún heyrir og sér, frásagnirnar raðast saman svo úr verða margradda textar sem segja magnaðar sögur sem ekki mega gleymast. Meðal þekktustu verk Alexievitch er fyrsta bók hennar, The Unwomanly Face of the War (1985), sem segir frá upplifun kvenhermanna af stríðsrekstri og átökum í fyrri heimstyrjöldinni og frá hliðum stríðsins sem aldrei hafði verið sagt frá áður.

Fyrir bókina Voices from Chernobyl sem kom út árið 2005 hlaut Alexievitch National Book Critics Circle Award. Efnissöfnum fór fram á tíu ára tímabili og Alexivitch talaði við meira en 500 manns sem tengdust Chernobyl-slysinu með einhverjum hætti svo úr varð margradda frásögn af hörmulegum atburði sem hefur haft víðtækar afleiðingar. Alexievitch hlaut árið 2013 bókmenntaverðlaun þýskra bóksala, ein virtustu bókmenntaverðlaun Þýskalands. Nýjasta bók hennar, Time Second Hand (2013), kemur út í mörgum löndum í haust og hefur nú þegar verið gefin út á sænsku af Ersatz forlaginu.

Douglas CouplandDouglas Coupland er kanadískur rithöfundur, fæddur árið 1961. Hann er höfundur Generation X: Tales for an Accelerated Culture, bókar sem kom honum á kortið sem skáldsagnahöfundi og hlaut frábærar viðtökur, en með bókinni varð líka hugtakið X kynslóðin vel þekkt. Það vísar til kynslóðarinnar sem náði fullorðinsaldri seint á níunda áratugnum og segir bókin frá lífstíl þessara ungmenna. Generation X hafði gríðarleg áhrif á þennan hóp fólks.

Coupland hefur gefið út þrettán skáldsögur, auk smásagnasafna og rita almenns efnis. Þá hefur hann skrifað handrit fyrir kvikmyndir og sjónvarp. Umfjöllunarefnin eru af ýmsum toga: póstmódernismi, netið, kynferðismál og popp menning. Ný skáldsaga er væntanleg frá Coupland nú í október og heitir hún Worst. Person. Ever.

Coupland er einnig vel þekktur sem listamaður og hefur haldið fjölda sýninga á verkum sínum og þau má finna á ýmsum stöðum. Í sumar er væntanlegt frá Coupland ritgerðasafn um listir og menningu sem ber heitið Shopping in Jail.

Kiran DesaiKiran Desai er fædd á Indlandi árið 1971 en býr í Bandaríkjunum. Fyrsta bók hennar, Hullaballoo in the Guava Orchard, kom út árið 1998 og hlaut góðar viðtökur. Bókin segir frá ungum manni í litlu indversku þorpi sem ákveður að setjast að uppi í tré og koma sér þannig undan skyldum fullorðinsáranna. Frægasta verk Desai er bókin The Inheritance of Loss frá árinu 2006, en fyrir hana hlaut Desai mikið lof gagnrýnenda og lesenda og margvísleg verðaun, til dæmis Man Booker-verðlaunin það sama ár. Bókin er væntanleg á íslensku hjá Múltíkúltí í þýðingu Kjartans Jónssonar.

The Inheritance of Loss fjallar um indverskt samfélag, átökin á milli kynslóða, tveggja heima sýn, stöðu innflytjenda, hvað það er sem tapast og hvað það er sem varðveitist þegar flutt er á milli heimshluta.


Erpenbeck_(c) Katharina Behling16173_verkleinertJenny Erpenbeck
er þýskur rithöfundur, fædd í Austur-Þýskalandi árið 1967. Hún kemur úr fjölskyldu rithöfunda og menntafólks en foreldrar hennar og amma og afi fengust öll við skriftir af einhverju tagi. Að sögn höfundar var amma hennar sískrifandi og birtist hún í einni af bókum Erpenbeck sem kona sem ferðast um með ritvél.

Erpenbeck er einkum þekkt fyrir skáldverk sín en hún hefur einnig skrifað leikrit og smásögur. Erpenbeck skrifar nóvellur, stuttar skáldsögur og kom sú fyrsta, Geschichte vom alten Kind (Story of the Old Child, Portobello 2005), út árið 1999. Hún vakti strax mikla athygli fyrir meitlað orðfærið og magnaðan stíl og þykir með betri fyrstu verkum höfundar.

Fyrstu tvær bækur Erpenbeck eru táknsögur sem í umfjöllun sinni um ungar stúlkur varpa jafnframt ljósi á þjóð sem á sér dimma fortíð. Í þriðju bókinni, Heimsuchung (Visitation), er aðalpersónan hús og lesandi kynnist íbúum þess og sögu hússins í gegnum mismunandi tímabil í sögu Þýskalands. Bókin hlaut afbragðsdóma og viðtökur bæði gagnrýnenda og lesanda og þykir Erpenbeck afar merkur höfundur, bæði í Þýskalandi og víðar.

Erpenbeck hefur hlotið ýmis bókmenntaverðlaun, bæði þýsk og alþjóðlegt, fyrir skrif sín og hefur verið þýdd á fjölda tungumála, meðal annars á ensku, dönsku og sænsku, svo íslenskir lesendur ættu að geta nálgast þennan höfund auðveldlega.

Kjell Espmark @Bruno EhrsKjell Espmark er sænskt ljóðskáld og rithöfundur, fæddur árið 1930. Hann er meðlimur í sænsku akademíunni, og tekur þar með þátt í vali á Nóbelsverðlauna í bókmenntum, og prófessor emeritus í bókmenntasögu við Stokkhólmsháskóla.

Fyrsta ljóðabókina gaf Espmark út 26 ára gamall, þá undir sterkum áhrifum frá T.S. Eliot, og telja útgefnar bækur hans nú hátt á fjórða tuginn, bæði ljóðabækur og fræðibækur, skáldsögur og smásagnasafn, en það kom út árið 2006 þegar Espmark var 76 ára gamall. Espmark hefur hlotið fjölda verðlauna fyir ljóðabækur sínar, til dæmis Tomas Tranströmer-verðlaunin árið 2010 og Capri verðlaunin árið 2012.

Njörður P. Njarðvík hefur þýtt ljóð Kjell Espmark og kom ljóðabókin Vetrarbraut út hjá Uppheimum árið 2010 og árið 2012 kom út bókin Skrifað í stein: ljóðaúrval. Verk hans hafa komið út á ýmsum tungumálum, meðal annars á ensku og kínversku. Hann þykir magnað skáld og hafa bækur hans hlotið afbragðsviðtökur lesenda og gagnrýnenda.

Nuka K. GodtfredsenNuka K. Godtfredsen er teiknimyndasagnahöfundur, grafískur hönnuður og listamaður, fæddur á Grænlandi árið 1970. Strax á unga aldri var hann farinn að munda penslana.

Godtfredsen er hvað þekktastur fyrir sögurnar um Andala en þær birtust vikulega í grænlenska dagblaðinu Sermitisiaq á fjögurra ára tímabili og nutu mikilla vinsælda. Andala er uppfinningamaður og honum hefur verið lýst sem svari Grænlendinga við Georgi gírlausa úr Andrésblöðunum. Síðar var sögunum um Andala safnað saman og þær útgefnar í tveimur sjálfstæðum bókum. Nú vinnur Godtfredsen að teiknimyndasögum um æskuár Andala og eru þær hugsaðar sem barnabækur. Árið 2002 hlaut hann grænlensk verðlaun fyrir sögurnar um Andala.

Teiknimyndasögurnar Oqaluttuaqs eða Frásagnir sýna fortíð Grænlands og hvernig menn hafa dregið fram lífið á norðurslóðum síðastliðin 4500 ár. Mikil rannsókn liggur að baki þessum sögum, því þær eru gefnar út í samstarfi við danska þjóðminjasafnið og eru hluti af Grænlandssýningu þess. Mikil áhersla er því lögð á að fornleifafræðin í sögunum sé rétt. Fyrsta bókin í flokknum segir frá mögulegum ástæðum þess að menn settust að á Grænlandi upphaflega og önnur bókin fjallar um komu Inúíta og fundi þeirra við norræna menn í kringum árið 1100. Tvær fyrstu bækurnar í seríunni hafa komið út á þremur tungumálum, grænlensku, dönsku og ensku og notið mikilla vinsælda. Þriðja bókin í flokknum mun fjalla um fundi Inúíta við hollenska og enska hvalveiðimenn og í fjórðu bókinni er horfið aftur í tímann til ársins 900.

Sýningin Qanga – teiknuð fortíð verður opnuð í Norræna húsinu samhliða komu Nuka Godtfredsen á Bókmenntahátíð í Reykjavík. Á sýningunni er að finna myndir úr Grænlandssögubókunum en auk þess hefur sérstök tónlist verið samin við sýninguna af Kristian B. Harting og Lill R. Björst. Nuka Godtfredsen er tilnefndur til sænsku Alma-verðlaunanna árið 2013.

Georgi GospodinovGeorgi Gospodinov er búlgarskt ljóðskáld, rithöfundur og leikritaskáld, fæddur árið 1968. Hann þykir einhver merkasti höfundur Búlgara og er sá búlgarski höfundur sem er hvað mest þýddur á erlend tungumál eftir árið 1989.

Fyrsta bók Gospodinovs var ljóðabók sem kom út árið 1992 en fyrir hana hlaut hann verðlaun fyrir bestu fyrstu bók ársins í Búlgaríu. Þrjár ljóðabækur hafa komið eftir það, og hafa ljóðin birst í þýðingum í ýmsum safnritum.

Fyrsta skáldsaga Gospodinovs er bókin Estestven roman (Natural Novel, Dalkey Archive 2005) frá árinu 1999 og er hún hans best þekkta verk. Hún hefur komið út á sautján tungumálum og verið prentuð sjö sinnum í Búlgaríu. Sagan þykir mögnuð, hún er marglaga og fer út um víðan völl. Bókin inniheldur fjöldann allan af styttri frásögnum og hugleiðingum og á köflum þykir hún afar fyndin. Meginstefið er frásögn manns hvers hjónaband er í molum. Bókin er væntanleg á íslensku hjá Dimmu í þýðingu Aðalsteins Ásbergs Sigurðssonar nú í sumar og ber heitið Náttúrleg skáldsaga.

Gospodinov hefur skrifað verðlaunaleikrit og kvikmyndahandrit, gefið út smásagnasöfn en hann hefur einnig tekið saman á netinu frásagnir fólks sem segir frá daglegu lífi og upplifunum á stjórnartíma kommúnista í Austur-Evrópu.

Rachel JoyceRachel Joyce er breskt leikritaskáld sem hefur samið meira en 20 útvarpsleikrit fyrir BBC og hlotið verðlaun fyrir. Jafnframt hefur hún skrifað bæði leikgerðir og þætti fyrir sjónvarp. Í henni blundaði draumur um að skrifa skáldsögu og árið 2012 varð sá draumur að veruleika þegar bókin Hin ótrúlega pílagrímsganga Harolds Fry varð til. Bókin skaut höfundi samstundis upp á stjörnuhiminninn og segir á hugljúfan hátt frá Harold Fry sem skreppur með bréf til dauðvona vinkonu sinnar í póst en sá skreppitúr breytist í göngu yfir landið þvert og endilangt. Fólk sem verður á vegi hans á leiðinni vekur með honum hugsanir um lífshlaup hans og gefur honum færi á að endurskoða sjálfan sig. Lesendur og gagnrýnendur hafa keppst við að hlaða bókina lofi.

Bókin var tilnefnd til Man Booker-verðlaunanna árið 2012 og Rachel Joyce fékk National Book Award það sama ár í flokknum Besti nýi höfundurinn. Bókin kom út á íslensku í þýðingu Ingunnar Snædal árið 2012. Bjartur gaf út. Í haust verður gefin út önnur bók eftir Joyce á íslensku.

Hermam KochHerman Koch er hollenskur rithöfundur, fæddur árið 1953, sem hefur vakið mikla athygli á undanförnum árum fyrir ágengan og hárbeittan stíl. Koch fjallar um samskipti fólks í nútímaþjóðfélagi og kryfjar ýmis samfélagsmein í verkum sínum. Hann hefur skrifað bæði smásögur og skáldsögur og hlotið mikla athygli fyrir verkin.

Bókin Kvöldverðurinn var valin Bók ársins í Hollandi árið 2009. Hún hefur komið á yfir 20 tungumálum, meðal annars á íslensku árið 2010 í þýðingu Jónu Dóru Óskarsdóttur og hlaut verðskuldaða athygli hér á landi. Bók Kochs, Sumarhús með sundlaug kom út í Hollandi árið 2011 og var tilnefnd til bókmenntaverðlauna þar í landi. Hún kom út á íslensku 2012 í þýðingu Rögnu Sigurðardóttur og hlaut frábærar viðtökur. Í dómum íslenskra gagnrýnenda var Koch meðal annars lýst sem höfundi sem afhúpar siði og siðgæðisbresti vestrænna samfélaga og sagt að með bókinni slægi Koch lesanda sinn utan undir í hreinskilnum lýsingum sínum á mannskepnunni. Forlagið gefur Herman Koch út á íslensku.

Kim LeineKim Leine er danskur rithöfundur, fæddur árið 1961. Hann er menntaður hjúkrunarfræðingur og starfaði við hjúkrun á Grænlandi í fimmtán ár. Hann gaf út sína fyrstu bók, Kalak, árið 2007 en bókina byggir hann meðal annars á eigin lífi, minningum og upplifun á Grænlandi. Aðalsöguhetjan ber sama nafn og höfundurinn sjálfur og segir bókin frá Kim, sem er fæddur inn í fjölskyldu Votta Jehóva í Noregi. Við sautján ára aldurinn flyst hann til föður síns í Danmörku, burtrekinn meðlim í söfnuðinum, og verður fyrir kynferðislegri misnotkun af hans hálfu. Í kjölfarið flyst hann til Grænlands. Söguefnið er óvægið og í bakgrunninum má lesa um ástandið á Grænlandi á tíunda áratugnum og hvernig Kim gengur að fóta sig þar.

Í næstu tveimur bókum eru umfjöllunarefni Leine sterklega tengd fjölskyldusögu hans og eigin lífi. Skilin á milli höfundar og sögupersónu eru óljós  og er það áfram svo í fjórðu bókinni, þar sem þó kveður við nokkuð nýjan tón.

Profeterne i Evighedsfjorden hlaut gríðargóðar viðtökur lesenda og gagnrýnenda sem hafa keppst við að hlaða hana lofi. Hún hlaut auk dönsku bóksalaverðlaunin og var tilnefnd til Bókmenntaverðlauna Norðurlandaráðs. Hér er á ferðinni söguleg skáldsaga sem segir frá Norðmanninum Morten Falck sem heldur einn til Grænlands til að boða trú á átjándu öld, lífsbaráttu hans, sigrum og ósigrum og samskiptum við Grænlendinga. Bókin er væntanleg á íslensku hjá Draumsýn í þýðingu Jóns Halls Stefánssonar.

Ewa LipskaEwa Lipska er pólsk skáldkona, fædd í Kraká árið 1945 og er eitt þekktasta ljóðskáld Pólverja. Ljóð hennar hafa verið þýdd á fjölda tungumála og hafa birst á íslensku í þýðingu Geirlaugs Magnússonar. Í haust eru væntanlegar fleiri þýðingar á ljóðum Lipska á íslensku. Hún hefur hlotið fjölda verðlauna fyrir ljóðagerð sína.

Lispka var 22 ára þegar fyrsta ljóðabókin kom út og nú telja bækurnar á þriðja tuginn. Sé miðað við fæðingarár og fyrstu útgefnu bók tilheyrir Lipska svokallaðri nýbylgjur pólskrar ljóðlistar en sjálf hefur hún ekki viljað skilgreina sig á þennan hátt. Henni hefur hvorki fundist hún tilheyra ákveðnni kynslóð eða stefnu og hefur með ljóðagerð sinni sýnt fram á listrænt sjálfstæði sitt.

Mazem MaaroufMazen Maarouf er palestínskt ljóðskáld, rithöfundur og blaðamaður, fæddur í Beirút í Líbanon árið 1978. Maarouf er með háskólapróf í efnafræði og starfaði áður sem blaðamaður. Hann gaf út fyrstu ljóðabók sína árið 2000 og fjórum árum síðar fylgdi önnur bók í kjölfarið. Þriðja ljóðabókin, An Angel on Clothesline, kom úr árið 2012 og er væntanleg í þýðingum, meðal annars á frönsku, og brátt verður gefið út úrval ljóða úr þessari bók í tvímála útgáfu: á íslensku og arabísku. Maarouf hefur verið þýddur á nokkur tungumál og hafa ljóðaþýðingar birst í ýmsum ljóðatímaritum.d

Sjálfur hefur hann þýtt yfir á arabísku, meðal annars bókina Skugga-Baldur eftir Sjón. Nú vinnur Maarouf að skáldsögu sem er innblásin af atburðunum í Sýrlandi.

Maarouf dvelur í Reykjavík um þessar mundir og er hér í boði Reykjavíkur sem skjólborgar fyrir ofsótta rithöfunda. Maarouf hefur unað sér vel í höfuðborginni en dvöl hans lýkur nú í haust.

Alain MabanckouAlain Mabanckou, franskur rithöfundur fæddur í Kongó árið 1966. Hann þykir meðal merkustu höfunda sem skrifa á frönsku um þessar mundir og er eitt stærsta afríska nafnið í frönskum bókmenntum. Hann fjallar einkum um hlutskipti svarta Frakka í Frakklandi og er ekki óumdeildur. Alain Mabanckou er prófessor í frönskum bókmenntum við UCLA.  Hann hefur gefið út tíu skáldsögur, ljóðabækur og ritgerðasöfn og hafa verk hans verið þýdd á ýmis tungumál, m.a. ensku og sænsk, og hefur hann hlotið verðlaun og viðurkenningar fyrir verk sín.

Í skáldsögunni African Psycho, le Serpent à Plumes (2003) segir af afrískum uppdiktuðum fjöldamorðingja og er hér um augljósa tilvísun í American Psycho eftir Brett Easton Ellis. Hins vegar segir Mabanckou að samanburðurinn nái ekki lengra en það, því sögusviðið og allt efni bókarinnar sé kyrfilega staðsett í Afríku. Önnur vel þekkt skáldsaga Mabanckou er bókin Verre cassé (2005) en í henni segir á gamansaman hátt af lífi kongólsks kennara á eftirlaunum. Sagan hefur verið sett upp sem leikverk nokkrum sinnum og hefur hlotið afbragðsviðtökur.

Alain Mabanckou situr einnig í dómnefnd fyrir PEN International vegna New Voices Award, nýrra verðlauna fyrir unga rithöfunda sem afhent verða árlega hér eftir. Þau verða afhent í fyrsta skipti á alþjóðlega PEN þinginu sem fram fer í Reykjavík samhliða Bókmenntahátíð.

Madeline MillerMadeline Miller er fædd í Bandaríkjunum árið 1978. Hún er klassískt menntuð og kennir grísku og latínu. Fyrsta og eina skáldsaga hennar er verðlauna- og metsölubókin The Song of Achilles sem kom út í septmber árið 2011. Fyrir hana hlaut Miller Orange verðlaunin árið 2012, en það eru bresk bókmenntaverðlaun kvenna og var Miller fjórði rithöfundurinn til að hljóta þessi virtu verðlaun fyrir fyrstu bók. Bókin er væntanleg á íslensku í þýðingu Þórunnar Hjartardóttur hjá Sölku.

The Song of Achilles er byggð á Ilíonskviðu Hómers og segir frá ástarsambandi Akkillesar og Patróklosar en þeir voru kappar sem börðust í Trójustríðinu í liði Grikkja. Sagan af sambandi þeirra er vel þekkt og hugmyndin um ástarsamband þeirra á milli kemur frá Plató og er því alls ekki ný af nálinni. Í Ilíonskviðu eru viðbrögð Akkillesar við fráfalli Patróklosar þau sömu og viðbrögð við fráfalli elskhuga. Miller fannst sagan áhugaverð og fann sig knúna til að skoða það nánar, kanna hver hann var í raun og veru þessi Patróklos og vekja áhuga nútímalesenda á Ilónskviðu og öðrum klassískum textum.

Steve SemSandbergSteve Sem-Sandberg er sænskur rithöfundur, gagnrýnandi og þýðandi, fæddur árið 1958. Hann er talinn einn af eftirtektarverðari rithöfundum sem skotið hafa upp kollinum í Skandinavíu síðasta áratuginn. Bækur hans TheresAllt förgängligt är bara en bild og Ravensbrück, sem saman mynda lauslega tengdan þríleik um þrjár konur sem settu mark sitt á 20. öldina með ólíkum hætti, uppskáru mikið lof gagnrýnenda.

Nýjasta skáldsaga hans, Öreigarnir í Lodz er áhrifamikil frásögn um gettó gyðinga í Póllandi í seinni heimsstyrjöldinni en þar segir frá Chaim Rumkowski, sögulegri persónu og misheppnuðum kaupsýslumanni sem verður eins konar konungur gettósins. Bókin var tilnefnd til Bókmenntaverðlauna Norðurlandaráðs árið 2010 og kom út í íslenskri þýðingu Ísaks Harðarsonar hjá Uppheimum árið 2011.

Sem-Sandberg var á gestalista Bókmenntahátíðar í Reykjavík árið 2011 en forfallaðist því miður á síðustu stundu. Það er því sérstök ánægja að geta boðið þessum merka höfundi hingað til lands að nýju.

Antonio SkarmetaAntonio Skármeta er rithöfundur frá Chile, af krótatísku bergi brotinn, fæddur árið 1940. Hann fór í útlegð, þegar Pinochet hrifsaði völdin í Chile árið 1973, og fluttist til Argentínu og svo til Vestur-Þýskalands þar sem hann bjó og starfaði til ársins 1989. Þá sneri hann aftur til heimalandsins enda var Pinochet þá ekki lengur við völd. Á árunum 2000 til 2003 var Skármeta sendiherra Chile í Þýskalandi.

Árið 1985 skrifaði Skármeta bókina Ardiente paciencia (Burning Patience) og gerði jafnframt bíómynd. Bókin varð síðar innblástur að Óskarsverðlaunamyndinni Bréfberinn (Il postino) frá árinu 1994 en myndin var tilnefnd til fimm Óskarsverðlauna. Sagan segir af ungum manni sem þráir eitthvað annað og meira í lífinu en að verða sjómaður eins og faðir hans. Honum býðst starf sem bréfberi og eini maðurinn sem fær bréf í þorpinu er skáldið Pablo Neruda. Sagan segir síðan frá samskiptum þeirra og örlögum bréfberans.

Í fyrra kom út bíómyndin No, en hún var jafnframt framlag Chile til Óskarsverðlaunanna árið 2012. Handritið er byggt á leikverki eftir Skármeta og segir myndin segir frá raunverulegum atburðum sem áttu sér stað í Chile árið 1988 þegar Pinochet boðaði til kosninga, vegna alþjóðlegs þrýstings og aukinna óvinsælda í heimalandinu, um framtíð sína á forsetastóli. Andstæðingar Pinochets skipulögðu áhrifaríka auglýsingaherferð þar sem landsmenn voru hvattir til þess að segja nei í kosningunum, og öllum að óvörum varð nei ofan á, og Pinochet lét þar með af embætti. Myndin hefur hlotið afbragðsviðtökur og skartar ekki minni stjörnum en Gael García Bernal í aðalhlutverki.

Verk Skármeta hafa verið þýdd yfir á meira en 30 tungumál og í haust kemur einmitt út á íslensku Póstmaðurinn hjá Sögum. Skármeta hefur hlotið fjölda verðlauna, meðað annars Prix Médicis Étranger í Frakklandi og Ennio Flaiano verðlaunin ítölsku. Þá hlaut hann Goethe medalíuna þýsku fyrir framlag til menningar.

Can XueCan Xue er kínverskur rithöfundur, bókmenntagagnrýnandi og klæðskeri , fædd árið 1953 í Hunan-héraði í Kína. Æska hennar var mörkuð af miklu harðræði og pólitískum ofsóknum, og voru foreldrar hennar, menntafólk, sökuð um að grafa undan kommúnisma. Fjölskylda hennar var send í vinnubúðir en sökum heilsuveilu slapp Can Xue undan því. Í æviminningum hennar kemur fram að fjölskyldan var oft nærri dauða en lífi af hungri á þessum tíma og erfitt var að draga fram lífið. Sökum alls þessa fékk Can Xue ekki hefðbundna skólagöngu sem unglingur en hins vegar sökkti hún sér í lestur skáldsagna á unglingsárum og notaði hverja lausa stund til bóklesturs.

Can Xue hefur skrifað þrjár skáldsögur, 50 nóvellur og um það bil 120 smásögur, auk greina um bókmenntir. Hún vakti athygli í byrjun tíunda áratugarins fyrir afar sérstakan stíl og óhefðbunda frásagnaraðferð. Nokkur smásagnasöfn hafa verið þýdd á ensku, nú síðast Vertical Motion (Open Letter Press, 2011) og Can Xue hefur verið orðuð við Nóbelsverðlaunin í bókmenntum allnokkrum sinnum. Hún byrjaði að skrifa árið 1983 og gaf út sína fyrstu smásögu árið 1985. Greinar hennar um bókmenntir fjalla m.a. um Kafka, Borges og Dante.